06. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Dagur í lífi: Koss, skopparakringla og hlaupaskór

- Hulda Hrund Björnsdóttir

Dagur í lífi sérnámslæknis í nýrnalækningum í Lundi

6:30 Vekjaraklukkan hringir. Ekki séns að ég vakni svona snemma. Snooza.

6:45 Seinni vekjaraklukkan hringir og eftir eitt snooze á henni vakna ég. Svara skilaboðum sem ég missti af þegar ég var sofnuð, les yfir fréttir og dríf mig svo á fætur. Borða morgunmat og geri mig til. Smelli kossi á betri helminginn sem er steinsofandi og mun sofa í lágmark klukkutíma í viðbót (fjarvinna frá Íslandi hefur sína kosti).

7:40 Hjóla í vinnuna. Það er vor í lofti. Finn blómalykt og heyri fuglasöng. Leiðin mætti nánast vera lengri því ferðin er svo notaleg.

7:55 Stimpla mig inn og fer inn á skrifstofuna sem ég deili með öðrum sérnámslækni og skipti yfir í vinnufötin. Opna Teams og tengi mig við morgunfundinn. Farið yfir vaktina í gær sem var greinilega þung.

8:30 Er á skiluninni fyrir krónísku sjúklingana okkar í dag. Hún er á tveimur hæðum. Ég byrja á fyrstu hæðinni og heilsa upp á hjúkrunarfræðingana á þrem vaktherbergjum þar og athuga hvort það séu einhver mál sem þarf að leysa strax í byrjun dags. Hleyp svo upp á 3. hæð og geri það sama. Þarf að dæma hversu mikinn vökva á að draga af nokkrum, einhverjir yfir þurrvigt og aðrir undir. Verð svo eins og skoppara-kringla milli hæðanna í dag.

11:00 Hleyp annan hring á skiluninni og leysi þau vandamál sem hafa komið upp yfir daginn. Hjúkrunarfræðingarnir eru með lista á hverju vaktherbergi yfir verkefni fyrir lækninn.

12:30 Hádegismatur. Þegar ég byrjaði var þetta erfiðasti tími dagsins því mér fannst svo erfitt að halda uppi samræðum á sænsku en núna er þetta skemmtilegasti tíminn. Gaman að eiga smá stund í rólegheitum að spjalla við kollegana.

13:00 Einu sinni í viku er ég með göngudeild eftir hádegi og sá dagur er í dag. Kem skilunarsímanum yfir á kollega. Þrír sjúklingar bíða mín í dag. Fyrsti er 19 ára maður sem er líklegast með IgA-æðabólgu en enn er beðið eftir lokasvari frá meinafræðinni. Hann reynist vera með aukna próteinmigu og smásjárskoðun á þvagi dagsins sýnir nú merki um millivefsbólgu. Þrýsti á að fá lokasvar frá meinafræðinni, trappa upp meðferð með auknum ACE-hemjara og set inn SGLT2, bóka hann fljótt í tíma aftur og þá verður tekin afstaða til þess hvort þurfi að endurtaka nýrnasýnatöku. Næsti sjúklingur er fjölveikur 74 ára maður með króníska nýrnabilun á 5. stigi. Endurteknar innlagnir á árinu, kominn tími á að undirbúa skilun. Stefnt á kviðskilun. Síðasti sjúklingurinn er stabíll nýrnaígræðslusjúklingur.

16:00 Klára að diktera og senda tilvísanir. Ég hafði aldrei dikterað áður en ég byrjaði að vinna hér. Nú kann ég verulega að meta það. Frábæri læknaritarinn lætur lélegu sænskuna mína hljóma mjög fagmannlega í nótunum mínum.

16:50 Stimpla mig út og hjóla heim. Allt niður í móti á leiðinni heim svo ég er komin heim á minna en 10 mínútum.

17:00 Kem heim á svipuðum tíma og kærastinn klárar vinnudaginn sinn. Við skellum okkur í hlaupafötin og förum út. Rólegt hlaup á dagskránni í dag. Það er gott veður, sólin skín og kirsuberjatrén blómstrandi. Endum hlaupatúr dagsins í búðinni á horninu til að kaupa í kvöldmatinn. Erum búin að læra að láta afslætti dagsins ráða því hvað er í matinn.

19:30 Ég geri veiklulega tilraun til að gera eitthvað í rannsóknarvinnunni. Játa mig sigraða, of þreytt í kvöld til að gera eitthvað af viti.

20:30 Við horfum á 2-3 sjónvarpsþætti meðan ég prjóna ungbarnaföt fyrir allar vinkonurnar sem eiga von á sér á árinu.

22:30 Förum í háttinn. Hlustum á bók á meðan við sofnum.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica