06. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Viðtal: Rannsóknir eru fjárfesting til framtíðar

Viðtal við Magnús Gottfreðsson

Við erum rík þjóð og höfum alla burði til skara framúr í vísindum, segir Magnús Gottfreðsson prófessor og yfirlæknir á Landspítala. Hann hefur tekið við stöðu forstöðumanns vísinda á spítalanum og vill snúa vörn í sókn.

„Ég er tekinn við þessari nýju stöðu sem tengist breytingum á skipuriti Landspítala í kjölfar þess að Runólfur Pálsson tók við sem forstjóri. Hann ákvað að þessi málaflokkur, vísindastarfsemi, myndi færast beint undir hann og í stað þess að vera neðar í skipuritinu og á forræði fleiri aðila þá myndi málaflokkurinn heyra beint undir hann,“ segir Magnús Gottfreðsson, nýr forstöðumaður vísinda á Landspítala.

Magnús gegndi áður stöðu yfirlæknis vísindadeildar Landspítala og segir að hann sé því að sinna sambærilegu starfi en þó er sá munur að með þessari breytingu sé vísindastarfi gert hærra undir höfði.

„Vísindastarf verður með þessu sýnilegra og vonandi verður það til þess að við náum að snúa vörn í sókn. Ef við lítum á úttektir sem hafa verið gerðar, bæði af okkur sjálfum, sem hluti af ársuppgjöri spítalans, og einnig af erlendum aðilum, þá höfum við verið gefa eftir í birtingum vísindagreina. Það sama á einnig við um Háskóla Íslands í klínískum greinum. Þessar tvær stofnanir hafa gefið eftir á undanförnum árum í erlendum samanburði hvað varðar vísindalega framleiðni og gæði.“

Vísindin undir í samkeppninni

Magnús segir að skýringar á þessari þróun séu næsta einfaldar. „Þetta tengist of knappri fjármögnun til þessa málaflokks sem hefur ekki verið aðgreindur sérstaklega þegar starfs- og rekstraráætlanir eru gerðar. Því verður rannsóknastarfsemi undir í samkeppni við mjög knýjandi klínísk viðfangsefni sem verður að sinna svo sjúklingar fái sína þjónustu,“ segir hann.

„Vísindin eru langtímaverkefni og þau verða undir í slíkri samkeppni. Því má samt ekki gleyma að ef dregur úr vísinda- og rannsóknastarfi á spítalanum hefur það til lengri tíma áhrif á gæði þjónustunar, menntun – og á endanum nýliðun innan spítalans.“ Mikilvægi vísindarannsókna sé óumdeilt en það vilji kannski gleymast í erli dagsins þegar sífellt þurfi að sinna aðkallandi verkefnum.

„Vísindarannsóknir á vegum spítalans eru gríðarlega mikilvægar. Rétt eins og menntun er fjárfesting til framtíðar þá eru rannsóknir það einnig. Við getum ekki leyft okkur að spara á þessum vettvangi því þá erum við einfaldlega að taka lán á kostnað framtíðarinnar.“

Einhver gæti spurt hvort ekki væri nóg að fylgjast með því sem verið er að rannsaka annars staðar og tileinka sér þær niðurstöður? „Nei, það er ekki nóg,“ segir Magnús. „Vísindastarfsemi hefur mikil menningarleg áhrif innan þeirrar stofnunar þar sem hún er stunduð. Það er himinn og haf milli þeirra heilbrigðisstofnana þar sem engin vísindi eru stunduð og eingöngu er leitað í niðurstöður annars staðar frá sem neytandi og kannski ekki alltaf með nægilega gagnrýnum huga, og stofnunar, þar sem verið er að búa til þekkinguna og starfsmenn eru gagnrýnir og mun færari um að taka upp nýjungar og kasta gömlum hugmyndum,“ segir hann.

„Þetta er óumdeilt og rannsóknir hafa sýnt að á þeim spítölum sem stunda rannsóknir meðfram klínískri vinnu er árangur mun betri. Þetta hefur með öðrum orðum bein áhrif á gæði þjónustunnar.“

Vísindarannsóknir eru óumdeilt hlutverk Landspítalans sem háskólasjúkrahúss. „Já, það stendur svart á hvítu í lögum um Landspítala. Vandinn hefur verið sá að þetta hlutverk spítalans hefur ekki verið nægilega vel skilgreint þannig að fjármögnunin haldist í hendur við lagabókstafinn. Þetta hefur orðið til þess að langtímaverkefnin láta undan fyrir skammtímaverkefnum. Það hefur margoft komið fram að tíma og fjármunum spítalans er á stundum varið í verkefni sem í raun ættu betur heima annars staðar. Það er reyndar hluti af annarri umræðu en þetta hefur ruðningsáhrif og truflar þau verkefni sem spítalinn ætti frekar að sinna.“

Er kennsla nema í heilbrigðisgreinum á þínu borði? „Að því leyti sem nemar í heilbrigðisgreinum taka oft þátt í vísindarannsóknum á vegum spítalans. Þar getur verið um að ræða nema í grunnnámi, nema í meistara- og doktorsnámi og einnig nýdoktora sem vinna áfram að rannsóknum úr doktorsnámi sínu. Þá er einnig hvatt mjög eindregið til þess að sérnámslæknar sinni vísindarannsóknum enda er það mjög mikilvægt í menntun sérfræðinga nútímans að hafa unnið að vísindarannsókn, greint niðurstöður og komið þeim á framfæri.“

Stofna Heilbrigðisvísindasjóð

Magnús leggur áherslu á að vísinda-rannsóknum verði ekki veitt nægilegt rými án þess að fjárveitingar til þeirra séu merktar sérstaklega.

„Samkvæmt heilbrigðisstefnu stjórnvalda sem var samþykkt á Alþingi 2019 og nær til 2030 á að stofna Heilbrigðisvísindasjóð ekki síðar en á þessu ári og ég vil leyfa mér að vera svo bjartsýnn að með því muni fjármögnun þessa málaflokks batna. Þetta verður samkeppnissjóður svo umsækjendur þurfa að vinna umsóknir sínar vandlega en við bindum vonir við að þetta auki framlag okkar á vísindasviðinu. Mikilvægi þessa er einnig fólgið í því að varða leiðina fyrir vísindamennina okkar til stærri verkefna og stærri styrkja, bæði hér heima og erlendis,“ segir Magnús.

„Við stöndum líka frammi fyrir breytingum á hugarfari yngra fólksins okkar sem er ekki tilbúið til að stunda rannsóknir á kvöldin og um helgar að loknum fullum vinnudegi á spítalanum eins og gjarnan hefur verið lenska hingað til. Yngra fólkið vill gjarnan helga sig rannsóknum en vinna að þeim á venjulegum vinnutíma. Það er viðhorfsbreyting sem við verðum að horfast í augu við.“

Við drögum þetta saman í lokin með því að spyrja hvað brenni helst á Magnúsi Gottfreðssyni forstöðumanni vísinda við Landspítalann?

„Það sem brennur helst á mér er að tryggja að menn átti sig á því hversu skynsamlegt er að efla þennan málaflokk, bæði með tilliti til fjárhagslegs ávinnings og gæða þjónustunnar. Þetta er kostur sem á ekki að vera hægt að hafna,“ segir hann.

Með persónulegan metnað

„Ég er rannsakandi sjálfur og hef persónu-legan metnað á þessu sviði en einnig fyrir hönd spítalans og landsins í heild. Við eigum að nýta okkur það náttúrulega forskot sem við höfum á Íslandi vegna þess að við höfum vel menntaða og vel upplýsta þjóð, vel tengda við umheiminn, heilbrigðiskerfið okkar nýtur mikils trausts meðal almennings, þrátt fyrir gagnrýni og fjölmörg vísindaverkefni sem unnin hafa verið á undanförnum árum staðfesta þetta.“

Hann segir að benda megi á árangur á sviði rannsókna á vegum Hjartaverndar og Íslenskrar erfðagreiningar, blóðskimunarverkefnið, meðferðarátak á lifrarbólgu C, svo eitthvað sé nefnt.

„Einnig glæsileg sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem hafa komið fram upp úr svona vinnu. Á vissum sviðum getur Ísland jafnvel verið leiðandi á heimsvísu og lagt sitt af mörkum til alheimsþekkingarinnar. Við eigum ekki að sætta okkur við að vera borin saman við samfélög sem eru fátækari, flóknari og verr upplýst en okkar. Auk þess erum við rík þjóð og við höfum alla burði til skara framúr á þessu sviði. Við eigum ekki að vera þiggjendur þegar við getum verið veitendur á þessu sviði.“

„Yngra fólkið vill gjarnan helga sig rannsóknum en vinna að þeim á venjulegum vinnutíma. Það er viðhorfsbreyting sem við verðum að horfast í augu við,“ segir Magnús Gottfreðsson forstöðumaður
vísinda á Landspítalanum. Mynd/HS



Þetta vefsvæði byggir á Eplica