06. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Spegillinn: Aðeins meira um notkun „Röntgensgeisla“ við sjúkdóma

Úr fyrsta árgangi Læknablaðsins 1915

Hjalti Már Þórisson skrifar um 100 ára gamla fræðigrein Gunnlaugs Claessen. Sjáðu brot úr greininni hér fyrir neðan.

Í fyrsta árgangi Læknablaðsins, þriðja tölublaði sem kom út í mars 1915, skrifar prófessor Gunnlaugur Claessen ítarlega grein „Um notkun Röntgensgeisla við hina ýmsu sjúkdóma,“ eins og það er orðað. Í greininni er lýst af nákvæmni hvernig greina megi hina ýmsu kvilla í fjölmörgum líffærakerfum og hvernig beita megi röntgengeislum til að lækna ýmsa kvilla. Um er að ræða nokkurskonar kynningu á því hvernig beita megi nýrri tækni til greiningar og meðferðar á ýmsum sjúkdómum.

Það er í raun ákaflega fróðlegt að lesa þessa samantekt. Þarna kemur til dæmis fyrir orðið Röntgenslæknir (skrifað með stórum staf þar sem Röntgen er nafn á manneskju) en ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu snemma farið var að tala um röntgenlækningar sem sérstaka grein innan læknisfræðinnar. Hafa þarf í huga að röntgengeislar uppgötvast 1895 og því einungis 20 ár liðin frá þeim merka áfanga. Í greininni er farið yfir notkun röntgengeisla í hinum ýmsu líffærakerfum. Þar er blandað saman nákvæmum lýsingum á hvernig rannsóknir eru framkvæmdar ásamt því að textinn er kryddaður með hugleiðingum próferssorsins eins og „sjaldan liggur colon eins og á líffæramyndum“ sem ég tengi sterkt við, og „yfirleitt má segja að Röntgenslækningar séu fremur kostnaðarsamar“ sem er vafalaust fullyrðing sem stjórnendur íslenskra sjúkrastofnana og Sjúkratrygginga Íslands tengja sterkt við. Sumt breytist ekkert þó tíminn líði.

Efni sem eldist misvel

En hvernig hefur greinin staðist tímans tönn? Eins og flest það sem komið er til ára sinna eldist efniviðurinn misvel. Margt er þar gáfulega sagt um notkun skyggnilýsinga og röntgenmynda við greiningu á lungnavandamálum, meltingarfæravandamálum, stoðkerfisvanda og mörgu fleira. Miðað við hversu ungt fagið var árið 1915 þá er merkilega margt sem á enn við hvað varðar greiningarþáttinn þó að tæknin hafi verið ung að árum. Annað eldist ekki eins vel. Til dæmis mætti nefna ítarlegar lýsingar á notkun Röntgensgeisla sem meðferð við húðbreytingum og ýmsum öðrum góðkynja kvillum, svo sem myoma uteri.

Fljótlega kom í ljós að notkun á röntgengeislum við slíkum vandamálum reyndist ekki vel vegna aukaverkana frá allri þeirri geislun sem meðferðin hafði í för með sér. Hér þarf að varast sleggjudóma. Vissulega var nýjungagirnin slík að farið var óvarlega með þessu nýju tækni. Víða var hægt að kaupa aðgang að gegnumlýsingatæki sem skemmtun. Það reyndist ekki sérlega sniðug hugmynd. En hvað af því sem við gerum í dag mun líta jafn illa út í framtíðinni? Eins og Yogi Berra sagði þá er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. En mig grunar að það verði óhófleg notkun okkar á jónandi geislun, einkum í formi TS-rannsókna, sem framtíðarkollegar munu hrista hausinn yfir.

Staðan í dag

Það er óhætt að fullyrða að frá 1915 hefur margt breyst í myndgreiningarheiminum. Þá bauð tæknin eingöngu upp á röntgenmyndir og skyggnirannsóknir. Síðan hefur notkun á röntgengeislum í læknisfræðilegum tilgangi breyst mikið. Tölvusneiðmyndir komu til fyrst 1972 og hafa nú gríðarmiklu hlutverki að gegna í myndgreiningu. Einnig hafa röntgenmyndir og skyggnirannsóknir verið gerðar stafrænar ásamt því að DSA hefur verið þróuð þannig að notkun nútíma DSA-tækja á röntgengeislum er einungis brot af því sem þurfti að nota fyrir fáum áratugum. Einnig mætti nefna geislameðferðir við krabbameinum sem hafa þróast gríðarlega undanfarin ár og áratugi. En í dag eru það ekki eingöngu röntgengeislar sem myndgreining byggir á.

Frá sjöunda áratug síðustu aldar hefur ómskoðun, sem er myndgreining sem byggir á hljóðbylgjum en ekki röntgengeislum, komið til. Slík tækni nýtist gríðarlega vel við mat á kviðarholslíffærum, stoðkerfisvandamálum og æðum. Ómrannsóknum fylgir engin jónandi geislun og tækin eru orðin gríðarlega handhæg, meðfærileg og ódýr miðað við það sem var fyrir einungis nokkrum árum. Þessi þróun mun vafalaust halda áfram.

Gjörbylting myndgreiningar

Frá áttunda áratugnum hefur segulómun (MRI) einnig komið til. Í grunninn byggir sú tækni á því að setja vetnisatóm líkamans í sterkt segulsvið, senda breytingu á segulsviðinu inn í vefinn og hlusta á útvarpsbylgjunar sem myndast við þetta. Þessi tækni hefur gjörbylt myndgreiningu og mun halda áfram að gera það á næstu árum. Segulómun er tímafrek og nokkuð dýr tækni en hefur þann ótvíræða kost að engin jónandi geislun fylgir slíkum rannsóknum og hægt er að meta nánast alla hluta líkamans af ótrúlegri nákvæmni.

Mitt fag, myndstýrð inngrip (interventional radiology), hefur orðið til á síðastliðnum fimmtíu árum og hefur sprungið út síðustu ár. Myndstýrð inngrip hafa víða haslað sér völl við meðferð sjúkdóma þar sem til skamms tíma var eingöngu hægt að gera opnar skurðaðgerðir. Nær allar myndgreiningaraðferðir eru notaðar til að stýra inngripum en algengast er þó að gera æðaþræðingar og innæðainngrip með skyggningu og sýnatökur eða tumor-brennslur með TS- og/eða ómstýringu. En þetta mun allt breytast í fyrirsjáanlegri framtíð.

 

Um notkun Röntgensgeisla við sjúkdóma.

— Brot úr grein eftir Gunnlaug Claessen

Læknablaðið 1915; 3: 41-47

ÞvagfærinSá sjúkdómur í þvagfærunum, sem oftast er athugaður með Röntgensgeislum, eru steinmyndanir, sérstaklega steinar í nýra og ureter, síður í blöðrunni. Blöðrusteinar sjást, af ýmsum ástæðum, ver en nýrnasteinar ; en með steinkanna og blöðruspegli má líka oftast þekkja blöðrusteina. Röntgensskoðun á nýrnasteinum er álitin mjög áreiðanleg, og telst svo til, að ekki séu nema 2 pct. af nýrnasteinum, sem ekki koma fram á plötunni. Það er aðall. hreinir urat-steinar, sem ekki sjást ; beztan skugga gefa fosfat- og oxalat-steinar. Röntgensskoðun á nýrnasteinum er auðvitað afar-mikið notuð, því oft er erfitt að þekkja sjúkd. Verkirnir eru ekki alt af sérkennilegir og blóð í þvagi hafa sjúkl. af svo mörgum öðrum ástæðum, t. d. við berkla og æxli í nýrum, nefritis chr. hæmorrhagica, eftir slys, líka við hydro- og pynonefrosis intermitt ; þar að auki getur blóðið stafað frá sjálfri blöðrunni. Myndin á nú að sýna, hvort um fleiri steina en einn er að ræða, hve stór steinninn er, og hvar hann er í nýranu. Ef heppni fylgir, sést sjálfur skuggi nýrans á myndinni.

Tuberculose getur sést, ef kalk hefir sezt í nýrað. Hæpið er að verða nokkurs vísari um tumor í nýranu ; þó má stundum sjá óreglulega stækkun á því.

Meltingarfærin. Til þess að sjá þau með gegnumlýsingu eða á plötunni, verður að láta sjúklingana neyta fæðu, sem veitir geislunum mikla mótstöðu og því gefur góðan skugga. Ýmisleg efni eru notuð. Margir Röntgenslæknar brúka Sulfas baricus, sem er hrærður út í graut ; carbonas bism. er talsvert dýrari. Það er nú eðlilegast að rekja leið fæðunnar ab ore ad anum.

Vélindið. Með gegnumlýsingu má sjá, hvernig fæðunni gengur niður vélindið, þannig að sjúkl. fær sér vænan grautarspón og kyngir honum. Ef alt er í lagi, fer það, sem sjúkl. rendi niður, viðstöðulaust ofan í magann, en hinkrar þó stundum lítið eitt við fyrir ofan cardia. Ef um þrengsli í vélindinu er að ræða, nemur grauturinn þar staðar, en kemst svo mismunandi fljótt í gegn eftir því hve þrengslin eru mikil. En fæðan getur líka stöðvast vegna sarps á vélindinu (diverticulum). Einn sjúkl. hef eg skoðað á Röntgensstofnuninni með þennan sjúkdóm. Skoðunin var gerð til þess að útiloka cancer.

Maginn. Ef fæðan er komin ofan í magann, þá sést að hann lítur talsvert öðruvísi út í lifandi fólki en in cadavere eða við magaslekju (atoni). Svíar og Þjóðverjar hafa sérstaklega stundað Röntgensskoðanir á maganum af miklu kappi og hyggjuviti. Þeir lýsa aðallega tvennskonar lagi á maganum: öngullagi (Angelhakenmagen) og hornlagi (Rindhornmagen). Hið síðara er sama lagið og á íslenzku pontunum.

Magasig (ptosis). Það, sem maður fyrst lítur eftir, er auðvitað lega magans, hvort hann sé siginn eða ekki, og hvort hann sé vel hreyfanlegur eða samvöxtur (adhærance) hafi fest hann. Enn fremur er athugaður tonus magans. Þegar matur kemur ofan í hraustan maga, taka magavöðvarnir föstum tökum á því sem þar er, þannig að það sem niður er komið fyllir alt hol magans, nema efst i fundus ; þar er alt af loft. Öðruvísi er útlitið þegar um magaslekju er að ræða. Þá er maginn sem slappur poki ; fæðan liggur í botni hans með láréttu yfirborði ; stundum sjást rákir af grautnum í fellingum í slímhúðinni ofan frá fundus. Útlínur magans eru sléttar á slökum maga, engin för eftir iðrahreyfingu, eins og á að vera. Samfara magaskekkju er oft magavíkkun (dilatat. ventr.) ; sérstaklega ef sjúkl. hefir um lengri tíma haft stenosis pylori.

Retentio má líka prófa með Röntgensskoðun ef vill ; það er sjúkl. a. m .k. þjáningaminna en að fá slöngu ofan í sig.

Magasár gefur oft einkennilegar myndir. Oftast eru sárin á curvatura minor ; nú er því svo farið, að á þeim stað á curvatura major sem gegnt er sárinu, sést á Röntgensplötunni djúpt samdráttar-vik (spastískt), þannig að felling á curv. major færist inn að curv. minor, þar sem sársins er að leita ; sjaldan sést mynd af sjálfu sárinu.

Stundaglas-maginn getur stundum haft svipað lag og gerist við magasár, en oftast er þó aðgreiningin auðveld, því skiftingin á maganum í tvo hluta, sem kemur fyrir við magasár, orsakast af krampa í magavöðvunum og er því breytileg ; stundaglas-maginn myndast aftur á móti af tveim vel aðgreindum hólfum og sést stundum leggur eða pípa milli þeirra.

Krabbamein í maga. Það kemur fyrir á myndunum af maganum, að skörð eða eyður eru í myndinni. Stundum eru það partar af curvaturunum eða þá flákar af pars pylorica, sem vantar. Þetta kalla Þjóðverjar „Feullungsdefect“, og orsakast það af því að tumor er í magaholinu og veldur því, að á þessum stöðum kemst ekki innihald magans að. Það er enginn barium- eða vismuthgrautur fyrir til þess að varpa eðlilegum skugga á þessa bletti. Þessar krabbameinsmyndir eru oft mjög einkennilegar og ótvíræðar. Mikla áherzlu verður að leggja á Röntgensskoðun á maganum, til þess að komast að raun um tumor í tæka tíð, því oftast mun skurður koma um seinan, þegar tumor er orðinn svo stór, að hann sé þreifanlegur.

 

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica