06. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Fréttir: Guðmundur fær heiðursverðlaun

„Góð tilfinning,“ segir Guðmundur Jóhannsson innkirtlalæknir sem fékk heiðursverðlaun European Society of Endocrinology, ESE, á ráðstefnu þess nú í maí. Einnig nafnbótina Evrópski hormónaverðlaunahafinn 2024 (2024 European Hormone Medalist).

„Þetta er ákveðin viðurkenning fyrir það sem við höfum verið að gera síðastliðin ár,“ segir Guðmundur Jóhannsson, sérfræðingur í lyflækningum og innkirtlafræðum við Sahlgrenska-sjúkrahúsið í Gautaborg, prófessor og aðstoðardeildarstjóri lyflækningadeildar læknadeildar Háskólans í Gautaborg, um viðurkenninguna. Hann hefur síðustu 37 ár verið búsettur í Svíþjóð og ræðir við Læknablaðið í gegnum Teams.

Guðmundur sér sjúklinga með sjaldgæfa sjúkdóma í nýrnahettum og heila-dingli á Sahlgrenska, hópinn sem hann hefur verið að rannsaka. Hann tekur þátt í þverfaglegum fundum tengdum heila-dinguls- og nýrnahettum vikulega og rekur upphaf rannsóknarniðurstöðunnar til ársins 1990. Niðurstaðan þá hafi vakið mikla athygli og verið staðfest í stærri rannsókn 2006.

„Við höfum verið að benda á að niðurstaða og horfur fyrir sjúklinga með sjaldgæfa innkirtlasjúkdóma eru ekki vel þekktar. Vegna þess hve sjaldgæfir þessir sjúkdómar eru, vita læknar sjaldnast hvort útkoman sé lakari en þeir töldu,“ sagði hann og lýsir því hvernig rannsóknarhópur hans hafi notað gögn og tæki til að lýsa því hvernig meðferðin gengur.

„Það er ekki fyrr en við vitum hvernig miðar að vert er að bregðast við,” segir hann og að þessar niðurstöður hafi leitt til aukins áhuga á því að gera meira og þróa bæði greiningu og meðferð. „Það er einmitt það sem við vonuðumst til.“ Hann nefnir að rannsóknin 2006 hafi sýnt að dánartíðni meðal þeirra sem glími við nýrnahettubilun sé tvöfalt til þrefalt hærri en meðal þeirra sem hafi hana ekki og þau séu einnig líklegri til að fá ýmsa sjúkdóma eins og háþrýsting og sykursýki. Rannsóknin standi enn.

Guðmundur hefur mörg járn í eldinum og segir að um þessar mundir verji hann mestum tíma í Háskólanum, þar sem hann er aðstoðardeildarstjóri og sinnir rannsóknarstörfunum. Hann sleppir þó ekki takinu af spítalanum.

„Eins og margir segja, þá koma bestu hugmyndirnar í samtali við sjúklingana. Þar áttar þú þig á því hvað þarf að gera betur í rannsóknarstörfunum,“ segir hann. Ánægjulegt sé að sjá að rannsóknir þeirra hafi haft áhrif á aðra rannsakendur, en einnig að sjá niðurstöðurnar hafa áhrif á sjúklingana sem þau meðhöndla.

Guðmundur var ánægður með þessa árlegu ráðstefnu ESE, European Congress of Endocrinology, ECE, rétt utan við Stokkhólm. „Ráðstefnur örva mann til að fríska hugann, hugsa sitt mál og fá nýjar hugmyndir um hvernig gera má betur.“ Guðmundur situr á skrifstofu sinni á Sahlgrenska þennan annan dag hvítasunnunnar, segir frá því að þessi elsti hluti sjúkrahússins verði brátt rifinn. „Sjúkrahúsið vill verða stærra og betra og því á að byggja risahús þar sem þetta gamla hús hefur staðið.“

Ekki er hægt að sleppa honum án þess að vita hvort hann sé á leið til landsins? Í júlí, svarar hann. „Mamma verður níræð og ég ætla að fagna því með henni.“

 

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica