06. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Frumkvöðlar í læknastétt: Sérnám í heimilislækningum

– Í minningu Ölmu Eirar Svavarsdóttur heimilislæknis

Kollegi okkar og vinur, eldhuginn Alma Eir Svavarsdóttir heimilislæknir, andaðist 15. mars síðastliðinn. Hún var fædd 11. ágúst 1963 og því aðeins sextug að aldri. Í þessum minningarorðum fjöllum við um þátt hennar í þróun heimilislækninga, einkum sérnáms í heimilislækningum hér á landi.

Þróun og framfarir innan sérgreina læknisfræðinnar eiga sér að jafnaði stað í þrepum þar sem margir koma við sögu. Að öðrum ólöstuðum munum við í þessum pistli nefna nokkrar persónur til sögunnar.

Á Íslandi hefur ríkt aldagömul hefð fyrir því að læknar afli sér framhaldsmenntunar erlendis að loknu kandidatsári. Við lok síðustu aldar varð þó vaxandi áhugi á að færa sérnám til Íslands. Þótt framhaldsmenntunarmál lækna séu að jafnaði í umsjón fagfélaga, voru þau ofarlega á baugi bæði hjá Læknafélagi Íslands (LÍ) og Læknadeild HÍ.1

Framgangur heimilislækna

Árið 1977 birtu Eyjólfur Þ. Haraldsson, Ólafur Mixa og Pétur I. Pétursson merkt nefndarálit á vegum LÍ um fyrirkomulag sérnáms í heimilislækningum hér á landi.2 Þeir félagar áttu síðar allir eftir að koma mikið við sögu varðandi framgang heimilislækninga. Fræðafélag íslenskra heimilislækna var stofnað árið 1978, síðar nefnt Félag íslenskra heimilislækna (FÍH) og varð Eyjólfur fyrsti formaður þess.

FÍH beitti sér frá upphafi af miklum krafti fyrir gæðamálum, meðal annars með því að knýja í gegn breytingar á reglugerðum og með því að kosta stöðu prófessors í heimilislækningum við læknadeild HÍ frá 1991 til tveggja ára. Einn höfunda (JÁS) var ráðinn til starfans. Skyldi hann, auk hefðbundinna starfa prófessora, stuðla að framhaldsnámi í heimilislækningum í samráði við FÍH.

Læknadeild HÍ og LÍ lögðu áherslu á að sérnám hér á landi byggði á marklýsingum líkt og í nágrannalöndunum.2 Árið 1995 markaði tímamót. Þá birtist 1. útgáfa Marklýsingar fyrir framhaldsnám í heimilislækningum á vegum FÍH undir forystu Ólafs Stefánssonar. Sigurður Guðmundsson, þáverandi dósent við HÍ og kennslustjóri Landspítalans sýndi sérnámi í heimilislækningum sérstakan áhuga og var ötull talsmaður þess. Að hans frumkvæði náðust sama ár samningar við Heilbrigðisráðuneytið um að fjármagna tvö stöðugildi sérnámslækna sem hlytu starfsþjálfun í heilsugæslunni og á Landspítalanum með fyrrnefnda marklýsingu að leiðarljósi. Þar með hófst sérnámið hér á landi með formlegum hætti.

Leiðtogahæfni Ölmu

Árið 1999 var gerð breyting á reglugerð þar sem ákveðið var að minnst þriggja mánaða starfsþjálfun í heimilislækningum væri hluti af kandídatsári. Þessi tilhögun krafðist jafnframt frekari skipulagningar framhaldsnáms.

Einn af höfundum þessarar greinar (GHG) var yfirlæknir á Heilsugæslustöðinni Efstaleiti frá árinu 1999, en það ár opnaði stöðin í nýju húsnæði. Þar var strax metnaðarmál læknanna að taka að sér kennslu. Gæðum var fylgt eftir með matsblöðum, sem var nýjung á þeim tíma. Alma Eir hafði unnið á stöðinni í afleysingum 1993 og 1994 og sýndi þá þegar mikinn áhuga á heimilislækningum og jafnframt ljóst að í henni bjó mikið leiðtogaefni. Það var því mikil ánægja með að hún hygðist fara í sérnám í heimilislækningum til Dartmouth í New Hampshire.

Í kjölfarið fór hún í frekara nám í kennslufræðum og stjórnun við University of Kentucky í Lexington. Árið 2000 flutti Alma heim ásamt fjölskyldu sinni og var ráðin heimilislæknir í Efstaleiti þá um sumarið. Ráðning hennar reyndist happafengur fyrir stöðina sem og fyrir heimilislækningar á Íslandi. Málin þróuðst fljótt þannig að Heilsugæslustöðin Efstaleiti varð flaggskip kennslu í greininni.

Skörungsskapur og útgeislun

Alma Eir varð árið 2001 aðjúnkt við HÍ og kennslustjóri framhaldsnáms (kandídatsárs og sérnáms), fyrst innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og síðar fyrir allt landið. Nú fóru hjólin að snúast fyrir alvöru. Með skörungsskap sínum og útgeislun gjörbreytti hún andrúmsloftinu í garð kandídatsárs og sérnáms í heimilislækningum hér á landi.3

Árið 2002 samþykkti Evrópudeild fagsamtaka heimilislækna (WONCA Europe) almenna skilgreiningu á störfum heimilislækna og þær grunnkröfur sem gerðar voru til að öðlast sérfræðiviðurkenningu. Í takt við þá þróun ákvað stjórn FÍH að fara í endurskoðun marklýsingarinnar frá 1995 og Alma Eir var skipuð formaður nefndarinnar. Vinnan hófst 2004 og lauk með útgáfu nýrrar marklýsingar 2008.4

Hér var um tímamótaverk að ræða og tók fjölmennur hópur heimilislækna þátt í vinnunni. Elínborg Bárðardóttir þáverandi formaður FÍH getur þess í formála marklýsingarinnar að nefndin hafi haldið alls 60 fundi. Vinnuhópurinn hittist gjarnan yfir helgi í orlofshúsum LÍ. Þeir sem til þekktu vissu vel að það var sérstaklega að þakka persónutöfrum, elju og þrautseigju Ölmu hvernig til tókst. Samhliða og samtvinnað gaf FÍH út nýja útgáfu af „staðlinum“ Starfsemi og starfsaðstaða heimilislækna5 og Hugmyndafræði heimilislækninga. Tilraun, eftir Ólaf Mixa.6

Alma vann að grunninum

Alma lagði grunninn að núverandi fyrirkomulagi sérnámsins.3,4,7,8 Það varð fljótt vinsælt og árið 2012 voru sérnámslæknar orðnir 36. Mikil áhersla var lögð á hópefli og persónuleg tengsl handleiðara og sérnámslæknis. Sérnámslæknar hittust reglulega í kennslu, á námskeiðum og þingum, bæði hérlendis og erlendis. Sameiginleg kennsla sérnámslækna var aðra hverja viku.

Farið var yfir kjarnaefni í heimilis-lækningum, en einnig hefur Katrín Fjeldsted sinnt Balint-kennslu fyrir sérnámslækna frá upphafi sérnáms. Þar nýttist samstarf hennar við handleiðara sinn úr sérnámi, John Salinsky heimilislækni í London. Katrín og Salinsky sáu til þess að íslenskir sérnámslæknar hafa reglulega sótt slík námskeið í Oxford. Þannig urðu tengsl við Bretland hluti af sérnáminu.

Alma gerði sér fljótt grein fyrir nauðsyn starfsþjálfunar á landsbyggðinni sem veigamiklum hluta af sérnáminu. Arctic Rural námskeiðin (Arctic West, North, East og South) báru þess vitni og voru afar vel heppnuð (mynd). Eru þau einnig mikilvægur þáttur sem hópefli og til að auka stéttarvitund sérnámslækna.

Formaður í alþjóðasamstarfi

Til að sérnám standist alþjóðlegar kröfur þurfa stofnanir sem að því koma að uppfylla gæðastaðla og er hæfnisvottun handleiðara hluti af því. Alma tók virkan þátt í alþjóðasamstarfi í kennslumálum og var formaður Evrópusambands fræðasamtaka kennara í heimilislækningum (EURACT) 2007-2012. Alma skipulagði námskeið fyrir handleiðara í samvinnu við EURACT, sem haldin voru víðs vegar um landið. Myndin úr heita pottinum er frá einu slíku námskeiði á Siglufirði 2014.

Auk þess að starfa sem kennslustjóri sérnámsins og hafa yfirumsjón með starfsnámi kandídata í heilsugæslu, starfaði Alma sem heimilislæknir í Efstaleiti þar til hún lét af störfum vegna veikinda. Hún sinnti sjúklingum sínum af mikilli kostgæfni og alúð. Alma lét af störfum sem kennslustjóri árið 2016 þegar hún tók við starfi sem svæðisstjóri og fagstjóri lækninga í Efstaleiti. Hún sinnti þeim störfum af þeim eldmóði og krafti sem ætíð einkenndu hana meðan henni entist heilsa. Elínborg Bárðardóttir tók við stjórn sérnámsins árið 2017. Það er skemmst frá því að segja að sérnám í heimilislækningum hér á landi hefur notið vaxandi virðingar og er eftirsóknarvert meðal almennra lækna, en yfir 100 læknar eru nú í sérnáminu.

Heimilislækningar eru klíniskt fag á fræðilegum grunni. Þáttur FÍH hefur verið ómetanlegur í þróun fræðigreinarinnar allt frá stofnun þess, sem fyrr getur. Í gegnum tíðina hafa formenn félagsins, stjórnir og félagsmenn allir lagst á eitt við að efla fagið bæði hugmyndafræðilega og vísindalega. Alma Eir var einn af máttarstólpum félagsins. Fyrir störf sín var hún gerð að heiðursfélaga FÍH árið 2023. Hennar verður einkum minnst sökum einstakra persónutöfra og brautryðjendastarfa.


Alma Eir Svavarsdóttir (1963-2024)

Dæmigerð stundaskrá læknis í sérnámi.4


Frá „Arctic East“ námskeiði sérnámslækna árið 2009.

Frá námskeiði með kennurum sérnáms á Siglufirði árið 2014 (f.v. Sólveig Pétursdóttir, Margrét Ólafía Tómasdóttir, Alma Eir Svavarsdóttir, Jóhanna Ósk Jensdóttir, Björg Ólafsdóttir, og Guðrún Inga Benediktsdóttir).

Heimildir

1. Kristinsson Á. Tillögur um framhaldsnám lækna á Íslandi. Ársskýrsla Læknafélags Íslands starfsárið 1974-1975. Læknablaðið 1976; 62(3-4): 78-84.
 
2. Haraldsson EÞ, Mixa ÓF, Pétursson PI. Sérnám í heimilislækningum. Greinargerð og nefnarálit um sérnám í heimilislækningum. Læknablaðið 1977; 63: 111-22.
 
3. Svavarsdóttir AE, Oddsson Ó, Sigurðsson JA. Starfsnám unglækna í heilsugæslu - gæði og skipulag. Læknablaðið 2004; 90: 305-9.
 
4. Marklýsingarnefnd: Svavarsdóttir AE (form), Sveinsdóttir G, Gunnarsdóttir G, Fjeldsted K, Mixa Ó, Stefánsson Ó, Halldórsson S. Marklýsing fyrir sérnám í heimilislækningum. Félag íslenskra heimilislækna. Prentsmiðjan Oddi ehf. 2008.
 
5. Staðalnefnd: Arnardóttir SÁ (form), Svavarsdóttir H, Ingófsson Þ. Starfsemi og starfsaðstaða heimilislækna. Félag íslenskra heimilislækna. Prentsmiðjan Oddi ehf. 2008.
 
6. Mixa Ó. Hugmyndafræði heimilislækninga. Tilraun. Félag íslenskra heimilislækna. Prentsmiðjan Oddi ehf. 2008.
 
7. Svavarsdóttir AE, Guðmundsson GH, Sigurðsson JA. Sérnám í heimilislækningum á Íslandi. Læknaneminn 2004; 55: 16-19.
 
8. Sigurðsson JA. Fjeldsted K. Heimilislækningar hérlendis. Sögulegur aðdragandi að sérnámi. Læknaneminn 2004; 55: 8-9.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica