07/08. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Aldarafmæli Læknafélags Íslands 2018

Undirbúningur er hafinn að afmælishaldi Læknafélags Íslands, LÍ sem verður 100 ára 14. janúar 2018. Til stendur að það verði gert á margvíslegan hátt á víð og dreif allt árið. Við skipulag afmælishalds hefur verið haft að leiðarljósi að læknar gleðjist saman, skemmti hver öðrum og minni í leiðinni á sig í samfélaginu á jákvæðan máta. Afmælisnefnd var skipuð sem unnið hefur hugmyndir um fjölbreytta viðburði sem dreifast eiga yfir árið 2018. Fyrst og fremst vakir fyrir okkur að færa stærstu viðburði í starfi félagsins í hátíðarbúning. Einnig vildum við búa til ný og skemmtileg atriði. Nefndarstarf hefur verið í náinni samvinnu við stjórn LÍ, framkvæmdastjóra, formann Fræðslustofnunar og ritstjórn Læknablaðsins.

 

Læknadagar

Læknadagar gefa eftir setningarhátíðina 15. janúar og flyst öll dagskrá í Eldborgarsal Hörpu seinnipart mánudags. Von er á hrífandi atriðum beint frá læknum en einnig fáum við góða gesti.

Ætlunin er að hafa þrisvar í Læknadagavikunni opna kvölddagskrá í Hörpu, Norðurljósasal, þar sem almenningi verður gefinn kostur á einhverju af því besta sem í boði hefur verið undanfarin ár. Við höfum vilyrði fyrir endurflutningi á Kaldalónsdagskránni sem þótti takast einkar vel í janúar síðastliðnum til að nefna dæmi. Vonandi tekst okkur líka að halda opinn fræðslufund norðan heiða, HOF hefur verið nefnt í því samhengi en ekki er komin dagsetning.

LÍ tekur við kefli LR hvað varðar árshátíðarhald sem verður með sérstöku hátíðaryfirbragði 20. janúar.

 

Læknablaðið

Læknablaðið hyggur á greinaflokk í öllum tölublöðum ársins þar sem læknar og mál félagsins gömul og ný, og jafnframt í öðru ljósi en hefðbundið er, verða reifuð. Forsíðumynd og annar leiðari þessara blaða verða tileinkaðir félaginu auk greina, ljósmynda og viðtala.

 

Fjölbreytt félagslíf

Smærri viðburðum verður dreift yfir bjartari tíma ársins, til dæmis göngum, golfi, fjallaferðum og garðveislu. Ýmis félagasamtök meðal lækna hafa verið virkjuð til dæmis öldungadeild, en þátttaka enn fleiri er vel þegin. Á vegum öldungadeildar er hópur sem tekið hefur að sér að nafngreina einstaklinga sem eru á ljósmyndum úr eigu félagsins, sem nú eru komnar á Þjóðskjalasafn. Þarna er nokkurt safn árgangshópa sem myndaðir voru á seinni hluta 20. aldar. Ætlunin er að setja upp ljósmyndasýningu seinni hluta 2018. Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar FÁSL hefur einnig lýst sig fúst til samstarfs um afmælishaldið.

 

Innra starf

Siðfræðiþing á vegum LÍ verður haldið í tengslum við ársfund World Medical Association, WMA sem haldinn verður í Reykjavík í október.

Aðalfundur LÍ er samkvæmt venju 21. aldarinnar á haustdögum. Afmælisnefnd væntir sérlega höfðinglegs kvöldverðar með góðum gestum í þeim fundarhöldum en útfærsla verður á vegum stjórnar.

Við sem stöndum að skipulagningu með stjórn lögðum til að fagmenn kæmu að útfærslu stærri viðburða. Ætlunin er að bæta fánaeign félagsins og einnig að útfæra kennimerki svo prenta mætti það á nytjahluti og gera okkur sýnilegri. Í haust á að verða til viðburðadagatal og við viljum hafa hirðljósmyndara með okkur í skipulögðum atriðum. Afmælisnefndin vill svo skila af sér uppgerðu ári í myndum ekki síðar en á Læknadögum 2019.

Með félagskveðju,

fyrir hönd afmælisnefndar,

Birna Jónsdóttir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica