03. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Merkileg saga herspítalanna á Íslandi

„Þetta er efni sem hafði safnast upp hjá mér og ég fann ekki stað í þeim bókum og ritgerðum sem ég hef skrifað um hersetuna og dvöl varnarliðsins á Íslandi,“ segir Friðþór Eydal sem um árabil var upplýsingafulltrúi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og hefur rannsakað hersetuna flestum öðrum betur.  


Sjúkrastofa í Helgafellsspítala.

Í óbirtri ritgerð sem Friðþór hefur tekið saman og nefnist Herspítalar Breta og Bandaríkjamanna á Íslandi í síðari heimsstyrjöld rekur hann umfang þessarar starfsemi sem flestum núlifandi Íslendingum er með öllu ókunn og kemur eflaust mörgum á óvart hversu stór hún var í sniðum. Það átti sér skýrar ástæður sem Friðþór gerir glögga grein fyrir.

„Heilsufar hermanna er mikilvægur þáttur í skipulagi og viðbúnaði herliðs svo baráttuþrek og tiltækur liðsafli sé ávallt í hámarki. Heilbrigðisþjónusta hersins líkist því sem almennt tíðkast en þó með tveimur mikilvægum undantekningum þar sem ekki er gert ráð fyrir þjónustu við börn og aldraða en bráðaþjónusta, skyndihjálp flutningar og umönnun sjúkra og særðra af völdum styrjalda og farsótta er mikilvægur hluti starfsins,“ segir Friðþór.


Friðþór Eydal við vatnstanka sem reistir voru fyrir kalt og heitt vatn í hlíðum Helgafells í Mosfellsdal
ofan við stærsta spítalann á hernámsárunum.

„Herflokkar hafa sérþjálfaða sjúkraliða sem veita bráðaþjónustu á vettvangi, hjúkrunarsveitir annast flutning særðra og reka sjúkraskýli skammt að baki víglínunnar. Sérþjálfað læknalið annast greiningu og skyndiaðgerðir til undirbúnings fyrir flutning á stærri sjúkraskýli eða spítala. Á erlendri grund er tekið tillit til fjarlægða og annarra aðstæðna í skipulagi spítalaþjónustu ásamt flutningi illa særðra eða sjúkra til heimalandsins.“

Allt þetta þarf að hafa í huga þegar skoðað er hversu hratt breski herinn og síðar sá bandaríski komu upp fullkominni spítalaþjónustu við herlið sitt hér  á landi og hversu hratt öll ummerki um þessa miklu starfsemi hurfu í stríðslok. Hreyfanleiki er lykilorðið enda er gert ráð fyrir því að víglínur færist til og þjónustan sé þétt að baki hinnar stríðandi fylkingar.

Friðþór kveðst hafa rannsakað talsvert skjalasöfn breska hersins og þess bandaríska í leit sinni að gögnum um herspítalana á Íslandi. „Ég hef fyrst og fremst leitast við að skilgreina kerfið sem unnið var eftir fremur en leita uppi sögur af einstaklingum. Hernaður bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni var af stærðargráðu sem heimsbyggðin hafði aldrei kynnst áður og hernámið á Íslandi var hluti af því.“


George Eisel skytta komst einn af þegar sprengjuflugvél Franks M. Andrews yfirhershöfðingja
Bandaríkjahers í Bretlandi með 15 manns innanborðs fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi í maí 1943.
Hér ræða íslenskir blaðamenn við hann á Helgafellsspítala, þeir eru frá vinstri Ívar Guðmundsson
frá Morgunblaðinu, Hersteinn Pálsson rithöfundur og þýðandi frá Vísi og Jón Þórarinsson tónskáld
frá Ríkisútvarpinu.

Herliðið nam tæpum helmingi þjóðarinnar

Breski herinn steig hér á land þann 10. maí 1940 og tilgangurinn var að hindra að Þjóðverjar kæmu sér upp flug- og flotabækistöðvum í landinu sem ógnað gætu Bretlandseyjum og skipaleiðum á Norður-Atlantshafi. „Bandaríkin voru hlutlaus í styrjöldinni til ársloka 1941 en með samningi Íslands, Bretlands og Bandaríkjanna tók bandarískt herlið við vörnum landsins og leysti breska hernámsliðið af hólmi. Hernámi Breta lauk því formlega 22. apríl 1942 og meginliðstyrkur breska hersins hélt af landi brott en breski flotinn og flugherinn störfuðu áfram í landinu með Bandaríkjaher þar til eftir stríðslok.“

Herafli bandamanna í landinu var alls nærri 50.000 þegar mest var sumarið 1943 og hafði um 80% liðsins aðsetur á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi. Landsmenn voru aðeins 120.000 í upphafi hernámsins og íbúar Reykjavíkur um 40.000. „Þegar komið var fram á sumarið 1943 var ekki lengur talin hætta á innrás Þjóðverja í Ísland og var stór hluti herliðsins þá fluttur til Bretlands til þjálfunar fyrir innrásina á meginland Evrópu.“

Friðþór segir að hernaðaryfirvöld hafi í áætlunum sínum gert ráð fyrir að þurfa fullkomna heilbrigðisþjónustu fyrir allan þennan fjölda hermanna, enda Ísland afskekkt og spítalar ekki fyrir hendi nema fyrir landsmenn sjálfa. „Bandaríkjaher gerði ráð fyrir að forföll vegna veikinda, slysa og hernaðar gætu numið 5% af heraflanum á hverjum tíma og hagaði heilbrigðisþjónustunni í samræmi við það. Viðmið breska hersins voru helmingi lægri, eða 2,5% en þó var þörfin fyrir sjúkrarými strax í upphafi mjög mikil, því á fyrstu vikum hernámsins komu hingað um 17 þúsund hermenn.“


Læknar 92. spítalasveitarinnar gera aðgerð á hermanni í sjúkraskýlinu í Camp Cashman í Ytri-Njarðvík
sumarið 1943.

Bretar þurftu að hafa snör handtök sumarið 1940 svo herlið þeirra gæti tekist á við íslenska veturinn. Tóku þeir ýmsar byggingar í Reykjavík á leigu, meðal annarra Menntaskólann í Reykjavík, Gamla-Garð og Laugarnesspítalann og komu upp sjúkraaðstöðu í þessum byggingum. Friðþór birtir í ritgerð sinni fróðleg bréfaskipti breska sendiherrans, Howards Smith, við yfirboðara sína í London þar sem hann leggur áherslu á mikilvægi góðra samskipta við íslensk yfirvöld svo ekki verði trúnaðarbrestur milli hersins og landsmanna. „Howard sagði málið sérlega viðkvæmt vegna þess að herinn hafði víða fengið inni í skólum um sumarið og ekki kæmi annað til greina en að skila því húsnæði að hausti eins og lofað hefði verið.“

Friðþór segir það lífseigan misskilning varðandi hernámið að Bretar og síðar Bandaríkjamenn hafi farið fram með nokkrum yfirgangi og tekið það sem þeim sýndist til sinna afnota. „Staðreyndin er sú að Bretarnir leigðu allt húsnæði og lóðir sem þeir notuðu í upphafi hernámsins á markaðsverði og gerðu formlega samninga í flestum tilfellum. Verðbólgan sem varð í kjölfar hernámsins var engu lík og peningar streymdu frá hernum til landsmanna. Fólk flykktist af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar og eftirspurn eftir húsnæði margfaldaðist og leiguverð hækkaði. Það hafði ekki áhrif á leigusamningana sem Bretar höfðu gert og því fengu þeir það orð á sig að vera nískir og borga miklu minna en aðrir. Þetta var auðvitað ómaklegt.“


Íbúðarskáli bandarískra hjúkrunarkvenna í Laugarnesi. Húsgögnin eru að mestu gerð úr umbúðakössum.

Herspítalar um allt land

Herspítalarnir risu hratt og víða um land. Samgöngur á landi á þessum tíma voru lélegar svo ekki sé meira sagt, svo herdeildirnar sem sendar voru út á land urðu að vera sjálfum sér nægar um flesta hluti. Því risu spítalar utan Reykjavíkursvæðisins að Reykjum í Hrútafirði, að Hrafnagili í Eyjafirði og á Reyðarfirði og Seyðisfirði. Á Suðurlandi var reistur spítali í Kaldaðarnesi við flugvöllinn sem Bretar byggðu þar og einnig voru settir upp spítalar á Suðurnesjum, þeirra stærstur við Vogastapa.


Herspítalahverfi Breta umhverfis Gamla-Garð. Spítalinn rúmaði 200 sjúklinga og 130 starfsmenn.

Stærstu spítalarnir voru eftir sem áður í Reykjavík og nágrenni og reis mikið spítalahverfi í mynni Mosfellsdals við rætur Helgafells, svo og handan við fellið í landi Álafoss þar sem nú er Reykjalundur. Í Reykjavík voru sem áður sagði þrír spítalar. Þegar mest var voru á vegum herliðsins sjúkrarúm fyrir allt að 3000 hermenn en þessi viðbúnaður reyndist að miklu leyti óþarfur þar sem aldrei kom til innrásar Þjóðverja í Ísland og því varð ekkert úr þeim hernaðarátökum í landinu sem spítalarnir voru undirbúnir fyrir.

 „Bandaríkjamenn gerðu mjög metnaðarfulla áætlun um byggingu herspítala í landinu til að mæta stóráföllum af völdum farsótta og hernaðar. Þegar flest var árið 1942 voru 3277 bandarískir heilbrigðisstarfsmenn á landinu, þar af 234 læknar, 49 tannlæknar, 8 dýralæknar og heilbrigðisfulltrúar og 258 hjúkrunarkonur. Strax í árslok 1943 hafði þeim fækkað í 1163 og í stríðslok voru heilbrigðisstarfsmenn hersins 429.“

Helgafellsspítali var mjög stór á hvaða mælikvarða sem er og varð eins konar landspítali bandaríska herliðsins. Þar voru 1000 legurúm og starfsfólkið var 660 þegar flest var. Hverfið samanstóð af tugum stórra bragga, þar sem voru leguskálar, skurðstofur, heilsugæsla, tannlæknar, íbúðir starfsfólksins og birgðastöðvar. Í dag sjást engin ummerki um spítalann önnur en rústir vatnstanka á hæðinni fyrir ofan spítalasvæðið. Allt á það sér sögulegar skýringar en í stríðslok gerðu íslensk yfirvöld áætlun um að afmá sem flest ummerki hernámsins og lét smám saman fjarlægja alla bragga sem herliðið skildi eftir. „Hér á landi voru reistir um 12.000  braggar fyrir herliðið til íbúðar og umsvifa. Veruleg fækkun varð í herliðinu sumarið 1943 og stóðu þá mörg braggahverfi eftir auð en herinn hafði enga þörf fyrir þau eða tök á að rífa þau nema með miklum tilkostnaði. Samdist svo um að íslenska ríkið keypti vægu verði alla bragga og önnur mannvirki utan Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar og endurseldi landsmönnum til þess að standa straum af kostnaði við umsamdan frágang á landi sem herliðið hafði haft á leigu. Fjölmargir braggar dreifðust þannig víða um land, meðal annars til bænda sem nýttu þá sem útihús og áhaldageymslur sem víða eru enn í fullri notkun. En fyrir vikið standa eiginlega engin upprunaleg braggahverfi eftir sem sögulegar minjar nema hluti hverfisins á Miðsandi í Hvalfirði. Segja má að nánast einu stríðsminjarnar sem eftir standa hafi dagað uppi fyrir trassaskap landeigenda sem fengu greiðslu fyrir að laga sjálfir til eftir herinn.“


Starfslið Breta á Hrafnagilsspítala í Eyjafirði. Á myndinni eru 93 breskir hermenn og hjúkrunarkonur
en Bandaríkjamenn höfðu þar um 350 starfsmenn. (Minjasafnið á Akureyri – Eðvarð Sigurgeirsson)

Þörfin fyrir sjúkrarýmin reyndist minni en áætlað var enda var heilsufar hermanna á Íslandi betra en hernaðaryfirvöld höfðu gert ráð fyrir. „Engir teljandi sóttfaraldrar komu hér upp á stríðsárunum eins og búast mátti við. Slys voru þó alltíð enda umsvif hersins mikil, aðstæður framandi og náttúruöflin óblíð og skammdegið mikið. Mikil umferð ökutækja á lélegum vegum leiddi til tíðra umferðarslysa. Fátítt var að hermenn særðust í orustu en mikill fjöldi skipbrotsmanna var settur á land í Reykjavík. Voru margir illa á sig komnir af meiðslum og hrakningum og fengu aðhlynningu á spítölum hersins.

Kynsjúkdómar fátíðir

Kynsjúkdómar þóttu sérlega fátíðir meðal hermannanna hér á landi og var það talið því að þakka að skipulagt vændi þekktist ekki í landinu og að íslensk heilbrigðisyfirvöld höfðu mun yfirgripsmeiri heimildir til að hefta útbreiðslu slíkra sjúkdóma en gerðist í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Geðheilsa er einn þeirra þátta sem gefa verður ríkan gaum þegar milljónir manna eru skyndilega kvaddir til herþjónustu og stífrar herþjálfunar við framandi aðstæður og langdvalar langt frá sínum nánustu. „Herliðið á Íslandi fór ekki varhluta af geðrænum kvillum en þó var það ekki algengara en annars staðar þrátt fyrir einangrun, skammdegi og leiða sem fylgdi einhæfum lifnaðarháttum. Herstjórnin lagði mikla áherslu á að halda hermönnunum að venjubundnum störfum, stífum æfingum og íþróttaiðkan og skipulagði fjölbreytta afþreyingu til að halda uppi baráttuþreki hinna ungu hermanna.“


Söng- og leikkonan Marlene Dietrich að spjalla við sjúkling á Helgafellsspítala í september 1944. Hún
heimsótti herafla Bandaríkjamanna, hitti íslensku ríkisstjórnina og hélt tónleika.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld nutu að mörgu leyti góðs af hinni öflugu heilbrigðisþjónustu sem herliðið starfrækti. Ágæt samvinna var á milli þessara aðila um sóttvarnir og heilbrigðiseftirlit enda lagði herstjórnin mikla áherslu á slíkt í öllum viðskiptum við innlenda aðila. „Dýralæknar hersins leiðbeindu um eftirlit með matvælaframleiðslu enda keypti herliðið kjöt og mjólk af landsmönnum og var náið samstarf um eftirlit og lækningar búfjársjúkdóma en berklar voru til dæmis nokkuð útbreiddir í íslenskum nautgripum.“

Margir þeirra lækna sem fylgdu hernum voru í hópi færustu sérfræðinga hver á sínu sviði og var eflaust talsverður fengur að komu þeirra hingað til lands fyrir íslenska læknastétt sem einangraðist að miklu leyti frá umheiminum á stríðsárunum. „Margir landsmenn nutu sérfræðiþjónustu breskra og bandarískra lækna og hjúkrunarliðs þó þjónustan hafi fyrst og fremst verið ætluð herliðinu. Nokkur dæmi voru einnig um að hermenn hlytu umönnun íslenskra lækna og að Íslendingar fengju meðferð á herspítölum sem höfðu ýmsar tækninýjungar og nýjustu læknislyf sem landsmenn höfðu ekki, eins og undralyfið pensillín sem þá var einungis notað af hernum. Það væri vissulega fróðlegt að rannsaka þá sögu betur og þá hvaða áhrif spítalarekstur breska og bandaríska hersins á stríðsárunum hefur hugsanlega haft á þróun íslenskrar læknisfræði,“ segir Friðþór Eydal að lokum.

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica