06. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Öldungadeildin: Göngudeildin sem átti sitt blómaskeið en gufaði svo upp

Á áttunda áratug síðustu aldar var starfsemi göngudeilda lyflækna harla fábreytt á Landspítalanum. Helsta undantekningin var göngudeild sykursjúkra, sem Þórir Helgason kom á fót árið 1966. Henni óx fljótt fiskur um hrygg og varð mikils metin af verkum sínum.

Skömmu eftir heimkomu mína frá framhaldsnámi árið 1976 áttum við Sigurður Samúelsson spjall um stofnun göngudeildar fyrir háþrýsting. Hann var þá prófessor í lyflækningum og yfirlæknir lyflækningadeildar Landspítalans. Niðurstaðan var sú, að Sigurður leitaði til sveitunga síns og vinar, Matthíasar Bjarnasonar, sem var heilbrigðisráðherra 1974-1985, um fjárstuðning. Eftir góðar undirtektir ráðherrans var deildin stofnuð í ársbyrjun 1977. Gott húsnæði fékkst í húsi Hjartaverndar, Lágmúla 9, og Guðrún R. Þorvaldsdóttir hjúkrunarfræðingur var ráðin til að stjórna daglegum rekstri deildarinnar. Hún gekk til verka af áhuga og skörungsskap. Ég starfaði fyrst einn lækna við deildina, en skömmu síðar kom Snorri P. Snorrason til starfa og enn síðar Jóhann Ragnarsson. Gunnar Sigurðsson bættist í hópinn og sinnti sjúklingum með blóðfituraskanir. Deildin varð um árabil helsti vettvangur meðferðar slíks sjúkleika.

Hugmynd okkar Sigurðar með göngudeildinni var tvíþætt. Vitað var að háþrýstingsmeðferð var vanrækt á Íslandi og margir sjúklingar fengu ekki viðeigandi meðferð. Við vildum veita sem flestum slíka þjónustu. Margir þátttakendur í hóprannsókn Hjartaverndar reyndust hafa háþrýsting, oft án meðferðar. Þeir voru velkomnir á göngudeildina. Oft leituðu menn til deildarinnar að eigin frumkvæði. Einnig sáum við, að ýmis rannsóknarfæri gætu sprottið upp á öflugri göngudeild.

Sannast sagna voru sumir hjartalæknar dálítið snúðugir út af þessu tiltæki. Þetta átti einnig við um einhverja heimilislækna. Borgarlæknir kom í heimsókn og lýsti því að svona starfsemi færi ekki saman við heildaruppbyggingu heilbrigðisþjónustu. Smám saman lægði þó öldurnar og deildin sannaði gildi sitt, ekki síst á vettvangi fræðanna.

Við hófum fljótlega viðræður við sænska lyfjafyrirtækið Hässle (síðar hluti af Astra og enn síðar Astra Zeneca) um þátttöku í alþjóðlegri lyfjarannsókn. Svíar voru meðal frumkvöðla í rannsóknum á betablokkum og Hässle hafði þróað lyf í þessum flokki, metóprólol eða seloken. Þvagræsilyf voru á þessum tíma og síðar helsta upphafslyf í meðferð háþrýstings. Hugmynd Svíanna og von var sú, að betablokkar tækju þvagræsilyfjum fram í þessu augnamiði og hefðu í för með sér færri tilvik kransæðastíflu og skyndidauða. Ætlunin var að fá um 6-7000 sjúklinga til rannsóknarinnar og skyldi þeim fylgt eftir í 10 ár. Nú á tímum hefði vafalítið verið reynt að fá enn fleiri þátttakendur til rannsóknarinnar og miða við skemmri fylgitíma, enda gilda einkaleyfi til lyfjasölu nú skemur en áður.

Göngudeild fyrir háþrýsting lagði 100 þátttakendur til rannsóknarinnar, sem oftast var nefnd hundraðmannastúdían. Ef til vill er þetta fyrsta þátttaka Íslendinga í nútímalegri inngripsrannsókn á sviði læknisfræði. Rannsóknin var tvíblind og þátttakendur röðuðust í meðferðarhópa með slembivali. Rannsóknin fékk skammstöfunina HAPPHY og framhald hennar, sem stóð í nokkur á var nefnd MAPPHY. Því miður stóðst rannsóknartilgáta Svíanna ekki og afdrif þátttakenda reyndust svipuð í báðum rannsóknahópunum.1


Sigurður Samúelsson

Meiri tíðindum sætti aðild okkar að svo nefndri 4S-rannsókn. Guðmundur Þorgeirsson og Gunnar Sigurðsson höfðu forystu um þátttöku Íslendinga í henni. Niðurstaðan markaði tímamót, er sýnt var fram á að horfur sjúklinga með aukna blóðfitu og merki kransæðasjúkdóms bötnuðu til muna með gjöf statínlyfja.2 Göngudeildin var vettvangur þátttöku í fleiri íhlutunarrannsóknum (clinical trials), til dæmis svonefndrar MERIT-rannsóknar, en með henni var sýnt, að gjöf betablokka bætti horfur sjúklinga með hjartabilun.3 Guðmundur var forvígismaður okkar í þeirri rannsókn. Árni Kristinsson gerðist einnig atkvæðamikill á þessu sviði á tíunda áratugnum með þátttöku í mörgum mikilvægum íhlutunarrannsóknum.

Guðrún R. Þorvaldsdóttir

Erfðarannsóknir fóru einnig fram á göngudeildinni í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu. Til dæmis fundust tengsl háþrýstings við basabreytingar á krómósómi 18q.4 Ýmsar aðrar rannsóknir mætti nefna: Áhrif háþrýstingslyfja á tíðni aukaslaga hjarta, samanburður á þíasíðmeðferð háþrýstings með kalíumviðbót eða amiloríði, samanburður á háþrýstingsmeðferð með metóprólól og própranólól, blóðþrýstingssvörun við áreynslupróf sjúklinga á sérhæfðum og ósérhæfðum betablokkum, ákjósanleg samsetning enalapríls og kaprópríls auk þíasíða í háþrýstingi og fleira. Þátttakendur í þessum rannsóknum voru meðal annars Árni Kristinsson, Magnús K. Pétursson og Bogi Andersen, nú prófessor í San Diego.

Snorri P. Snorrason

Göngudeild fyrir háþrýsting og blóðfituröskun átti sér mikið blómaskeið á árunum 1980-2000. Ég tel það engar ýkjur að hún hafi á þeim tíma verið einn helsti vettvangur klínískra rannsókna í læknisfræði á Íslandi ásamt hinum merku stofnunum Hjartavernd og Krabbameinsfélagi Íslands. En endalokin voru nær en við hugðum. Eftir sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000 varð ljóst, að nýir stjórnendur Landspítalans töldu starfsemi göngudeildarinnar þarflítið sýsl. Deildin var flutt í aðalbyggingu Landspítalans, þar sem viðunandi aðstaða var ekki í boði. Guðrún Þorvaldsdóttir ákvað að hætta störfum og starfsemin gufaði upp á nokkrum mánuðum. Ef til vill eiga örlög deildarinnar dálítinn þátt í hinni margræddu dvínun fræðastarfa á Landspítala, sem virðist hafa orðið síðustu 1-2 áratugi.

Heimildir

1. Berglund G, Beta-blockers and diuretics. The HAPPHY and MAPHY studies. Clin Exp Hypertens A. 1989;11(5-6): 1137-48.
https://doi.org/10.3109/10641968909035396
PMid:2571434
 
2. Scandinavian simvastatin Survival Study Group Randomised trial of cholesterol lowering in 4444 patients with coronary heart disease: The Scandinavian Simvastatin Survival Study (4S) Lancet 344: 1383-1389.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(94)90566-5
 
3. Hjalmarson Å, et al. Effects of Controlled-Release Metoprolol on Total Mortality, Hospitalizations, and Well-being in Patients With Heart Failure JAMA. 2000;283(10): 1295-1302
https://doi.org/10.1001/jama.283.10.1295
PMid:10714728
 
4. Kristjánsson K, Manolescu A, Kristinsson Á, Harðarson Þ, et al. Linkage of essential hypertension to chromosome 18q. Hypertension. 39: 1044-1049.
https://doi.org/10.1161/01.HYP.0000018580.24644.18
PMid:12052839
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica