0708. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Út að borða

Liprir pennar

Ég er barnalæknir, með sérgrein í meltingarfærasjúkdómum og næringu barna, og starfa á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á Læknastofum Akureyrar. Ef fólk spyr um uppruna fær það svarið Garðbæingur. Búsetan í Garðabæ var þó ekki löng. Við læknabörn og læknar komum víða við. Sérnámið var í Osló og Bergen, dásamlegir staðir, en samt alltaf planið að flytja heim.

Eiginmann minn, Halldór Snæbjörnsson, fann ég í Mývatnssveit og við fjölskyldan vorum alltaf þar með annan fótinn á námsárum og í fríum. Ég vann á heilsugæslunni á Akureyri eitt sumar, prófaði afleysingu á barnadeild Fjórðungssjúkrahússins, sem nú er Sjúkrahúsið á Akureyri, og á systur búsetta hér. Okkur þótti því álitlegur kostur að flytja norður að sérnáminu loknu. Þannig kom þessi svokallaði Garðbæingur sér fyrir á Brekkunni. Krakkarnir 14 og 9 ára og skilgreina sig sem Mývetninga, allir ánægðir með valið. Nýlega kom fyrsta ömmubarnið og sannarlega bættist við ný vídd í tilveruna og aukaslög í hjartað.

Í starfinu vinn ég bæði sem meltingarlæknir barna og sem almennur barnalæknir, líka eitthvað við kennslu og rannsóknir. Breidd fagsins er skemmtileg og starfið fjölbreytt, en það getur alveg verið krefjandi að fást við allskonar brátt og sjaldgæft.

Á deildinni eru í góðu árferði fjórskiptar bakvaktir. Árferðið er þó breytilegt. Stundum eru vaktirnar fleiri og oft erum við að nýta hóp frábærra barnalækna sem eiga endingargóðar ferðatöskur. Milli vakta er svo Lífið Sjálft og það er eiginlega það sem ég ætlaði að skrifa um, því að án jafnvægis milli vinnu og tilverunnar koma mygluskemmdir í hvort tveggja.

Það sem ég ætla að segja um Lífið Sjálft eru engin geimvísindi og ekki einkauppgötvun. Útivist er kjarninn. Mér finnst sorglegt að hafa ekki fattað ánægju útivistar fyrr en um miðjan aldur, að ég hljóti að hafa misst af svo miklu. Sennilega er það umhverfið hér fyrir norðan sem skóp þessa þrá, eftir léttan undirbúning í norsku „ut på tur, aldri sur“ menningunni.

Bestu dagarnir byrja í ullarnærfataskúffunni, græja nesti og halda út í náttúruna. Enda daginn í heitum potti, fara beint aftur í náttfötin og endurtaka næsta dag. Nesti er auðvitað mikilvægt, hjá okkur hjónunum er hugtakið að fara „út að borða“ tekið mjög bókstaflega. Gönguskíði, ferðaskíði, fjallgöngur, göngur með ferðafélaginu eða á eigin vegum, hjólaferðir, stangveiði, kajakróður.

Nú þurfið þið ekki að halda að ég sé fim og hugrökk fjallageit – alls ekki, ég fer hægt yfir, aftast í hóp, með göngustafi og blæs vel. Aðalatriðið er að ég elska þetta og finn að þetta gerir mér gott. Unga fólk, prófið bara! Ekkert hreinsar hugann betur en væn raunveruleg mótbrekka og endorfíngusur um heilann. Viðbótarhobbí getur verið að staldra við og þykjast muna blómaheiti.

Ég ætla að segja ykkur frá nokkrum uppáhaldsstöðum, sem þið getið prófað þegar þið dveljið í orlofsíbúðinni eða komið í starfsviðtal á SAk. Nánar um leiðirnar má finna til dæmis á Strava eða visitakureyri.is.

• Norðan við Akureyri eru Krossanesborgir. Æðislegt svæði, fuglafriðland, með ávölum klettum, mjóum stígum, fámenni og hentar vel til 1-2ja tíma rólegrar göngu.

• Kjarnaskóg þekkja margir. Hægt er að lengja túrinn upp á hamrana eða í Naustaborgir. Á veturna er upplýst um gönguskíðafæri á fésbókarsíðu skógræktarfélags Eyfirðinga.

• Skólavarða í Vaðlaheiði er vinsæl trimmleið, 2-3ja tíma ferð í allt, 5,5 km og 550 m hækkun.

• Harðarvarða í Hlíðarfjalli, 6-7 km, 700 m hækkun. Gamall vegslóði liggur frá stólalyftu upp á klettabrúnina, þaðan sem gengið er að vörðunni til suðurs. Verðlaunaútsýni.

• Bæjarfjallið Súlur er um 10,5 km leið með 900 m hækkun. Veljið sólríkan dag, gott nesti og vindheldan jakka. Það er næs að geta horft út um skrifstofugluggann og hugsað „sjáðu tindinn, þarna fór ég“.

• Að lokum Uppsalahnjúkur á Staðarbyggðarfjalli; 11 km og um 800 m hækkun. Millilending er á Haus og hægt að láta þann kafla nægja. Á leiðinni áfram er stundum skafl, smá hliðarhalli og bratt í lokin, en ekkert sem Jón og Gunna ráða ekki við. Glæsilegt og víðfemt útsýni.

Ég vona að eitthvert ykkar nýti sér þessar hugmyndir og leyfið endilega útivistarbakteríunni að dafna.

U14-Groa-Bjork-Johannesdottir

Myndatexti: Gróa Björk Jóhannesdóttir barnalæknir telur upp frábærar útivistaperlur við Akureyri og hvetur lesendur til að leyfa útivistarbakteríunni að dafna. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica