06. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Úr sögu Læknablaðsins: Krabbamein, hjartveiki, kerfishrun og húsasótt

110 árgangar þriðja elsta tímarits landsmanna skannaðir, 1965-1974

Við upphaf þess áratugar sem nú er til skoðunar heldur Læknablaðið upp á hálfrar aldar afmæli sitt. Og eins og til að fagna því að það sé orðið fullorðið og því heimilt að hafa skoðanir á hlutunum er farið að birta forystugreinar sem ekki eru undirritaðar frekar en í Mogganum.

Jóhann Hafstein ráðherra heilbrigðismála, Sigurður Sigurðsson landlæknir og Tómas Helgason forseti læknadeildar Háskóla Íslands óska blaðinu velfarnaðar. Sagnfræði nýtur líka meiri athygli en áður eins og sést á því að viku fyrir jól á fyrsta árinu er stofnað Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar undir forystu Jóns Steffensens sem ritar grein um Margrétar sögu og feril hennar á Íslandi, en sú kona var kaþólskur dýrlingur.

En það breytist fleira eftir afmælið því blaðið fer að birta gamansögur og hvetur lækna til þess að senda því sögur úr starfi sínu og lífi. Jafnframt eru þeir hvattir til að vera duglegri að skrifa minningargreinar um látna starfsbræður sem lengi hefur verið til siðs að minnast í blaðinu. Sú hvatning verður kannski til þess að í fyrsta og eina skiptið sem ég hef orðið var við er birt minningargrein um mann sem ekki er læknir. Sá hét Ólafur Sveinsson og var prentari. Hann var hins vegar tengdur blaðinu órjúfanlegum böndum því hann hafði sett allar greinar blaðsins frá 1917 og þótti ótrúlega lunkinn við að lesa úr rithöndum lækna, sem oftar en ekki gátu verið vægast sagt torræðar.

Myndatexti: Í 2. tbl. Læknablaðsins árið 1972 birtist þessi síða sem einungis er merkt PÁ. Böndin berast að því að á bak við þá bókstafi megi greina nýorðinn fræðilegan ritstjóra blaðsins, Pál Ásmundsson.

Pillan kemur

Á fyrstu árum þessa áratugar fara að birtast auglýsingar um nýja tegund -lyfja: getnaðarvarnarlyf, pillan svokölluð. Hún er orðin til í ýmsum útgáfum og framleiðendur og lyfsalar auglýsa þær grimmt í blaðinu. Sú sem einna mest er áberandi heitir Delpregnin og er að sögn framleiðanda „þaulprófuð samsetning“. Skömmu síðar er önnur getnaðarvörn, lykkjan, kynnt til leiks. Á þessum áratug er svo að hefjast krabbameinsleit hjá konum, nánar tiltekið árið 1964, en það ár og það næsta eru skoðaðar um 8.000 konur á aldrinum 25-60 ára, tæplega fjórðungur kvenna á þeim aldri.

Sjúkdómarnir sem við er glímt eru þegar hér er komið orðnir æði nútímalegir, svipaðir því sem nú gerist. Krabbamein í öllum myndum eru mikið rædd og árið 1967 birtist ítarleg grein um lungnakrabba á Íslandi 1931-64, en hún vakti svo mikla athygli að höfundar voru fengnir til að flytja um hana erindi bæði hér heima og á alþjóðaþingi um brjóstholssjúkdóma sem haldið var í Kaupmannahöfn. Um líkt leyti héldu íslensku læknafélögin Læknaþing um skjaldkirtilssjúkdóma.

Hjartalækningar þróast ört og árið 1969 er stofnuð „hjartagæzludeild“ við Landspítalann. Og það er birt grein um „Pacemaker-meðferð“, enda orðið gangráður ekki komið til sögunnar árið 1968. Sennilega hefur hjartagæslan snemma þurft að takast á við sjúklinga með sykursýki, en árið 1972 birtist grein um þann sjúkdóm. Merkilegt nokk er þar aðeins talað um eina tegund hans, þessa meðfæddu, en sú sem talin er númer II er greinilega ekki komin í ljós. Annar áhrifavaldur krabbameins, sem og hjarta- og æðasjúkdóma, stormar hins vegar inn á sviðið með allmiklum látum. Árið 1970 fjalla þrír leiðarar í röð um þennan fjára sem eru tóbaksreykingar.

Kerfið í upplausn

En eins og fyrri daginn er það skipulag læknisþjónustunnar sem er bæði ritstjórn og læknasamtökunum öllum hugleikið þessi misserin, fyrir og eftir 1970. Það er farið að hrikta allverulega í gamla héraðslæknakerfinu. Læknar eru illfáanlegir til að starfa á landsbyggðinni þar sem fólki fækkar stöðugt. Staða héraðslæknisins passar heldur ekkert inn í breytta samsetningu læknastéttarinnar (eða er það öfugt?). Þegar gamla kerfið varð til voru langflestir læknar almennir en það hefur breyst ört. Árið 1941 voru almennir læknar 77,7% stéttarinnar en sérfræðingar 22,3%. 30 árum síðar eru hlutföllin komin í 35,3% og 64,7%. Tveir af hverjum þremur læknum eru nú sérfræðilæknar.

En hvað á að koma í staðinn og hvernig á að þjóna æ fámennari landsbyggð? Um það er mikið rætt í blaðinu og mest áberandi eru greinar um það sem í fyrstu eru kallaðar læknamiðstöðvar en breytist hægt og bítandi í heilsugæslustöðvar. Árið 1970 móta læknasamtökin stefnu sem í stuttu máli er í því fólgin að leysa upp gömlu læknishéruðin – sem voru 47 þegar mest var – og reisa í staðinn 24 læknamiðstöðvar/heilsugæslustöðvar hringinn í kringum landið. Miðast tillögurnar við að þar sem dreifbýli er mikið skuli hver læknir hafa á bilinu 750-800 íbúa en í þéttbýli sé fjöldinn 1.500-1.600 á hvern lækni. Ekki hefur þetta nú alveg gengið eftir því ég sé það í fjölmiðlum að nú eru á bilinu 2.000-3.000 íbúar á hvern lækni, enda tekur nokkrar vikur að komast að hjá þeim.

Við þessa stefnu bættu læknafélögin svo þeirri kröfu að keyptar yrðu 2-3 góðar þyrlur til að þjóna afskekktari svæðum. Þetta er allnokkru fyrir tíma þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar og enn langt í land að þessi krafa sé uppfyllt. Þriðji hluti kröfugerðar lækna hefur hins vegar verið uppfylltur en hann gekk út á að afnema sveitasímann þar sem allir gátu hlustað á alla.

Enn var þó ekkert fast í hendi um uppstokkun kerfisins, það mallaði áfram og breyttist hægt. Og í leiðara Læknablaðsins var oftar en ekki kvartað undan hægagangi. Umræða um samstarf sjúkrahúsanna í Reykjavík blandaðist inn í málið. Því var meðal annars haldið fram að skortur á samstarfi hamlaði þróuninni, til dæmis á sviði hjartaskurðlækninga. Og svo var það „húsasóttin“ sem hér verður fyrir barðinu á hvassyrtum leiðarahöfundi:

„Hversu oft skyldi hagur hinna sjúku hafa verið fyrir borð borinn af ótta við, að skuggi kynni að falla á alvitran lækni eða að álit stofnunar kynni að bíða af því hnekki, að meiri þekking á einhverju sviði kynni að finnast innan veggja annarrar?“ (úr leiðara 2. tbl./1971)

Breytingar framundan

Undir lok þessa áratugar eru gerðar breytingar á Læknablaðinu sem mörgum fundust orðnar löngu tímabærar. Fram til ársins 1972 skipuðu fimm læknar ritstjórn blaðsins, einn aðalritstjóri og tveir fulltrúar frá hvoru félagi, LÍ og LR. Ólafur Bjarnason var ritstjóri í upphafi áratugar en nafni hans Jensson leysti hann af hólmi 1966. Árið 1972 er skipulaginu hins vegar breytt og ritstjórum fækkað í tvo: Páll Ásmundsson er titlaður ritstjóri fræðilegs efnis og Arinbjörn Kolbeinsson ritstjóri félagslegs efnis. Ekki er þó gerður neinn aðskilnaður í blaðinu sjálfu.

Þeir boða strax í upphafi að nú standi ýmislegt til og þá það helst að stækka brot blaðsins. Ekki var þó gengið svo langt að fara með blaðið í A4 heldur valin millistærð (17,2 sm. X 24,4 sm.) að norrænni fyrirmynd. Þeir lofa líka að halda pappírnum í sömu gæðum, enda nýbúið að svara kröfu auglýsenda um að bæta hann svo hægt væri að birta vandaðar litmyndir án þess að í gegnum þær mætti lesa auglýsingu frá keppinautunum hinum megin á síðunni. Um þær breytingar verður nánar fjallað í næsta pistli.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica