03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Heimilislæknar grípa til aðgerða gegn bákninu, segir Margrét Ólafía Tómasdóttir

Læknar hafa gripið til aðgerða til að taka á tilvísana- og vottorðafargani innan heilbrigðiskerfisins. Formaður Félags íslenskra heimilislækna segir tólf lækna aðgerðahóp skoða fleiri leiðir til að straumlínulaga störf þeirra og nýta betur í þágu sjúklinga

„Ég vona að þetta útspil setji þrýsting á yfirvöld að hlusta á okkur og draga úr álagi á heimilislækna,“ segir Margrét Ólafía Tómasdóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna.

Margrét Ólafía Tómasdóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna segir félagið stefna í fleiri aðgerðir til að bæta vinnuumhverfi lækna og létta álaginu á þá. Mynd/gag

Félagið sendi í febrúar áskorun til lækna um að „taka höndum saman og hætta að skrifa út tilvísanir til barnalækna frá miðjum febrúarmánuði. Félagið vill með þessu taka á skrifræði í kerfinu. Tilvísanirnar geri ekki annað en að auka álag á heimilis- og barnalækna og valdi óþarfa álagi á foreldra og séu gerðar að forsendu þess að foreldrar fái þjónustuna niðurgreidda.

Margrét Ólafía segir bæði heimilislækna og barnalækna sem og heilsugæsluna hafa strax mótmælt þegar þetta tilvísanafyrirkomulag var sett á fyrir sex árum. „Þrátt fyrir mótmæli okkar hefur ekki verið gerð úttekt á því hver möguleg hagkvæmni sé af þessari þjónustu.“ Heimilislæknar stofnuðu aðgerðahópinn í október í aðdraganda aðalfundar Læknafélagsins.

„Þetta er tilraun til að taka málin í okkar hendur í stað þess að tala endalaust. Við ætlum nú sjálf að ráðast í einfaldar lausnir til að draga úr álagi á heilsugæsluna. Við ætlum að sjá hversu langt við komumst. Byrja að hreinsa til og skoðum nú þegar aðrar aðgerðir til þess; Heilsuveru, endurhæfingaráætlanir og vinnuveitendavottorðin.“

Félagið lét heilbrigðisráðuneytið vita af fyrirætlun sinni og fékk svar. Þar er bent á að í gildi sé reglugerð um tilvísanirnar en ráðuneytið sé þó meðvitað um þann vanda sem felist í fjölda tilvísanabeiðna umfram þau tilvik þar sem læknir geti haft aðkomu.

Ráðuneytið vísar í nýgerða samninga við sérgreinalækna. Taka þurfi mið af þeirri breytingu við endurskoðun tilvísana sem skilyrði gjaldfrjálsrar sérgreinalæknishjálpar. Ráðuneytið hafi kallað eftir upplýsingum frá Sjúkratryggingum og geri ráð fyrir að kynna niðurstöðu vinnu sinnar á næstu vikum.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica