06. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín: Hafði strax augastað á innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum

- Gunnar Sigurðsson

Hvernig valdirðu sérgrein þína? Hvar lærðir þú og hvaða ráð viltu gefa ungum læknum?

Ég hafði þegar augastað á innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum, vegna skemmtilegra sjúkdómsmynda og þeirra lífeðlisfræði. Á kandídatsárinu á Landspítal-anum kynntist ég tveimur sérfræðingum á þessu sviði, Sigurði Þ. Guðmundssyni, lærðum í Ameríku, og Þóri Helgasyni, þá nýkomnum frá Skotlandi. Læknar voru að koma heim úr sérnámi frá London og nokkrir nýlega farnir. Það gekk því smá bresk bylgja yfir á Landspítalanum.

Ég fékk stöðu reynds aðstoðarlæknis (Senior House Officer, SHO) á Hammersmith Hospital og Royal Post Graduate Medical School í London í teymi sem hafði nýlega uppgötvað hormónið kalsítónín. Ráðning mín var til 6 mánaða og fjölskyldan flutti til London.

Á fyrsta stofugangi mínum, 1970, sá ég fjóra sjúklinga með klassískt útlit æsavaxtar. Yfirmenn mínir (prófessor R. Fraser og G. F. Joplin) höfðu þróað sértæka meðferð þar sem þrætt var inn geislavirkum yttríumstaut í skyggningu í gegnum nefholið inn í æxlið. Við aðstoðarlæknarnir tveir skiptumst á að aðstoða og mátum árangurinn við endurkomur sjúklinganna, sem oft var dágóður. Þetta var áður en taugaskurðlæknar fóru að gera beinar aðgerðir á heiladingulsæxlum.

Á Hammersmith sá ég innkirtlasjúkdóma sem ég hafði einungis séð í bókum áður. Starfið var annasamt, vaktir tvískiptar. Mér líkaði dvölin vel þótt aðstæður í gömlu húsnæði spítalans væru sérstakar með stórum legudeildum, einungis tjöld á milli einstakra rúma og vissara var að mæta með hálsbindi á stofugang. Athyglisverðast var hinn örvandi vísindaandi sem ríkti á Hammersmith.

Síðan fór ég á almennan spítala í London (West Middlesex) í 9 mánuði, fékk góða SHO-reynslu á tvískiptum vöktum og mér bauðst svo starf deildarlæknis á innkirtladeidinni (Metabolic Unit) á Hammersmith þar sem ég auk klínískrar vinnu sá meðal annars um rannsókn á kalkfrásogi frá meltingarvegi á hópi 20 sjúklinga með æsavöxt.1 Ég tók þátt í meðhöndlun 5 ára drengs með verulega aflögun á vinstri upphandlegg vegna Juvenile Paget's sjúkdóms sem fékk nýuppgötvað human calcitonin með góðum árangri.2

Í lok þessa tveggja ára tímabils kom ný flokkun á hyperlipoproteinemium (Fredrickson classification) og Framingham rannsóknin var að sýna mikilvægi kólesteróls við æðakölkun. Þetta vakti áhuga minn. Ég fékk námsstöðu hjá dr. Barry Lewis, vel þekktum sérfræðingi í blóðfitum. Við sömdum áhugavert doktorsverkefni sem fólst í rannsókn á umbreytingu lipopróteina í líkamanum með því að gefa í æð geislamerkt apolipoprotein-B í einstaklingum með eðlilega blóðfitu og sjúklingum með ættgenga hækkun á blóðfitu.3 Samhliða rannsóknarvinnnunni vann ég á göngudeild sykursjúkra og lípíðaklíníkinni. Eftir tvö og hálft ár varði ég doktorsritgerðina frá London University.

Eftir fimm og hálft ár í London bauðst mér tveggja ára rannsóknarstaða á Cardiovascular Research Institute við Moffit Hospital og University of California San Fransisco. Ég kynntist dýratilraunum, hélt áfram rannsóknum á blóðfituefnaskiptum og vann á göngudeild blóðfitu og sykursýki.

Eftir sjö og hálft ár í framhaldsnámi fluttumst við fjölskyldan heim til Íslands. Við tók sumarafleysing á Landspítala og síðan hlutastarf á göngudeild háþrýstings á LSH hjá Sigurði Samúelssyni prófessor. Ég fékk aðstöðu til að opna göngudeild fyrir blóðfituraskanir, hélt áfram rannsóknavinnu á blóðfituvandamálum og fékk síðan hlutastarf sérfræðings á Lyflækningadeild Borgarspítalans hjá Þórði Harðarsyni. Fasta stöðu fékk ég fimm árum eftir heimkomu 1982, þá skipaður yfirlæknir Lyflækningadeildar Borgarspítalans.

Á svipuðum tíma fékk ég hlutastarf dósents í innkirtla- og efnaskiptafræði við Háskóla Íslands (prófessor frá 1995) sem var hvatning til frekari rannsókna á mínu sviði og ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að verða formaður í Rannsóknanámsnefnd læknadeildar þegar hafið var rannsóknanámsmisseri á fjórða ári læknanáms, sem varð mikil örvun fyrir nemendur og kennara. Ég hvatti aðstoðarlækna mína til rannsóknaverkefna sem dýpkaði starf þeirra, jók starfsánægju, leiddi oft til birtingar greina og varð stundum hluti af doktorsverkefni. Ef það er eitthvað sem ég vildi ráðleggja nýkomnum sérfræðingum til starfa þá er það að huga strax að rannsóknarverk-efnum, helst með þátttöku læknanema/aðstoðarlækna, sem eykur þekkingu og reynslu allra og gefur möguleika á frekara samstarfi við útlönd. Við sameiningu Landspítala og Borgar-spítala var ég settur yfirlæknir innkirtla-deildar og starfaði sem slíkur til starfsloka.

Eftir starfslok hélt ég áfram rannsóknum með Hjartavernd meðal annars að tengslum D-vítamins og mjaðmabrota í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar auk rannsóknarvinnu með Íslenskri erfðagreiningu um erfðir beinþynningar, sem hefur verið eitt af mínum áhugasviðum.

Gunnar Sigurðsson

innkirtla- og efnaskiptalæknir

Heimildir

1. Sigurdsson G, Nunziata V, Reiner M, et al. Calcium absorption and excretion in the gut in acromegaly. Clin Endocrinol (Oxf). 1973 Jul;2(3):187-92.
https://doi.org/10.1111/j.1365-2265.1973.tb00418.x
PMid:4760543
 
2. Woodhouse NJ, Fisher MT, Sigurdsson G, et al. Paget's disease in a 5-year-old: acute response to human calcitonin. Br Med J. 1972 Nov 4;4(5835):267-9.
https://doi.org/10.1136/bmj.4.5835.267
PMid:4563456 PMCid:PMC1788852
 
3. Sigurdsson G, Nicoll A, Lewis B. Conversion of very low density lipoprotein to low density lipoprotein. A metabolic study of apolipoprotein B kinetics in human subjects. J Clin Invest. 1975 Dec;56(6):1481-90.
https://doi.org/10.1172/JCI108229
PMid:172533 PMCid:PMC333126


Þetta vefsvæði byggir á Eplica