06. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Fréttir: Verðum að muna að vísindi eru góð fjárfesting

Þrýstingurinn af klínískri vinnu hefur aukist gríðarlega. Það kemur niður á vísindunum, segir Sæmundur Rögnvaldsson, Ungur vísindamaður Landspítala 2024. Jón Gunnlaugur Jónasson Heiðursvísindamaður Landspítala segir vísindastarf orðið flóknara með árunum.

„Við megum ekki gleyma að vísindi eru mjög góð fjárfesting,“ segir Sæmundur Rögnvaldsson, sérnámslæknir í lyflækningum. „Þau hafa leitt til stórra sigra eins og við sjáum í Kerecis og Oculis, þar sem stórar uppgötvanir hafa leitt til mikilla fjárhagslegra verðmæta, og einnig annarra rannsókna sem skila sér í betri árangri út um allan heim.“

Sæmundur er Ungur vísindamaður og Jón Gunnlaugur Jónasson Heiðursvísindamaður Landspítala 2024. Þeir ræða vísindi og stöðu þeirra, bakgrunn sinn og rannsóknir í Læknavarpinu, hlaðvarpi Læknablaðsins. 

Þeir ræða einnig orð Runólfs Pálssonar, forstjóri Landspítala, sem sýndi á Vísindi á vordögum hvernig einkunn heilbrigðisvísinda í Háskóla Íslands hjá Times higher education, tímariti sem fjallar um alþjóðlega um háskólamenntun, hefði dunkað úr um 48 árið 2016 í um 32 árið 2020 og haldist þar æ síðan. Litið er til margra þátta og vega tilvísanir í vísindagreinar þyngst. 

„Þetta er ekki góð þróun en það geta verið margar ástæður fyrir henni,“ segir Jón Gunnlaugur. „Vísindarannsóknir hafa orðið flóknari,“ segir hann. „Það þarf stærri hópa sem vinna rannsóknir sem birtast í góðum tímaritum.“

Erfitt sé fyrir ofhlaðna lækna að leiða stóra og mikla rannsóknarhópa. Afar mikilvægt sé þó að skammast sín ekki fyrir þá góðu vinnu sem þó sé unnin og mikilvægt að ungir vísindamenn hafi sínar fyrirmyndir í þeim reynslumeiri. Sæmundur tekur undir það og að öflugir vísindamenn séu á Landspítala.

„En þjónustan á Landspítala hefur breyst svo mikið,“ segir hann. „Þrýstingurinn frá klínísku hliðinni hefur aukist gríðarlega. Það er allt öðruvísi að vinna á Landspítala í dag en þegar ég byrjaði – sem er ekki fyrir löngu síðan,“ segir hann.

„Miklu fleiri innlagnir og meiri pressa frá klínísku hliðinni. Ég held að allir sem eru í kerfinu sjái þetta.“ Fólk verði því annað hvort að gefa meiri afslátt í einkalífinu eða í vísindunum. Hans kynslóð sé ekki tilbúin að gefa einkalífið eftir. Hún kjósi jafnvægi. 

„Ég tel að þetta vegi þungt í þessu.“ Hann sjái um rannsóknarverkefni læknanema og hafi fylgst með gróskunni á málþinginu Vísindi á vordögum.

„Mörg áhugaverð verkefni,“ segir hann. Nú séu 55 í gangi. „Þetta gengur og eru flott rannsóknarverkefni.“ Unga fólkið hafi bæði getu og vilja til að vinna vísindavinnu. „En í framhaldinu étur klíníkin upp tímann þeirra.“

Sæmundur leggur áherslu á að litlir styrkir til lítilla verkefna geti, eins og þeir stóru, haft gríðarleg áhrif. Nýtt BS-verkefni Thelmu Rósar Jónsdóttur um keiluskurði sé til að mynda eitt þeirra sem breytti vinnulagi á Landspítala. Hún hafi sýnt fram á að keiluskurðir hér á landi væru of djúpir, of mikill vefur tekinn. 

„Nú er búið að kaupa nýjar lykkjur og breyta aðeins hvernig þetta er gert. Þetta hefur jákvæð áhrif á inngrip; fækkar fylgikvillum og sparar mikið fé.“ Fengi Thelma Rós fjármagn til að klára verkefnið myndu háar fjárhæðir sparast. 

Landspítalinn hefur brugðist við stöðu vísinda á spítalanum og ráðið Magnús Gottfreðsson forstöðumann vísinda á spítalanum. „Vísindastarf verður með þessu sýnilegra og vonandi verður það til þess að við náum að snúa vörn í sókn,“ segir Magnús í viðtalið hér í Læknablaðinu.

Hlusta má á Læknavarpið á Soundcloud og Spotify.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica