06. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Lokað útboð í rannsóknahús Landspítala

                                  

Nýr Landspítali ohf, í samstarfi við Ríkiskaup og Framkvæmdasýslu ríkisins, hefur afhent fjórum hönnunarteymum útboðsgögn vegna fullnaðarhönnunar nýs 15.000 fermetra rannsóknahúss.

Hönnunarteymin fjögur sem stóðust kröfur sem gerðar voru í forvalinu eru Grænaborg (Arkstudio ehf, Hnit verkfræðistofa, Landmótun, Raftákn, Yrki arkitektar), Mannvit og Arkís arkitektar, Corpus3 (Basalt arkitektar, Hornsteinar arkitektar, Lota ehf og VSÓ ráðgjöf) og Verkís og TBL.

Rannsóknahúsið er hluti af heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut og er áætlað að það verði staðsett vestan megin við svokallaðan Læknagarð þar sem bílastæðin eru nú.

Aðrar byggingar eru meðferðarkjarninn, sem er stærsta byggingin í uppbyggingu Hringbrautarverkefnisins, nýtt sjúkrahótel, sem verður tekið í notkun á árinu og bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús.

Starfseiningar í rannsóknahúsi verða meinafræði, rannsóknakjarni, klínísk lífefnafræði og blóðmeinafræði, frumuræktunarkjarni, frumumeðhöndlun, erfða- og sameindalæknisfræði, ónæmisfræði, rannsóknastofa í gigtsjúkdómum og sýkla- og veirufræði.

Einnig mun starfsemi Blóðbanka flytjast í nýtt rannsóknahús. Rannsóknahúsið tengist meðferðarkjarna og öðrum byggingum spítalans með sérstökum sjálfvirkum flutningskerfum, einnig með tengigöngum og tengibrúm. Á þaki rannsóknahússins verður einnig þyrlupallur (22 m í þvermál) sem tengist bráðamóttöku og fleiri deildum í meðferðarkjarna um tengibrú. Þyrlupallurinn þarf að geta tekið við þyrlum af ýmsum gerðum og er stærð hans ákvörðuð með tilliti til þyrlna sem eru lengri og þyngri en núverandi þyrlur Landhelgisgæslu Íslands, til að tryggja nýtingu til framtíðar.

Nýtt rannsóknahús mun skapa mikið hagræði hjá Landspítalanum vegna sameiningar allrar rannsóknastarfsemi spítalans á einn stað. Þá eru samlegðaráhrif við Háskóla Íslands mikil, en skólinn mun reisa nýtt hús heilbrigðisvísindasviðs sem verður tengt rannsóknahúsinu. Samkvæmt áætlunum mun nýtt rannsóknahús verða tekið í notkun á árinu 2024 í samræmi við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Opnun tilboða verður hjá Ríkiskaupum þann 11. júní næstkomandi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica