01. tbl. 103. árg. 2017
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Heilsugæsla á tímamótum! Þórarinn Ingólfsson
Mikil alþjóðleg vakning hefur átt sér stað á síðustu árum varðandi mikilvægi heilsugæslu. Heilbrigðiskerfi heimsins standa frammi fyrir miklum áskorunum. Öldrun þjóða, innreið lífsstílssjúkdóma og fjölgun sjúklinga með flókinn heilsuvanda er ekki bara orðin tóm. Flestir eru sammála um að heilbrigðiskerfin þurfi að bregðast við skjótt. Það er heilsugæslan sem á áhrifaríkastan hátt getur svarað þessum áskorunum. Heilsugæslan annast fólk og læknar það, veitir hvatningu og eflir fólk á öruggan og árangursríkan hátt. Heilsugæslan veitir þjónustu sína á ytri mörkum heilbrigðiskerfisins og er tengiliður þess við sjúkrahús og sérfræðinga. Heilsugæslan flokkar ekki fólk eftir sjúkdómsgreiningum, eða aldri, allir eru velkomnir alltaf. Þetta er það sem liggur að baki þegar gerð er krafa um að heilsugæslan eigi að vera „fyrsti viðkomustaðurinn“.
Til þess að annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónusta geti sinnt hlutverki sínu þarf að vera hægt að reiða sig á heilsugæsluna. Heilsugæslan á Íslandi hefur hins vegar liðið fyrir langvarandi undirfjármögnun og stjórnunarvanda. Megin rekstrarmarkmið stærstu heilbrigðisstofnana sem reka heilsugæslu hefur verið að skila stofnunum réttum megin við fjárheimildir. Til viðbótar kom átakanlegur niðurskurður árið 2008 sem þjónustan hefur liðið fyrir.
Heilsugæsla á landsbyggðinni stendur veikt og er læknisþjónustan víða rekin með aðstoð afleysara í verktöku. Slíkt er ekki boðlegt. Fórnarkostnaðurinn við að skila hallalausum rekstri hefur verið heilsugæsla í sárum sem ekki nær að sinna hlutverki sínu og starfsánægja í lágmarki. Til samanburðar má nefna að í fjármögnunarlíkani því í Svíþjóð sem er fyrirmynd fjármögnunarlíkans þess sem á að innleiða á næsta ári í heilsugæslu er fjármögnunin um 40% meiri. Þó er skólaheilsugæsla og mæðravernd ekki inni í sænska líkaninu. Þá væri munurinn enn meiri.
Í janúar á þessu ári kom út rannsóknarskýrsla fyrir alþingi þeirra Svía, Riksdagen, þar sem rannsóknaraðilum var falið koma með tillögur að úrræðum til að bæta heilbrigðiskerfið. Skýrsluhöfundar skiluðu viðamiklum tillögum til úrbóta þar sem rauði þráðurinn er að veita þjónustuna á forsendum sjúklingsins í samráði við sjúklinginn á viðeigandi stað og af viðeigandi aðilum. Efla þyrfti samfellu í þjónustunni og styrkja lárétt samstarf milli mismunandi aðila innan heilbrigðiskerfisins. Auka þyrfti innsæi og skilning mismunandi aðila í kerfinu á starfi hvers annars. Skýrslan er 800 blaðsíður en á síðu 30 í samantekt um skýrsluna segir eftirfarandi:
„Rannsóknin sýnir þar að auki að efling heilsugæslunnar er að öllum líkindum árangursríkasta staka úrræðið til að auka jöfnuð í heilsu borgaranna. Við leggjum þess vegna til löggjöf á landsvísu sem skilgreinir verkefni heilsugæslunnar.“
Á vef Ríkisendurskoðunar má sjá að stofnunin hefur ákveðið að eigin frumkvæði að fara í úttekt á stærsta veitanda heilsugæslu á Íslandi, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Tilefnið er fyrirferðarmikil umræða um málefni heilsugæslunnar og gagnrýni fyrir langa bið eftir læknisþjónustu. Með hliðsjón af mikilvægi heilsugæslunnar í heilbrigðiskerfinu ákvað Ríkisendurskoðun að kanna hvernig heilsugæslan stæði undir hlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu. Þegar þessi orð eru rituð hafa niðurstöður Ríkisendurskoðunar ekki enn verið birtar.
Ljóst er að heilsugæslan á Íslandi er verulega undirmönnuð, sérstaklega af læknum. Í sérnámi hérlendis hafa verið 30-40 námslæknar undanfarið og 4-9 útskrifast að jafnaði á ári. Ef við miðum okkur við Svía ættu hér að vera 80 sérnámslæknar og þrír kennslustjórar fjármagnaðir af velferðarráðuneyti. Hér þarf að bæta verulega í.
Samhliða þarf að efla kennslu í heimilislækningum við læknadeild Háskóla Íslands til að kynna fagið betur og fá fleiri unga lækna í heimilislækningar.
Sú kerfisbreyting sem núverandi heilbrigðisráðherra hefur staðið fyrir verður að mínu mati mjög til bóta fyrir almenning. Tvær nýjar heilsugæslustöðvar verða opnaðar á næsta ári og þannig stigið mikilvægt skref til þess að byggja upp heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðin sem sett eru fram í umbótaáætlun heilbrigðisráðherra, eins og nafngreindur heimilislæknir fyrir alla og kröfulýsing fyrir veitendur þjónustunnar, eru mjög í takt við alþjóðleg gæðaviðmið um þjónustuna sem veita á. Þjónustan, sem kallar á auðvelt aðgengi og samfellda og persónulega umönnun við sjúklinga með flókin vandamál, krefst aukinnar teymisvinnu eins og gert er ráð fyrir í tillögum ráðherra. Jöfnun fjármögnunar eykur sjálfstæði notandans og er réttlátari gagnvart þeim er veitir þjónustuna. Kröfulýsing fyrir heilsugæslu hefur því miður ekki verið kostnaðargreind og aukin gæði og fleiri verkefni kalla auðvitað á aukið fjármagn. Þannig hefur uppbygging og umgjörð verið bætt verulega en til þess að breytingarnar skili árangri þarf að fylgja fjármagn til framkvæmda á umbótunum.