12. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Hjálækningar, kukl og heilsusvindl

„Það er því miður engin ein algild skilgreining á fyrirbærinu óhefðbundin heilsustarfsemi enda fjölmargt sem rúmast undir þeim hatti,“ segir Svanur Sigurbjörnsson lyflæknir sem fjallaði nýverið um hinar ýmsu birtingarmyndir kukls og hjálækninga í fyrirlestri á Fræðadögum Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.


„Vísindi og lækningar eru í kjarna sínum ekki vinsældakeppni, lýðræðis-
mál eða smekksatriði. Lífeðlisfræðileg ferli lúta ákveðnum lögmálum sem
hafa ekki margar andstæðar skýringar,“ segir Svanur Sigurbjörnsson lyflæknir.


Óhefðbundin heilsustarfsemi er þýðing á orðasambandinu „Alternative medicine“ og segir Svanur að þar sé ýmislegt gagnlegt að finna en einnig margt sem nútímaþekking ætti fyrir löngu að vera búin að henda út í hafsauga.

„Sumt af því sem eru hjálækningar og kukl í dag var hefðbundið áður og því hafa sumir áhangendur þess kallað lækna nútímans „óhefðbundna“ og lyf þeirra „eiturbras“.  Þekkingarheiminum er snúið á hvolf og það er furðuleg þversögn að samhliða gríðarlega góðri vísindalegri þekkingu skuli gerviþekking og kukl blómstra sem aldrei fyrr.“

Svanur segir mikilvægt að gera greinarmun á því sem kalla má hjálækningar og getur gert tilkall til vísindalega sannanlegs árangur og svo hins sem hann segir hreinlega kukl og svindl og gengur út á fullyrðingar um virkni og lækningamátt sem stenst enga nánari skoðun. 

„Á 19. öld tíðkuðust fjórir flokkar alþýðulækninga; grasalækningar, andlegar athafnir eins og særingar og bænir, andalækningar þar sem miðlar sóttu látna lækna og smáskammtalækningar (hómeópatía) sem þá var nýtilkomin. Vísindaleg læknisfræði útrýmdi þessu nánast á fyrri hluta 20. aldar en á síðustu áratugum aldarinnar reis upp ný bylgja undir öðrum formerkjum samhliða því sem opinber forræðishyggja lét undan, nýaldartrú og náttúrutrú, sem byggir á fullyrðingunni um að það sem er náttúrulegt sé eðli málsins samkvæmt hollt, sjálflærdómur í gegnum netið og nýjar öflugar aðferðir til markaðssetningar. Allt hefur þetta hrundið af stað bylgju gerviþekkingar og kukls.“

Í besta falli skaðlausar

Á ráðstefnu sem efnt var til í apríl á þessu ári til heiðurs Magnúsi Jóhannssyni prófessor, flutti fyrirlestur læknirinn Edzard Ernst sem er jafnframt höfundur metsölubókarinnar Trick or Treatment.* Ernst er fyrrverandi prófessor í óhefðbundnum meðferðum við Exeter-háskóla í Bretlandi og hefur ritað fjölda bóka og greina um óhefðbundna heilsustarfsemi, kukl og heilsusvindl af ýmsu tagi. Sjálfur er hann upphaflega menntaður í hómeópatíu og nálastungumeðferð og þekking hans á þessu sviði er óumdeild. Kjarni fyrirlestrar Ernst var að hrekja algengustu fullyrðingar og haldvillur (fallacies) sem uppi eru um gagnsemi óhefðbundinnar heilsustarfsemi og rakti hann niðurstöður vísindalegra rannsókna sem gerðar hafa verið á ýmsum óhefðbundnum meðferðum og að í langflestum tilfellum hafi þær fallið á prófinu. Þær geri einfaldlega ekki það gagn sem þær eru sagðar gera, í besta falli séu þær skaðlausar, í sumum tilfellum valdi þær skaða og í nokkrum tilfellum valdi þær dauða. Meðal þess sem hann nefndi gagnslaust voru lithimnugreining, smáskammtalækningar, nálastungur gegn reykingum, hnykkingar við astma, svæðameðferð, ristilhreinsun, eyrnakerti, segularmbönd, aloe vera og kvöldvorrósarolía. Blekkingin um bætta líðan felist í lyfleysuáhrifum sem eru vel þekkt en þau vari skammt.

Fyrirlestur Edzard Ernst er á slóðinni: www.upplyst.org/fundir-og-malthing/malthing-magnusar/

Pottur víða brotinn í eftirliti

„Læknar hafa lengst af bara fylgst með kukli og brosað út í annað og lítið gert af því að gagnrýna þessa þróun. Hið sama má segja um Embætti landlæknis sem hefur lítið beitt sér gegn þessu þó einstaka læknar, eins og prófessor Magnús Jóhannsson, hafi skrifað pistla gegn því,“ segir Svanur.

Hann segir að það sé ekki allt kukl innan óhefðbundinnar heilsustarfsemi og í því sambandi megi nota hugtakið hjálækningar á jákvæðan máta á eftirfarandi hátt. „Lækningar eru greiningar og meðferð sem hafa með sannanlegum hætti og vísindalegri aðferð sýnt fram á marktækt gildi sitt til einhvers eða fulls bata einstaklings af sjúkdómi. Hjálækningar eru tilraun til lækninga af ófaglærðum eða lærðum í greinum utan læknisfræði sem geta haft sannanleg áhrif til aukins bata. Besta dæmið um slíkt eru grasalækningar en sýnt hefur verið fram á gagnsemi ýmissa virkra efna sem eru í þeim plöntum sem notaðar eru til grasalækninga. Virku efnin eru þó ekki einangruð því þá værum við að tala um lyf, heldur eru þau notuð eins og þau koma af plöntunni, síuð út í vatni eða vínanda, það er remedía eða tinktúra.“

Svanur segir víða pott brotinn í opinberu eftirliti með kukli og heilsusvindli. „Kukl er einfaldlega meðferð af einhverju tagi sem stenst ekki skoðun og heilsusvindl er markaðssetning á vörum, tækjum og meðferðum sem seldar eru á almennum markaði undir því falska yfirskyni að þau bæti heilsu og lækni sjúkdóma. Lyfjalögin er alveg skýr því ekki er heimilt að lofa lækningu við sjúkdómum nema um gagnreynt lyf sé að ræða og neytendalöggjöfin kveður á um að færa verði sönnur á þær fullyrðingar sem seljandi hefur uppi um vöru sína.“

Árið 2005 voru samþykkt Græðaralög á Alþingi og ná til starfsemi þeirra sem eru í Bandalagi íslenskra græðara (BÍG). „Meginatriði þessara laga er að skrá græðara sem þá aðila sem stunda heilsutengda þjónustu utan heilbrigðisþjónustunnar. Skráningarkerfið er frjálst og er stýrt af BÍG en í lögunum er kveðið á um þá skyldu græðara að vera með ábyrgðartryggingu, virða trúnaðar- og þagnarskyldu og skrá upplýsingar um veitta þjónustu. Takmarkanir á starfsemi græðara samkvæmt lögunum eru að sinna ekki meðferð við alvarlegum sjúkdómum, veita ekki lyfjameðferð og halda sig á sínu afmarkaða sviði. Þetta síðasttalda er reyndar mjög opið og óljóst. Það sem er þó verst við þessi lög er að þau kveða ekki á um að þjónustan sem BÍG-félagar veita falli undir og standist faglega skoðun. Það má líka benda á að í umsögn Heilsugæslunnar um lögin á frumvarpstigi árið 2004 segir: „Þeir sem hvorki geta né vilja skrá sig í kerfið eru ef til vill þeir sem helst þyrftu eftirlits með.““

Listinn yfir þá sem ekki eru skráðir í Bandalag íslenskra græðara er býsna langur og skrautlegur og má nefna læknamiðla, ristilskolara, heilara, fjarheilun á fésbókinni, eyrnakertameðferð, stofnfrumuheilun og sveltispa. Í Græðaralögunum segir þó í 1. gr. 2. mgr.: „Lögin taka til skráðra græðara og eftir því sem við á annarra græðara þótt óskráðir séu.“

Ef óhefðbundin heilsustarfsemi er flokkuð lítur hún svona út að mati Svans. „Í fyrsta lagi eru grasalækningar með mögulega virkum efnum. Mekanískar greinar þar sem beitt er höndum og tækjum ýmiss konar, nudd, hnykkingar og nálastungur. Þá taka við alls kyns aðferðir og meðferðir sem útskýrðar eru með hugmyndakerfum, svo sem lithimnulestur. Þá eru meðferðir með einangruðum efnum eins og magnesíum, háskammta vítamínum og fleiru úr fæðubótageiranum. Síðan eru til ótal aðferðir og meðferðir sem eru ýmiss konar blanda af ofangreindu, svo sem höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun, orkulækningar, heilun, miðlar og fleira.“


Ekki vinsældakeppni eða smekksatriði

Á vefsíðunni upplyst.is má lesa ágætar greinar raunvísindafólks og sérfræðinga um óhefðbundna heilsustarfsemi, heilbrigðismál og matvæli. Um markmið síðunnar segir: „Í desember 2012 var stofnaður vinnuhópur fagfólks sem hefur það markmið að vekja athygli á og berjast gegn ýmis konar bábiljum tengdum heilsu og matvælum sem vaða uppi í samfélaginu. Hópurinn kallast Upplýst og í honum eru ríflega 20 sérfræðingar á ýmsum sviðum heilbrigðisfræða og raungreina (læknis-, lyfja-, líf-, lífefna-, sál-, erfða- og næringarfræði). Sumt það sem við beinum sjónum okkar að stríðir beinlínis gegn lögum og reglugerðum um neytendavernd, til dæmis órökstuddar fullyrðingar um heilsufarsáhrif á umbúðum matvæla, fæðubótarefna eða á öðrum vörum eða þjónustu með heilsufarslega tengingu. Hópurinn mun veita hér og víðar vandaða og óháða almenningsfræðslu á þessu sviði.

Í augum okkar lækna og háskólamenntaðra heilbrigðisstarfsmanna er næsta augljóst hverjir eru gervivísindamenn og kuklarar og hverjir ekki. Við skulum hafa í huga að í augum sumra kuklara erum við læknar kuklararnir. Það þykir ekki fallegt í heimi hins opna hugarfars að segja að einn hafi rétt fyrir sér og annar ekki. Allar skoðanir eru þar jafn réttháar. Læknir sem leggur út á völl rökræðunnar og gagnrýnir þá óhefðbundnu er fljótt sagður hrokafullur, neikvæður og jafnvel illviljaður. Það þjónar kuklinu vel að þvæla út mörkin og eftir því sem kukl og kuklarar tileinka sér vísindalegra tungutak og blandast inn í vísindalegt umhverfi og jafnvel inn í praktík heilbrigðisstarfsfólks á heilbrigðisstofnunum verður æ erfiðara að greina hvar mörkin liggja. Leikmenn eiga æ erfiðara með að greina muninn. En vísindi og lækningar eru í kjarna sínum ekki vinsældakeppni, lýðræðismál eða smekksatriði. Lífeðlisfræðileg ferli lúta ákveðnum lögmálum sem hafa ekki margar andstæðar skýringar. Það er ekki hægt að hafa mismunandi „skoðun“ á slíku. Það geta ekki allir haft rétt fyrir sér en verst er þó þegar heilbrigðisstarfsfólk hefur hleypt kukli inn í stofnanir sínar, háskólafólk tekur að sér að verja kukl og háskólalært fólk iðkar kukl. Afleiðingar kukls eru fyrst og fremst fólgnar í skemmdum á raunverulegri vísindalegri þekkingu fólks. Það útheimtir mikla orku, tíma og peninga að leiðrétta alls kyns haldvillur sem vaða uppi og það er hrein sóun á mannauði að hundruð ungs fólks eyði bestu árum ævi sinnar með ærnum tilkostnaði í að læra kukl. Jafnvel menntamálaráðuneytið hefur lagt blessun sína yfir skóla í kukli með því að kennslufræðilegi þátturinn stenst einhver viðmið ráðuneytisins en faglegi þátturinn er algjörlega látinn lönd og leið.“

Svanur segir að lokum að ein algengasta viðbáran við gagnrýni á kukl og heilsusvindl sé hvort þetta sé ekki bara allt í lagi ef fólk er ánægt. „Nei, því lyfleysuáhrifin eru skammvinn og það leiðir krafta okkar frá leit að raunverulegum lausnum. Ánægja fólks getur einnig breyst í heilsufarslega martröð þegar í ljós kemur að árangurinn er í rauninni enginn og siðferðislega er þetta einfaldlega ekki verjandi.“


Lækning eða kukl? Yfirlitsmynd um hinar ýmsu „sérgreinar“ hjálækninga í samantekt Svans Sigurbjörnssonar.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica