06. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Óður um himbrimann og aðra fugla - Um Innsævi, ljóðabók Ferdinands Jónssonar



Það er ekki daglegt brauð að heyra af nýjum ljóðabókum á markaði, en þegar ein ný birtist við sjónarrönd frá bókaforlaginu Veröld og höfundurinn reynist vera læknir, kviknar fyrst fyrir alvöru á perunni hjá Læknablaðinu.

Alla jafna eru ljóðabækur knappar, snotrar og mikið í þær lagt. Innsævi slær allt þetta langt út með sín 37 ljóð, bókin er beinlínis fögur hvar sem á hana er litið, og efniviðurinn er lifandi og litríkur, en jafnframt tregafullur. Ferdinand yrkir inn í hefð íslenskra náttúru-skáld, – hann mærir náttúruna og samsamar sig henni, vorið boðar gott og felur í sér væntingar, haustið felur í sér sorg og trega, og veturinn algjöra harðneskju og dauða. Bragar-hátturinn er frjáls en þó meitlaður og bundinn með ljóðstöfum eftir tálguðum línum. Mýktin er alls ráðandi í ljóðmálinu, leikur á sérhljóðum og ósamsettum einföldum orðum. Ljóðheimurinn er uppi á heiðum, Madríd, Þingvellir, Kleifarvatn, Þjórsárbakkar og sjálfur geirfuglinn, alca impennis, sem er „horfinn í sæhúmið“, – „fuglinn sem fórst“.

Það er vísað í aðra texta: apríl harðastur mánaða, núna er ástin nautanna, og mildar líkingar sem minna á málverk: kvíðarökkur, sumartjöld, huldusker, lynginu blæðir bláu og rauðu. Einfaldleikinn er samt alls ráðandi í ytra búnaði en orðin miðla mjög sterkri vitund og stemmningu. Staðsetningin er utan alfaraleiðar, óháð nútímanum og Evrópusambandinu, hruni, aflandskrónum og lifibrauði – það er veðrið og árstíminn sem ræður, eftirsjá, söknuður, á kreiki er stöku fugl, og náttúran ríkir ein.

Innlönd 

utan vega

hulin þoku

lengst inni á heiðinni

í grænum mosa

við vatnaskil

allra átta

vakir

í tæru vatni

tilfinning

um þig

Fram hefur komið að helsta áhugamál skáldsins sé fuglaskoðun og bókin ber þess vitni, fuglar eru í forgrunni í mörgum ljóðum bókarinnar. Maður sér ekki í  anda ljóð um golf eða hlaup eða fótbolta sem myndu ná slíkri dýpt, ekki einu sinni ljóð um bridds gætu miðlað svona heitum tilfinningum. Þessi fókus á fugla gerir ljóðin heiðari og fjaðurmagnaðri en þegar viðfangsefnin eru af efnislegri toga. Fuglar eru sá hluti sköpunarverksins sem er nálægur og sýnilegur mannfólkinu en þó hreint ekki undir herradóm mannsins settur, þeir eru algjörlega á eigin vegum og við horfum alltaf á eftir þeim með aðdáun og allri þeirri óendanlegu frelsisþrá sem í okkur býr.

Vonandi á Ferdinand eftir að gleðja lesendur sína með enn fleiri fuglum og enn fleiri ljóðum á næstum árum þótt ljóst sé að geðlæknirinn muni ekki snúa sér alveg að yrkingum. Það er erfitt að gera upp á milli ljóðanna í bókinni en ég held að þetta sé mitt uppáhalds núna:

Himbrimi

á djúpu

vatni

fjallsins

bláa

fjarlægur

söngur

dimmur

fagur

sumar

nætur

hljóðar

lofar

lífið

góða

snertir

landið

hreina

eina



Þetta vefsvæði byggir á Eplica