03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Ragna Kristín Guðbrandsdóttir: Einsetti sér að verða læknir og er við það að útskrifast yngst allra Íslendinga

Ragna Kristín Guðbrandsdóttir er ung en þó komin á stað sem enginn annar Íslendingur hefur áður náð á hennar aldri. Hún er rétt við það að útskrifast sem læknir aðeins 23 ára gömul. Fædd aldamótaárið og með Íslandsmeistaratitil í klassískum kraftlyftingum. Veikindi föður hennar gáfu henni tilgang og kraft til að verða læknir. Hún fetar í fótspor móður sinnar sem er læknir og er ekki ein um það því yngri bróðir hennar stefnir sömu leið

Læknavarpið · https://open.spotify.com/episode/7yNDznncFozwB6f1c2OmMB
Ragna Kristín Guðbrandsdóttir - Einsetti sér að verða læknir og að útskrifast yngst allra Íslendingaviðtal við Rögnu

„Ég lærði af mótlætinu. Ég er ánægð. Ég þroskaðist hratt og varð fyrir hugafarsbreytingu við einelti sem ég lenti í,“ segir Ragna Kristín Guðbrandsdóttir sem verður – ef allt gengur eftir á þessum lokametrum, yngst útskrifaðra íslenskra lækna við næstu athöfn, 23 ára gömul.

Ragna Kristín Guðbrandsdóttir hóf læknanámið 17 ára gömul og er nú á lokametrunum námsins og stefnir að því að útskrifast úr læknisfræði, aðeins 23 ára gömul. Hún lýsir leiðinni að markmiðinu og hvernig mótlæti gerði hana einbeitta að ná markmiði sínu. Mynd/gag

Ragna ákvað að stefna á læknanám á erfiðasta tímanum í lífinu sínu. Hún var í 8. bekk, pabbi hennar hafði greinst með krabbamein og hún skotspónn eineltis. Hún horfir til baka nú þegar draumurinn er við það að verða að veruleika. Ragna útskrifast í vor úr Háskóla Íslands – tveimur árum yngri en sá næstyngsti í bekknum.

„Ég hef ekki alltaf verið mikill námsmaður. Mér gekk ekki vel framan af í grunnskóla,“ segir hún og brosir yfir hljóðnemann við upptöku á hlaðvarpi Læknablaðsins. „Svo tók ég mig á, sérstaklega þegar ég lenti í eineltinu. Ég hugsaði: Þetta ætla ég að gera. Ég ætla að verða læknir. Það hélt mér gangandi að vinna að þessu markmiði. Ég man hvað ég var ótrúlega stolt af mér þegar ég komst inn. Mér tókst það.“ Ragna flaug inn í læknadeildina og draumur rættist.

„Já, ég lærði ótrúlega mikið fyrir inntökuprófið,“ segir hún og var ofarlega í hópnum sem komst inn.

Foreldrarnir hvatningin

„Pabbi greindist með alvarlegt krabbamein. Það hafði mikil áhrif á mig og fullvissaði mig í þeirri trú að ég vildi verða læknir, hjálpa fólki eins og tókst með pabba,“ segir hún. Hún hafi verið unglingur og séð hversu gott starf var unnið á deildinni þar sem pabbi hennar Guðbrandur Sigurðsson var meðhöndlaður.

„Ég er ótrúlega þakklát fyrir það. “ Móðir Rögnu er Rannveig Pálsdóttir, heimilislæknir og geðlæknir. „Hún er fyrirmynd mín og hefur alltaf hvatt mig áfram,“ segir Ragna og að hún hafi leitað til hennar þegar hún vildi dýpka skilning sinn í náminu.

„Við höfum rætt tilfelli. Það var mjög skemmtilegt þegar ég vann á fíknigeðdeildinni og hún kom og leysti af í eina viku og við gátum unnið saman. Það var algjör toppur.“

Landaði Íslandsmeistaratitli

Ragna hefur síðustu tæp 9 ár æft undir leiðsögn Ingimundar Björgvinssonar hjá Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur sem er staðsett í World Class á Seltjarnarnesi.

„Ég hef verið að keppa bæði hérlendis og erlendis með landsliðinu. Þetta er skemmtilegt og gefandi. Það krefst mikilla æfinga og hefur verið áskorun að samræma þetta skólanum. En mér líður svo miklu betur andlega og líkamlega eftir æfingar.“

Hún landaði Íslandsmeistaratitlinum í 69 kílóa ungliðaflokki í nóvember. Lyfti samtals 353 kílóum, 135,5 kílóum í hnébeygju, sem er Íslandsmet, 75 kg í bekk og 142,5 í réttstöðulyftu. „Já, ég bætti mig aðeins.“ Hún meiddist fyrr á ferlinum og hætti en byrjaði svo aftur að æfa í læknis-fræðinni.

„Ég er að ná fyrra formi og bæta ofan á það núna. Það er frábært.“ Hún æfi meðal annars með læknum: Signýju Völu Sveinsdóttur yfirlækni blóðlækninga á Landspítala og Sunnu Snædal sérfræðingi í nýrnalækningum. „Ég hef góðar fyrirmyndir í þessu.“

Ragna lýsir því hvernig það sé ekki komið til af góðu að hún klári læknisfræði svo ung. Við eineltið í grunnskóla hafi á endanum verið tekin sú ákvörðun að færa hana upp um bekk og beint í tíunda, svo fór hún í þriggja ára menntaskólanám. Hún lýsir því hvernig foreldrar hennar og skólinn hafi unnið að lausn.

„Skólinn var búinn að reyna allt sem hann gat og þegar ég fór upp um bekk eignaðist ég ótrúlega góða vini þar og er afar þakklát fyrir það.“ Þar hafi hún eignast sína bestu vinkonu sem hafi dregið hana í kraftlyftingarnar. Ragna segir að hún horfi með ákveðnu þakklæti til þessarar reynslu.

„Svo margt gott hefur komið út úr þessu fyrir mig. En það er vegna þess að ég hafði mikinn stuðning heima fyrir og fékk aðstoð fagaðila til að vinna úr afleiðingum eineltisins, bæði á meðan á þessu stóð og lengi eftir á. Þannig að ég get sagst vera þakklát. En það geta ekki allir því það eru ekki allir sem hafa tækifæri til að fá aðstoð, stuðning og hvatningu,“ segir Ragna.

„Ég var líka í íþróttum, sem hjálpaði mér mikið. Þjálfararnir hvöttu mig áfram og ég átti vini þar. Þetta var einskorðað við þennan fyrri bekk hjá mér sem betur fer,“ segir Ragna. Sterkt og gott samband við foreldrana hafi vísað henni veginn.

Reynsla sem breytti henni

En telur Ragna að þessi reynsla hafi áhrif á hvernig læknir hún verði? „Já, ég tel það en einnig að svona reynsla marki mann til lífstíðar. Mér finnst skipta miklu málið að unnið sé að forvörnum með börnum og að börn sem búa við erfiðar aðstæður eða hafa lent í áföllum séu gripin snemma, áður en þetta verður að ósköpum.“

Ragna segir að námið í læknisfræði hafi varpað ljósi á áhrif sem einelti geti haft á heilsuna. Hún hafi þessa sömu viku og hún mætir í hlaðvarpið hlýtt á fyrirlestur Margrétar Ólafíu Tómasdóttur í heimilislækningum um áhrif áfalla á fólk. „Ég hef sjálf mikið skoðað þetta út af áhuga. Svo vann ég á fíknigeðdeild og þá sá maður svart á hvítu hvað áföll hafa mikil áhrif ef ekki er gripið inn í og fólk fær ekki aðstoð. Þá leitar fólk í annað til að deyfa sig og hjálpa sér áfram.“

Í sterkum vinahópi

Ragna bendir á að fólk sé á öllum aldri í læknisfræðinni, þótt hún sé sú yngsta í bekknum. „Þetta var stökk fyrst. Ég var kannski félagslega óþroskaðri heldur en hin en það hefur gengið ótrúlega vel. Ég hef eignast frábæra vini. Við erum sterkur vinahópur. Við stelpurnar erum á öllum aldri. Aldur hefur svo lítið að segja þegar allir eru að gera það sama og vinna að sama markmiði.“

En hvað segja þá skjólstæðingarnir þegar þú kynnir þig? „Viðmótið er oft: Jæja vinan. Getur þú rétt mér þetta eða hitt. Sérstaklega frá eldra fólki. Það heldur ekki beint að ég sé læknirinn,“ segir hún og brosir. Hún vandi sig því við að gera augljóst frá byrjun að hún stýri ferð. „Sumir verða sorrí að átta sig á mistökum sínum.“

Ragna á nú eftir að fara í verknám í bráðalækningum, svæfinga- og gjörgæslulækningum og heimilislækningum. Einnig að taka samræmda ameríska prófið, CCSE, í maí og klára lokaverkefni sitt um geðrof og maníu af völdum ADHD-lyfja.

„Ég ætla að undirbúa mig vel fyrir það og klára þessa kúrsa.“ Hún stefnir út í sérnám. „Allir sérfræðingarnir sem ég tek mér helst til fyrirmyndar hafa ráðlagt mér það. Ég hugsa að ég geri það nú enda finnst mér heillandi að sjá eitthvað nýtt og geta komið með nýja þekkingu til baka.“

Margt á fimm ára plani

Ragna er ung og segir ljóst að fólk þurfi þroska til að geta borið ábyrgðina sem læknir gerir. Hún fagni því að hafa starfað á fíknigeðdeild sem starfsmaður og svo sem aðstoðarlæknir á Barnaspítala Hringsins meðfram náminu. „Mér finnst reynslan svo mikilvæg. Ég væri hugsanlega ekki nægilega hæfur læknir, hefði ég ekki unnið svona mikið utan skólans, sérstaklega hvað varðar samskipti við sjúklinga og samstarfsfólk. Það hefur gert hvað mest fyrir mig í náminu,“ segir hún.

„Mér finnst að það ætti að vera skylda fyrir fólk í læknisfræði að vinna sem starfsmaður í aðhlynningu meðfram fyrstu árunum í náminu. Maður öðlast aðra sýn á starfið og ber meiri virðingu og skilning fyrir því sem hinir í teyminu eru að gera,“ segir hún.

Og nú styttist í næsta val. Sérnámið. Margir staðir heilla. „Ég horfi til Bretlands eða Svíþjóðar eins og er. Það hentar mér og sambýlismanni mínum,“ segir hún, en hann er Tómas Jökull Thoroddsen lögfræðingur. Erfitt sé að velja úr sérgreinunum og hún heillist af því sem hún fáist við hverju sinni. Hún sé full tilhlökkunar fyrir starfinu sem hún velur – að vera læknir.

„Ég er spennt fyrir því að vera alltaf að mennta mig og mér finnst svo heillandi að geta alltaf verið að bæta við mig þekkingu eins og í læknisfræðinni.“ En er hún með fimm ára plan?

„Mig langar að vera komin út í sérnám, halda áfram rannsóknum, vera komin með fjölskyldu. Aðallega að vera búin að fóta mig í sérnámi og halda áfram í lyftingunum,“ segir hún og hlær. Áhugamálin eru fleiri og golfið bíður.

„Ég var að æfa og keppa í golfi sem barn og unglingur og hef ekki náð að sinna því sem skyldi eftir að ég byrjaði í læknisfræði en ég spila mjög mikið mér til skemmtunar. – Já, og prjóna. Gleymum ekki því.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica