06. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Viðtal: Oft veltir lítil þúfa …

Það er alltaf gaman þegar hugmyndir verða að veruleika. Það má svo sannarlega segja um fyrirtækið Prescriby sem fæddist upphaflega sem hugmynd tveggja ungra lækna, Kjartans Þórssonar og Árna Johnsen, fyrir fjórum árum.

Kjartan og Árni útskrifuðust úr læknadeild Háskóla Íslands vorið 2019. Þá þegar voru örlögin ráðin því strax á sjötta ári í læknisfræðinni fæddist hugmyndin sem nú er orðin að arðvænlegu fyrirtæki. Fleiri vildu líklega þá Lilju kveðið hafa, nú þegar hjólin eru farin að snúast bæði hér heima og erlendis. En gefum Kjartani Þórssyni lækni, stofnanda og framkvæmdastjóra Prescriby, orðið.

„Ég var mjög snemma ákveðinn í að fara í bæklunarlækningar og vann á bæklunardeild Landspítala með náminu frá fjórða ári. Ég fékk að taka þátt í aðgerðum og þótti þetta allt alveg meiriháttar spennandi.“

Hann lýsir aðdragandanum að því þegar þeir Árni stofnuðu Prescriby ásamt Hafsteini Einarssyni, lektor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. Árni og Hafsteinn eru þar ráðgjafar og Kevin Oram og Jóhannes Ingi Torfason meðstofnendur og eigendur. Uppáskrift að ópíóíða-verkjalyfi eftir aðgerð og óskýrar klínískar leiðbeiningar þar um hafi leitt þá Árna á sporið.

„Við Árni Johnsen vinur minn, sem er nú í sérnámi í Svíþjóð í háls-, nef- og eyrnalækningum, vorum með lista yfir hluti sem okkur fannst vera ábótavant í heilbrigðiskerfinu og lékum okkur að því að hugsa upp lausnir. Þarna var sannarlega eitt verkefni sem þarfnaðist lausnar. Við gerðum niðurtröppunaráætlun sem við reyndum að láta fylgja hverjum sjúklingi sem útskrifaðist en þetta þurfti að gera í Sögunni og tók of langan tíma,“ lýsir hann.

„Það var heldur enginn standard á þessu, sumir gerðu þetta og aðrir ekki. Við töldum einfalt að setja upp niðurtröppunarvefsíðu og þá tæki þetta innan við mínútu per sjúkling í stað 10-12 mínútna. Það telur þegar 5-6 sjúklingar útskrifast daglega. Þetta var reyndar mjög einfalt módel en nýttist samt ágætlega.“

Áhrifamesti músarsmellur lífsins

Það var svo á sjötta ári í læknanáminu að Kjartan var staddur á Jamaíka þegar hann fékk tölvupóst um að taka þátt í Nordic Health Hackathon sem haldið var í Reykjavík yfir eina helgi. „Ég var forvitinn og opnaði póstinn og það er pottþétt áhrifamesti músarsmellur lífs míns,“ segir hann.

„Þetta snérist um að þátttakendur ynnu nýsköpunarverkefni yfir eina helgi og enduðu svo á að kynna það. Í rauninni að koma með hugmynd að fyrirtæki og búa til prótótýpu af vöru.“ Hann hringdi í Árna og stakk upp á að þeir gerðu alvöru úr niðurtröppunaráætluninni sinni.

„Við kunnum reyndar ekkert að forrita en létum samt slag standa og útfærðum þessa hugmynd sem hét þá niðurtröppun.is.“ Þeir Árni unnu keppnina.

„Við vorum nánast þeir einu sem voru ekki tölvunarfræðingar en það kom okkur til góða því við vorum að búa til praktíska lausn á ákveðnu vandamáli í heilbrigðiskerfinu. Okkur var alveg sama hvort við ynnum eða ekki því við vorum að fara að nota þetta strax á mánudeginum í vinnunni. “

U07-Kjartan-Thorsson-2

Myndatexti: Kjartan Þórsson læknir, stofnandi og framkvæmdastjóri Prescriby segir hugmyndina að fyrirtækinu hafa opnað tækifæri sem hann hafði hreinlega ekki trúað að hann myndi nokkurn tímann fá. Mynd/HS

Niðurtröppun.is springur út

Það er svo skemmst frá því að segja að niðurtröppun.is sprakk út hér á Íslandi. „Nánast strax voru tugir lækna farnir að nota síðuna og í dag hafa vel yfir tíu þúsund niðurtröppunaáætlanir verið gerðar út frá þessari einföldu síðu,“ segir Kjartan. Hjólin hafi farið að snúast.

„Við fengum dálítið blóðbragð í munninn en vorum samt hikandi því sem ungir læknar þá erum við óvitandi um hvert virði okkar er og auðmýkt gagnvart greininni er lykillinn að því að verða góður læknir. En þarna fengum við samt staðfestingu á því að hugmyndin væri einhvers virði og hún opnaði tækifæri sem ég hafði hreinlega ekki trú á að ég myndi nokkurn tímann fá. Þá er ég að tala um að leggja mitt af mörkum til framþróunar læknisfræðinnar,“ segir hann.

„Við fengum endurgjöf frá læknum sem voru að nota síðuna og vildu fá fleiri lyf og lyfjaflokka inn. Aðrir báðu um meiri upplýsingar til sjúklinga og þetta varð fljótt svo mikið að við ákváðum að sækja um styrk til Rannís og fengum 20 milljónir í tækniþróunarstyrk 2020 og stofnuðum fyrirtækið Prescriby í kringum lausnina og réðum forritara. Árið eftir fengum við 50 milljónir frá Rannís og gátum ráðið inn fleiri forritara.“ Hróður þeirra hafi náð út fyrir landsteinana með athygli frá Bandaríkjunum, Kanada og Skandinavíu.

„Þá stóð ég frammi fyrir ákveðnum valkostum. Það var annaðhvort að hrökkva eða stökkva því í þessum bransa er ekki hægt að gera þetta með annarri hendinni. Ég þurfti að taka ákvörðun um hvort ég ætlaði í sérnám í bæklun eða snúa mér alfarið að þessu. Mér fannst að ég yrði að fylgja þessu eftir því við vitum að ca. einn af hverjum tíu sem fær uppáskrifaða ópíóíða þróar með sér eitthvert stig fíknar og á sama tíma höfðum við byrjað að þróa tækni og hugvit sem getur hjálpað við að fyrirbyggja þróun fíknar,“ segir hann, og að hann hafi því ekki getað skorast undan því að klára það sem þeir höfðu byrjað á.

„Ég reyndi þó fyrst að halda læknisfræðinni við með því að vinna 7-10 daga á heilsugæslunni í Fjarðarbyggð en hef þurft að draga úr því síðasta ár vegna þess hve reksturinn er orðinn mikill.“

Þrjú hundruð milljónir

Prescriby hefur sannarlega sprungið út því í vor lauk 300 milljóna króna hlutafjárútboði og starfstöðvarnar eru orðnar þrjár, á Íslandi, í Kanada og í Bandaríkjunum. Fastir starfsmenn eru fimm en auk þess eru lausráðnir ráðgjafar á ýmsum sviðum sem tengjast fyrirtækinu.

„Stjórnarformaðurinn okkar, Lynn Bromley, er fyrrverandi fylkisþingmaður fyrir Maine-fylki í Bandaríkjunum og það er gaman að segja frá því að þegar við unnum Hackathonið þá kemur til okkar þessi bandaríska kona sem lýsti miklum áhuga og sagði mikla þörf fyrir þetta í Bandaríkjunum þar sem ópíóðafaraldurinn geisar. Hún bað okkur að senda sér reglulega upplýsingar, sem við og gerðum en vissum í rauninni ekkert hver þetta var,“ segir hann.

„Svo datt okkur í hug að leita til hennar þegar við vorum að sækja um fyrri Rannís-styrkinn varðandi meðmæli en þá uppgötvuðum við hver hún var og hvað hún hafði mikil áhrif. Hún hafði meðal annars unnið undir stjórn Obama og er algjör lykilmanneskja,“ segir Kjartan.

„Allir sem stefna með heilbrigðistækni á Bandaríkjamarkað vita að það þarf góðan stuðning og tengingar til að komast þar að. Annars er bara hlegið að manni.“

Kjartan segist horfa til baka yfir síðustu fimm ár sem hafa að hans sögn verið algjör rússíbani. „Það er eiginlega skelfilegt hvað við vissum lítið í upphafi um hvað við vorum að fara út í. Þetta er skólabókardæmi um Kruger-kúrfuna þar sem sjálfstraust er á y-ásnum og hæfni á x-ásnum,“ segir hann og lýsir því að vera mjög hár á y-ásnum í byrjun og mjög lágur á x.

„Smátt og smátt áttar maður sig á því hvað maður veit lítið og hrynur í sjálfstrausti en þá hækkar x-ásinn því maður hefur lært meira af reynslunni. Reynslan sem ég hef fengið af því að byggja upp Prescriby er svo gerólík því að þróast sem læknir en skilningur á mannlegu eðli og þjálfun í ákvörðunartöku hefur hins vegar reynst mér vel úr læknastarfinu,“ segir hann.

„Raunveruleikinn er sá að það er ekkert sjálfsagt að fyrirtækið og lausnin gangi upp. Margt getur gert út af við mann og maður verður að finna lausnir til að lifa af nánast hverja einustu viku. Í þessu umhverfi er mikil samkeppni og þú ert að stuðla að breytingu á „kerfinu“ svo ef maður slakar á þá er þetta ekki eins og að troða marvaðann heldur er maður að synda á móti straumi,“ segir hann.

„Maður þarf að hlusta á allt í umhverfinu og sækja stöðugt fram, annars rekur mann strax undan straumnum.“

Ekki að hjálpa

Kjartan segir mikilvægt að koma því til skila að niðurtröppunarferlið er ekki ætlað til að lækna fíkn heldur koma í veg fyrir hana.

„Það hefur sýnt sig að það er gífurlega erfitt og bjartsýnt að ætla að venja einstaklinga með fíknisjúkdóm af lyfjanotkun með appi eða hugbúnaði. Það hafa margir farið flatt á að reyna það,“ segir hann, og að Prescriby sé fyrir einstaklinga sem hafi oftast enga sögu um fíkn eða lyfjamisnotkun en þurfi að fá sterk ópíóðalyf í ákveðinn tíma, til dæmis eftir aðgerð. Sjúklingurinn fái uppáskrifað Oxycontin og samtímis fái hann niðurtröppunaráætlun í ákveðinn tíma. Áætlunin sé gerð í samráði við sjúklinginn.

„Sjúklingurinn fær app sett upp í símann sinn með niðurtröppunaráætlun, fræðslu, skráningarviðmóti á einkennum og meðferðarheldni, auk þess að geta fylgst með stöðunni. Læknir, hjúkrunarfræðingur eða lyfjafræðingur getur síðan fylgst með, forgangsraðað og beitt íhlutun ef þörf er á og tekið ákvarðanir út frá gögnum. Þetta er gríðarlega mikilvægt því ef einstaklingur er útsettur fyrir ópíóíðum í ákveðinn tíma þá verður hann háður þeim og þróar með sér þol. Það er það sem við viljum hindra.“

Eftirfylgnin er lykilatriði og Kjartan segir samstarf við heilsugæsluna hafa verið með ágætum. „Bæði læknar og lyfjafræðingar koma að þessu hjá Heilsuvernd og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Reykjanesapótek er í samstarfi við okkur þar sem lyfjafræðingar sinna meðferð og eru í góðu samstarfi með HSS og fleirum. En í rauninni er það hverrar stofnunar að ákveða hver sinnir eftirfylgninni.“

Hann segir það einmitt þróunina í heilbrigðistækni í heiminum þar sem sífellt meira sé gert af því að nýta tæknina svo sjúklingurinn geti fengið þjónustuna heim í stað þess að mæta alltaf á einhvern stað úti í bæ. „Þetta sparar gríðarlegan tíma og kostnað fyrir bæði kerfið og sjúklinginn.“

Kjartan segir að nánast allir í heilbrigðiskerfinu hafi tekið þessu fagnandi og gríðarleg notkun á niðurtröppun.is sanni það, auk hraðrar útbreiðslu Prescriby. „Við höfum fengið sterkan meðbyr og nú getum við vart annað eftirspurn við að bæta við kerfið. Það er það jákvæða við þetta ævintýri allt saman.“

Kjartan segist að lokum vilja sjá fleiri lækna taka þátt í framþróun læknisfræðinnar og heilbrigðiskerfisins með þátttöku í nýsköpun. „Sú þátttaka getur verið á mörgum sviðum: bæta nýsköpunarvalkúrsum í námið, stofna sameiginlegan fjárfestingarsjóð, stýra nýsköpunarsviðum/verkefnum innan heilbrigðiskerfisins eða taka beint þátt í nýsköpunarfyrirtækjum eða stofnun þeirra,“ segir hann.

„Við búum að einstakri þekkingu sem þarf að hagnýta og ef við tökum ekki þátt í framþróuninni þá munu aðrir gera það.“


 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica