09. tbl. 104. árg. 2018
Ritstjórnargrein
Nýliðun lækna
Læknisþjónusta er grunnstoð heilbrigðiskerfisins og stendur styrkum faglegum stoðum hérlendis. Í nýlegri sameiginlegri yfirlýsingu evrópskra læknasamtaka, sem birt er á öðrum stað í blaðinu (bls. 409), er lögð áhersla á lykilhlutverk lækna í sjúkdómsgreiningum, meðferð og þverfaglegri umönnun sjúklinga.
Stjórnvöld hafa kallað eftir samfélagsumræðu um skipulag heilbrigðiskerfisins en óljóst er hvert stefnir af þeirra hálfu. Læknar hafa lýst sig reiðubúna í slíkt samtal.
Læknafélag Íslands (LÍ) leggur áherslu á þrískiptingu sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu lækna í heilsugæslu og forvarnir, sérgreinaþjónustu lækna utan sjúkrahúsa og á göngu- og dagdeildum og svo sjúkrahúsþjónustu. Uppbygging, þróun og fjárveitingar til þessara þjónustuþátta eiga að haldast í hendur. Skipulag kerfisins verður að veita sveigjanleika til framfara í læknisfræði og aðgengi sjúklinga ásamt hagkvæmni og nýliðun.
Stefna LÍ hefur verið að styðja við fjölbreytileika í rekstri sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, hvort sem það er hjá sérgreinalæknum á stofu eða í heilsugæslu, og telur mikilvægt að samkomulag um slíka þjónustu sé skýrt og samningar virtir. Á grundvelli þessara samninga hefur mikilvægum þáttum í opinberu heilbrigðisþjónustunni verið sinnt fram til þessa.
Almenningur er hlynntur einkarekinni sérhæfðri læknisþjónustu utan sjúkrahúsa sem er samningsbundinn hluti af opinberri þjónustu. Þetta má sjá í niðurstöðum skoðanakönnunar Rúnars Vilhjálmssonar fyrir BSRB frá 2015, þar sem minnihluti, eða 40% aðspurðra, taldi að slíka þjónustu ætti eingöngu að veita af hinu opinbera en 60% voru hlynnt blönduðu kerfi eða eingöngu einkareknu. Hvort núverandi stjórnvöld ætla að ganga gegn meirihlutavilja þjóðarinnar og draga úr þjónustu við sjúklinga eða koma á tvöföldu heilbrigðiskerfi með því að semja ekki við lækna á eftir að koma í ljós.
Eitt af lykilatriðum í jákvæðri framfaraþróun í þessum geira er að tryggja nýliðun lækna og aðstreymi nýrrar þekkingar og reynslu. Það er því váleg staða þegar þeim þætti er ógnað til lengri eða skemmri tíma. Starfandi læknar á Íslandi eru í dag 1296 og erlendis starfa 815 íslenskir læknar sem vonandi fá tækifæri til að starfa hérlendis í framtíðinni á þeim vettvangi sem þeir kjósa sjálfir og þörf er fyrir.
Nýliðun þarf að eiga sér stað á öllum sviðum læknisþjónustunnar. Á sama tíma og landsmönnum hefur fjölgað um 30.000 frá árinu 2010, hefur fastráðnum heilsugæslulæknum fækkað hjá öllum heilbrigðisstofnununum nema einni. Meðal annars hefur stöðugildum sem setin eru af sérfræðingum í heimilislækningum hjá hinu opinbera fækkað um 13%, mest á landsbyggðinni, eða frá 5% til 47%. Hjá heilsugæslustöðvum í einkarekstri sem hið opinbera hefur náð að gera þjónustusamning við er staðan önnur en þar starfa nú 29 sérfræðingar í heimilislækningum.
Á sjúkrahúsum hefur verið bent á að starfsaðstæður eru óviðunandi og álag á sjúkrahúslæknum á Landspítala er fram úr hófi á mörgum deildum, til dæmis bráðamóttökunni. Bráðalæknar hafa talað fyrir daufum eyrum allt frá nærstjórnendum upp í ráðuneyti. Þar eru þeir ekki einir á báti. Stöðuheimildum þarf að fjölga og nýliðun þarf að örva á sjúkrahúsum landsins. Þjónustuliðum verður ekki bætt þar við án slíkra aðgerða.
LÍ leggur áherslu á að aðgengi að faglegri þekkingu lækna sé ætíð tryggt og til staðar í landinu, þar með talið með samfelldri nýliðun lækna. Að fram fari mat á mannaflaþörf lækna á öllum sviðum sérgreinalækninga, þar með talið heimilislækna og á meðal almennra lækna. Tryggja þarf að sérhæfð læknaþjónusta sé áfram veitt utan sjúkrahúsa með samningum um opinbera þjónustu sérgreinalækna á eigin læknastofum og heilsugæslustöðvum. Endurskoða þarf kjör landsbyggðarlækna með stjórnvaldsátaki. Styrkja þarf þjónustu sérfræðilækna og bæta vinnuaðstæður á Landspítala og öðrum sjúkrahúsum með auknum framlögum í fjárlögum ríkisins. Að verkefni hvers þjónustuaðila séu vel skilgreind og endurskoðuð með þarfir skjólstæðinga í fyrirrúmi. Að áhersla verði lögð á gæðastarf og leiðandi hlutverk lækna.
Heimildir
1. Sameiginleg yfirlýsing læknasamtaka í Evrópu. Um lykilhlutverk lækna í sjúkdómsgreiningu, meðferð og þverfaglegri umönnun sjúklinga. Læknablaðið 2018; 104: 422. | |
2. Heimilislæknar á Íslandi og ráðningar heilsugæslulækna á landsbyggðinni. 538. mál, fyrirspurn til heilbrigðisráðherra á 148. löggjafarþingi 2017-2018. althingi.is/altext |