0708. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Hlutleysi ekki sama og aðgerðaleysi

„Nú er tími aðgerða,“ sagði Mads Gilbert í sal Læknafélags Íslands. „Það er ekkert hlutleysi, þótt við læknar séum hlutlausir gagnvart sjúklingum okkar.“ Gilbert berst fyrir Gaza þar sem hann hefur oft starfað. Fyrst í byrjun níunda áratugarins og 2-3 sinnum á ári frá árinu 2006. Gilbert kom víða við hér á landi til að vekja fólk til umhugsunar um ástandið í Palestínu.

„Hvað hefði heimurinn sagt ef Rússar hefðu drepið svo marga heilbrigðisstarfsmenn í Úkraínu?“ spurði Mads Gilbert, verðlaunaður norskur læknir og prófessor emeritus, í sal Læknafélagsins þegar hann hélt þar erindi um ástandið á Gaza. Nærri 500 heilbrigðisstarfsmenn hefðu verið drepnir kerfisbundið. Tveir nánir samstarfsmenn hans pyntaðir. Annar þeirra dáið tíu dögum fyrir erindið.

Gilbert er sérfræðingur í svæfinga- og bráðalæknum við Norðurskautsháskólann í Noregi og yfirlæknir á bráðamóttökunni á háskólasjúkrahúsinu í Tromsö. Fundurinn var vel sóttur og haldinn af Læknafélaginu, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Félagi sjúkrahúslækna. Gilbert talaði um jafnræði þegar kæmi að heilbrigðiskerfi. Norðurlandabúar hefðu það svo gott að þeir hugsuðu ekki út í að grunnstoðir samfélagsins séu ekki alltaf til staðar. Mikill tími færi í að bjarga hverjum og einum. Þannig væri það ekki á Gaza.

Snúa verði mannlegum gjörðum

„Við norrænir læknar gerum allt til að bjarga einu lífi, notum þekkingu okkar sem byggð er á vísindum til að bjarga einu lífi. Höfum það í huga þegar ég tala um Gaza. Þetta er 100% manngert hörmungarástand,“ sagði Gilbert og sýndi óhugnanlegar myndir af afhöfðuðum eða gröfnum börnum í rústum samfélagsins. „Það er hægt að breyta þessu ástandi á einum degi, ef mannlegum gjörðum er snúið,“ sagði hann.

„Sjö mánuðir eru liðnir frá því að átökin hófust samt eru óvopnaðir borgarar drepnir á hverjum degi,“ sagði Gilbert sem talaði ekki aðeins við lækna, heldur hélt einnig erindi á Akureyri, í Háskóla Íslands og settist í sett Kastljóssins. Hann lýsti hvernig innviðir palestínsks samfélags hefðu verið sprengdir burt; allir tíu háskólarnir skemmdir, kennslustofurnar horfnar, 250 ljóðskáld drepin, sjúkrahúsin óstarfhæf. Allt þetta gerist þrátt fyrir að alþjóðastofnanir haldi tölu um afleiðingarnar og ástandið þekkt.

Læknar rótargreini ástandið

„Ef horft er á þetta með augum lækna og hjúkrunarfræðinga er rétt að spyrja: Hvernig gat þetta gerst? Hvernig komum við í veg fyrir að þetta gerist aftur? Við [læknar] erum þjálfuð til að finna rótina. Þetta hefur gengið svona í 75 ár.“ Hann benti á orð Joyce Msuya, aðstoðarframkvæmdastjóra mannúðarmála og staðgengils umsjónarmanns neyðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum frá 12. maí. Hún sagði: „Stríðið á Gaza er siðferðisblettur á sammannlegri samvisku okkar.“

Mads er virkur í vísindastarfi og hefur skrifað vísindagreinar um áverka (trauma) með palestínskum samstarfsmönnum á Gaza. Hann hefur einnig ritað tvær bækur; Eyes in Gaza og Natt i Gaza.

Hann sagði ekki hægt að skilja stríðið á Gaza. „Þetta er ekki stríð milli Hamas og Ísraels. Þetta er árás á Palestínu og tilraun til að taka Gaza.“ Hann sagði lækna þurfa að tala skýrt gegn árásunum. „Við þurfum að segja: Ekki í mínu nafni.“

U02-fig-2_1720019914776

Mads Gilbert kom víða við á för sinni um landið. Hann talaði um átakanlegt ástandið á Gaza, þessar
manngerðu hörmungar. Gilbert hefur ritað tvær bækur og hér er önnur þeirra, Nótt á Gaza.

 

Stöðva þurfi drápin og endurreisa heilbrigðiskerfið

Stjórnir norrænu læknafélaganna hvetja ríkisstjórnir landa sinna til að krefjast þess að alþjóðlegum mannúðarlögum sé framfylgt án undantekninga á Gaza.

„Drápum og limlestingum óbreyttra borgara, þar á meðal heilbrigðisstarfsmanna, verður að linna strax. Við hvetjum til vopnahlés án tafar og lausn allra gísla, segir í ályktuninni frá 13. júní. „Næg mannúðaraðstoð verður að berast til Gaza án tafar til að tryggja að engir almennir borgarar þjáist eða deyi vegna ofþornunar, hungurs eða skorts á skjóli eða heilsugæslu. Leita þarf allra leiða til að endurreisa starfhæft heilbrigðiskerfi.“

Stjórnirnar ítreka stuðning sinn við ályktun Alþjóðalæknafélagsins, WMA, um að standa vörð um heilsugæslu á Gaza, sem samþykkt var á 226. fundi WMA ráðsins í Seúl, Kóreu, 20. apríl 2024. Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands ritar undir ályktunina eins og formenn sænska, norska, finnska og danska félagsins gera.

Félögin eru ekki þau einu sem tjá sig. Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði um miðjan júnímánuð að eyðileggingin á Gaza og mannfallið meðal palestínsku þjóðarinnar væri „án hliðstæðu.“ Hann sagði og að hann hefði ekki upplifað annað eins í starfi sínu. Leiðtogar G7-ríkjanna bæru sérstaka ábyrgð á ástandinu.

Um miðjan júnímánuð fordæmdi Alþjóðaheilbrigðisstofnunin vaxandi heilbrigðisógn á Vesturbakkanum. Ofbeldi hefði aukist, ferðafrelsi skert og atlögur verið gerðar að innviðum heilbrigðiskerfisins. „Stofnunin krefst umsvifalausra umbóta,“ sagði í frétt RÚV og að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segði heilbrigðisstarfsfólk aðeins hafa fengið helming launa sinna í næstum ár. 45 af hundraði brýnna lyfja og lækningavara sé uppurið á sjúkrahúsum, sem rekin eru með 70% afköstum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica