0708. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Skrifaði um mismunandi hliðar slímseigjusjúkdóms

Doktorsvörn frá Háskólanum í Lundi: Helga Elídóttir

Helga Elídóttir varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við Háskólann í Lundi í Svíþjóð þann 26. apríl síðastliðinn. Ritgerðin ber heitið Aspects on the diverse manifestations of Cystic Fibrosis og fjallar um mismunandi hliðar slímseigju-sjúkdóms (CF). Andmælandi var dr. Mirjam Stahl frá Charité, háskólasjúkrahúsinu í Berlín.

Ritgerð hennar er í fjórum hlutum. Í þeim fyrsta eru tvær mismunandi skimunaraðferðir við skert sykurþol og sykursýki hjá börnum með CF bornar saman. Í öðrum hluta verkefnisins er notkun á tæki sem metur stífleika lifrarinnar og tengsl lifrarsjúkdóms við skert sykurþol og lungnastarfsemi meðal annars lýst. Í þriðja hluta er metið hvort lyfið lumacaftor-ivacaftor hafi áhrif á sykurþol og lungnastarfsemi hjá börnum og fullorðnum með CF. Sá fjórði lýsir CF á Íslandi.

Úr ágripinu

Slímseigjusjúkdómur (Cystic Fibrosis, CF) er fjölkerfa sjúkdómur þar sem alvarlegasta birtingarmynd sjúkdómsins kemur fram í lungum, brisi og lifur. Skima þarf reglulega fyrir þessum fylgikvillum og meðhöndla á réttan hátt og hafa ný lyf komið fram á undanförnum árum sem bæta horfur einstaklinga með þennan sjúkdóm.

Í framskyggnri rannsókn var skim-að fyrir CF-tengdri sykursýki hjá börnum og unglingum með samfelldri blóðsykurmælingu og sykurþolsprófi. Fyrrnefnda aðferðin tengdist frekar þáttum sem benda til skerts sykurþols og mat ekki sömu þætti og sykurþolsprófið. Börn með skert sykurþol reyndust hafa lakari lungnastarfsemi. Stífleiki lifrarinnar var metinn með tæki sem kallast
2 dimensional shear wave elastograpy. Aukinn stífleiki lifrar tengdist skertu sykurþoli, lægra D-vítamíngildi og lakari lungnastarfsemi.

Kannað var með afturskyggnri aðferð hvort genasértækt lyf, lumacaftor-ivacaftor, hefði áhrif á sykurþol og lungnastarfsemi hjá börnum og fullorðnum einstaklingum með CF og virtist lyfið hafa viss áhrif, sérstaklega við skert sykuþol. Við rannsókn á CF á Íslandi kom í ljós að þrátt fyrir að CF sé ekki eins algengt á Íslandi og í flestum öðrum löndum Evrópu er genabreytan N1303K með hæstu þekktu tíðni hér á landi.

Um doktorinn

Helga útskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands árið 2003. Hún starfaði á Landspítala, heilsugæslu og Barnaspítala Hringsins 2003-2008. Hún starfaði á háskólasjúkrahúsinu á Skáni í Svíþjóð á árunum 2008-2019, fyrst sem námslæknir og síðustu árin sem yfirlæknir barnalungnalækninga. Þar hlaut hún sérfræðiréttindi í barnalækningum árið 2011 og síðar sérfræðiréttindi í ofnæmissjúkdómum og lungnasjúkdómum barna.

Helga flutti aftur heim í lok árs 2019 og hefur starfað á Barnaspítala Hrings-ins síðan þá, en einnig að hluta til á lyflækningasviði Landspítala við göngudeild lungnalækninga fyrir fullorðna einstaklinga með CF. Helga hefur ennfremur verið með eigin rekstur hjá Domus barnalæknum síðan 2022. Hún stundaði doktorsnám meðfram vinnu við Háskólann í Lundi árin 2019-2024.

Hvað segir nýdoktorinn?

Af hverju vildir þú verða læknir?

„Ég hef aldrei haft neinn sérstakan áhuga á raungreinum en ég hef áhuga á fólki og mér fannst sjúkrahúsveröldin svo furðulegt fyrirbæri að mig langaði að kynnast henni betur.“

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

„Með fullri virðingu fyrir þeim sem setja hátt skor á skalann, get ég ekki sagt að þetta sé mjög erfitt í hinu stóra samhengi lífsins og gef þessu 4.“

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

„Ég myndi gera alla heilbrigðisþjónustu, lyf og hjálpartæki fyrir börn gjaldfrjáls og stuðla þannig að jöfnu aðgengi og réttlátara heilbrigðiskerfi fyrir börn.“

Hvað er það skemmtilegasta að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

„Ver tíma með mínu besta fólki, fjölskyldunni.“ 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica