12. tbl. 102. árg. 2016

Ritstjórnargrein

Læknaskóli í 140 ár

Magnús Karl Magnússon prófessor og forseti læknadeildar Háskóla Íslands

doi: 10.17992/lbl.2016.12.109

Upp úr miðri 19. öld var heilbrigðisþjónusta í okkar fátæka og afskekkta landi með nokkuð öðrum brag en nú þekkist. Læknaskortur var mikill. Þrátt fyrir að fyrsti íslenski landlæknirinn, Bjarni Pálsson, skipaður 1760, hefði með miklum dugnaði menntað íslenska lækna samhliða öðrum störfum var ástandið tæpri öld síðar þannig að enginn stundaði læknanám á Íslandi og fáir Íslendingar lögðu land undir fót til að nema læknisfræði og enn færri sneru heim með gráðu í farteskinu. Þannig segir Vilmundur Jónsson í formála Læknatalsins hins fyrsta að þrátt fyrir að „stjórnvöldin ívilnuðu að ýmsu leyti Íslendingum er leggja vildu stund á læknanám ytra, varð eftirtekjan ekki meiri en svo að einir 12 luku læknaprófi í Kaupmannahöfn fyrstu sex áratugi aldarinnar, og af þeim ílentust fjórir ytra“.1 Nýendurreistu Alþingi var ljóst að ekki yrði gerð bragarbót á þessum mikla læknaskorti nema með endurreisn læknakennslu innanlands. Jón Thorstensen þáverandi landlæknir sýndi innlendri læknakennslu lítinn áhuga. Það urðu þó straumhvörf þegar Jón Hjaltalín (1807-1882) tók við embætti landlæknis árið 1855. Hann beitti sér fyrir því að Alþingi samþykkti bænaskrá til konungs um stofnun læknaskóla á Íslandi. Þegar þeirri beiðni var hafnað gafst Jón Hjaltalín ekki upp og sótti fast að taka upp eldri sið og fá leyfi til þess að landlæknir mætti mennta unga sveina til læknaprófs. Árið 1862 fékkst leyfi konungs og hófst þá uppbygging læknanáms með fjölbreyttu og metnaðarfullu námi, þar sem kennd voru meðal annars líkskurðarfræði (anatomie), lífseðlisfræði, sjúkdómafræði, handlæknisfræði, yfirsetukvennafræði, chemie, heilbrigðisfræði, meðalaverkunarfræði og fleiri greinar. Þetta metnaðarfulla starf Jóns Hjaltalíns sýndi fram á getu Íslendinga til að mennta lækna og á næsta hálfa öðrum áratug lögðu 13 ungir menn stund á nám og útskrifuðust sem kandídatar. Með þessu varð gerbreyting á stöðu mála miðað við hina fyrstu 6 áratugi aldarinnar.1

Í ljósi þessa brautryðjendastarfs Jóns landlæknis Hjaltalín var konungi ekki lengur stætt á að neita kröfum Íslendinga um stofnun Læknaskóla. Árið 1876 var Læknaskóli Reykjavíkur því stofnaður með konungsbréfi. Nú eru því 140 ár liðin frá stofnun læknaskóla á Íslandi og eru fáar stofnanir sem hafa blómstrað jafnlengi í okkar samfélagi og gefið af sér jafn ríkulegan ávöxt. Í upphafi voru ráðnir þrír kennarar. Auk Jóns, sem veitti skólanum forstöðu, voru ráðnir Jónas Þ. Jónassen (1840-1910) og Tómas Hallgrímsson (1842-1893). Fyrstu árin var skólinn rekinn í Sjúkrahúsi Reykjavíkur við enda Aðalstrætis en flutti síðar í Þingholtin (í hús er nú kallast Farsóttarhúsið).2 Metnaður var mikill en stundum var erfitt að fá þann efnivið er til þurfti. Þannig var ávallt skortur á líkum til líkskurðarkennslu og er fræg sagan af Þórði malakoff Árnasyni, þekktum brennivínsberserk í borginni sem seldi lík sitt Læknaskólanum með fyrirframgreiðslu og tórði svo árum saman læknanemum og kennurum skólans til nokkurs ama. Er Þórður malakoff loks dó árið 1897 var umtalað að læknanemar hafi tekið svo „sleitilega og frómlega“ til verks að dómkirkjuprestur hafi flutt líkræðu yfir nánast tómri kistunni.3 Á þeim 35 árum sem Læknaskólinn starfaði jókst kennarafjöldinn úr þremur í 8 og alls útskrifuðust 62 kandídatar frá skólanum.2 Læknaskóli Reykjavíkur var síðan ein grunnstoð í stofnun Háskóla Íslands árið 1911 og hófst þá nýr kafli í læknanámi á Íslandi.

Á þeim 140 árum sem liðin eru frá upphafi læknanáms á Íslandi hefur mikið breyst. Á þessu afmælisári læknanáms er að hefjast heildarendurskoðun á læknanámi til að bregðast við auknum kröfum um gæði náms og til að undirbúa nýja kynslóð lækna fyrir þær fjölmörgu áskoranir sem við okkur blasa. Í nýlegri sjálfmatsskýrslu deildarinnar voru greind þau atriði í náminu sem bæta má en jafnframt komu í ljós atriði sem læknadeild getur verið stolt af. Vel yfir 90% nemenda eru í heildina ánægðir með nám sitt. Íslenskir læknar eiga greiða leið í sérnám til bestu sjúkrahúsa austan hafs og vestan. Nemar okkar taka bandarískt stöðupróf í lok náms (Comprehensive Clinical Science Examination - CCSE) og ná frábærum árangri, skora að meðaltali 80-82 stig en meðaltal bandarískra læknanema á lokaári síns náms er 75 stig. Fjölbreytni kennarahópsins er mikil, læknar og aðrir vísindamenn deildarinnar hafa menntað sig við bestu stofnanir beggja vegna Atlantsála. Getur því deildin verið gífurlega stolt af sínum nemum og kennurum. Endurskoðun á læknanámi mun leitast við að tengja enn betur saman grunnnám og klínískt nám, auka verulega á fjölbreytni kennsluaðferða, auka möguleika á rannsóknarnámi, svo sem samtengdu lækna- og doktorsnámi. Einnig verður hugað að því að mennta enn frekar þá lækna sem samfélagið þarfnast, svo sem með aukinni áherslu á heilsugæslu, persónumiðaða læknisfræði (personalized eða precision medicine) og heilsu aldraða.

Í nútímasamfélagi gegna háskólar lykilhlutverki við menntun, vísindi og nýsköpun. Um leið eru þeir undirstaða framfara. Í samfélaginu er rík og sívaxandi krafa um öfluga háskóla. Læknadeild Háskóla Íslands tekur þetta fjölþætta hlutverk sitt mjög alvarlega. Á þessum tímamótum í læknanámi á Íslandi væri engin betri afmælisgjöf en að stjórnvöld vöknuðu úr dvala og svöruðu ákalli háskólayfirvalda og samfélags um stóraukin fjárframlög til að tryggja komandi kynslóðum gæðamenntun sem mun tryggja heilsu, hamingju og hagsæld til framtíðar.

16. desember næstkomandi verður þessara tímamóta minnst með málþingi og móttöku í Háskóla Íslands og eru læknar, starfsmenn deildarinnar og aðrir velunnarar hvattir til að mæta.

Heimildir

1.    Jónsson V. Læknar á Íslandi (Inngangur) (önnur útgáfa). Læknafélag Íslands/Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1952.

2.    Ásmundsson P. Síðustu kennarar Læknaskólans í Reykjavík. Læknablaðið 2015; 101: 281-2.

3.    Friðriksson G. Þórður malakoff. Lesbók Morgunblaðsins 1992 (11. apríl) 15. tölublað.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica