01. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Kollvarpar fyrri kenningum um hlutverk klaustranna - segir Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur

„Ég hef verið gagnrýnd fyrir að nota orðið spítali um þá starfsemi sem greinilega hefur farið fram á klaustrinu á Skriðu í Fljótsdal. En það er alveg ljóst í mínum huga að þarna hefur verið rekin umfangsmikil hjúkrunar- og lækningastofnun, að þeirra tíma hætti að sjálfsögðu. Spítali er því réttasta orðið,” segir dr. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur sem stýrði fornleifauppgreftinum á Skriðuklaustri og hefur nú gefið út bókina Sagan af klaustrinu á Skriðu sem vakið hefur verðskuldaða athygli og er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka.

u02-fig2
Það er hafið yfir allan vafa að á Skriðuklaustri var rekinn umfangsmikill
spítali um ríflega hálfrar aldar skeið, segir Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur.



„Rannsóknirnar á klausturstæðinu og kirkjugarðinum leiða í ljós mjög skýrar vísbendingar um hand- og lyflækningar og við grófum upp nærri 150 beinagrindur fólks sem hefur greinilega dáið úr alvarlegum sjúkdómum,” segir Steinunn og bætir við að fornmeinafræðingarnir sem tóku þátt í greiningu mannabeinasafnsins frá Skriðu séu sammála um að beinasafnið sé einstakt og beri skýr einkenni þess að vera úr kirkjugarði sjúkrastofnunar og vistheimilis. „Svo veikt var fólk ekki alla jafna á venjulegum heimilum þrátt fyrir að það hafi verið uppi á miklum hörmungatímum á miðöldum.”
Bein sjúklinganna í kirkjugarðinum eru til vitnis um neyð þeirra sem leitað hafa ásjár hjá reglubræðrunum. Þarna hefur alvarlega sjúkt fólk safnast saman, örkumla fólk vegna sýkinga, fæðingargalla eða slysa. Fólk með sárasótt, sullaveiki og langvarandi sýkingar eða bara þeir sem skáru sig úr fjöldanum og gátu ef til vill ekki alið önn fyrir sjálfum sér. Þangað hefur væntanlega verið komið með konur í barnsnauð og jafnvel andvana fædd, óskírð börn til greftrunar.

Sagan af klaustrinu á Skriðu, bls. 196

Stunduðu ekki skriftir og grúsk

Það er erfitt að velja hvað skuli ræða þegar efni bókar Steinunnar er undir. Öll er bókin hin fróðlegasta og varpar að mörgu leyti nýju ljósi á hlutverk klaustranna á Íslandi í kaþólskum sið. „Umfjöllun um íslensku klaustrin hefur vissulega mótast af mjög takmörkuðum heimildum en fornleifarannsóknir á öðrum klausturstæðum en á Skriðu hafa takmarkast mjög af því að seinni tíma byggingar voru gjarnan reistar á rústum þeirra eldri og elstu minjar því skemmdar og einfaldlega erfitt að komast að þeim. Klausturstæðið á Skriðu er annars staðar en bæjarstæðið og hefur því varðveist einstaklega vel.“

u02-fig1
Gatið á höfuðkúpunni er eftir sárasótt. Mynd Skriðuklaustursrannsóknir.

Steinunn segir að ýmsir hafi í byrjun efast um að grafið væri á réttum stað í Kirkjutúninu svo sterk hafi trú manna verið á að klaustrið hafi staðið á bæjarstæðinu. „Það var ekki fyrr en nærri þrjú ár voru liðin af uppgrefti sem óvissan var með öllu úr sögunni, þrátt fyrir að líkurnar á því að þarna væri hið forna klausturstæði hefðu aukist jafnt og þétt með hverju árinu sem leið.”
Engan óraði á hinn bóginn fyrir því sem átti eftir að koma úr jörðu á Kirkjutúninu, hvorki þá sem stóðu að rannsóknunum né aðra sem höfðu látið sig þær varða með einum eða öðrum hætti. Í fyrstu miðaði rannsóknin að uppgrefti á minjum um byggingar, kirkju og búsetu reglubræðra. Sérstakt kapp var lagt á að finna leifar um bóklega iðju þeirra, samkvæmt ríkjandi hugmyndum um íslensk klaustur, en iðulega er litið svo á að bókagerð og ritun hvers konar hafi verið mikilvægasti hluti af starfi þeirra. Slík iðja ætti að skilja eftir sig leifar í jörðinni. Fljótlega beindist rannsóknin hins vegar að kirkjugarði klaustursins sem geymdi mikilvægar upplýsingar um heilsufar almennings og aðbúnað við líkn og hjúkrun, sem og daglegt líf á miðöldum. Átti uppgröftur á honum eftir að varpa skýrara ljósi á hlutverk klaustursins en nokkur þorði að vona. Um leið kom í ljós að umsvif þess voru önnur og fjölbreyttari en áður hafði verið talið. Það var fjarri því að reglubræðurnir hefðu setið þar í myrkvuðum kytrum, hoknir við bókaskrif sín. Öðru nær. Ég tel nú að rannsóknin öll veiti innsýn í heim miðalda frá öðru sjónarhorni en ritaðar heimildir hafa gefið tilefni til.

Sagan af klaustrinu á Skriðu, bls. 34-5.


u02-fig3
Svona lítur uppgraftarsvæðið út í dag. Mynd Gunnarsstofnun.


„Það hefur alltaf verið litið svo á að klausturstarf á Íslandi hafi ekki skipt miklu máli, klaustrin hafi verið lítil og munkarnir aðallega fengist við ritstörf og lestur. Það stangast á við hlutverk og tilgang klaustra annars staðar í hinum kaþólska heimi en þeim var fyrst og fremst ætlað að gegna fjölþættri samfélagsþjónustu, sinna sjúkum og fátækum, stunda almannafræðslu, og almennt láta sér annt um þá sem stóðu höllum fæti í samfélaginu. Hvers vegna það hefði átt að vera öðruvísi á Íslandi var mér ráðgáta og rannsóknir okkar á Skriðuklaustri staðfesta þetta fjölþætta hlutverk klaustursins. Ég var reyndar á þessari skoðun áður en uppgröfturinn hófst en það kom mér samt á óvart hversu afgerandi niðurstöðurnar eru.“


Á Íslandi voru stofnuð 9 klaustur í kaþólskum sið og var klaustrið á Skriðu hið síðasta þeirra, stofnað 1493. Það var síðan lagt niður 1552 en síðustu 10 árin fyrir siðaskiptin 1550 voru klaustrin á undanþágu og mjög dregið úr starfseminni svo eiginlegur starfstími klaustursins var um 50 ár. Að sögn Steinunnar eru ritaðar heimildir um Skriðuklaustur nánast engar og því var rennt blint í sjóinn þegar uppgröfturinn hófst árið 2002. 
Þegar frá upphafi var ljóst að ekki var um að ræða rústir hefðbundins miðaldabæjar. Þarna var svefnálma, eldhúsálma með eldhúsi aðskildu frá matsal, vinnuhúsa- og geymsluálma, auk kirkju og kirkjugarðs. Allar álmurnar voru samtengdar og mynduðu eina þyrpingu húsa, líkt og einkennandi er fyrir klausturbyggingar. Heildarstærð samstæðunnar hefur verið meiri að grunnfleti en við mátti búast um byggingar þessa tíma og umfram það sem forkönnunin hafði bent til. Grunnflöturinn var yfir 1500 fermetrar þegar upp var staðið frá greftri nærri áratug síðar, þann 14. ágúst 2011. Það er stór bygging á mælikvarða íslenskra miðalda.

Sagan af klaustrinu á Skriðu, bls. 34.

 

u02-fig4
Sögufélagið gefur út þessa veglegu bók með 150 ljósmyndum, teikningum
og kortum í lit. Á kápunni er mynd af bréfi Sesselju Þorsteinsdóttur frá því
um 1500 sem gefur jörð sína, Skriðu í Fljótsdal, til stofnunar klaustursins þar.

 Yfirbót í lifanda lífi

Til að gera sér grein fyrir hlutverki klaustranna í kaþólskum sið segir Steinunn nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar mikilvægi hreinsunareldsins „Samkvæmt kaþólskum sið ganga allar sálir í gegnum hreinsunareldinn að lokinni jarðvistinni og hversu lengi sálin dvaldist þar fór eftir því hversu syndug hún var eftir jarðvistina. Fólk gat stytt þennan tíma með því gera yfirbót og  leggja kirkjunni eða klaustrunum lið með fégjöfum eða vinnuframlagi og það skýrir hinn mikla fjölda leikmanna sem starfaði við klaustrin og dvaldi þar um lengri eða skemmri tíma. Fátæklingar sóttu í klaustrin eftir skjóli og unnu þar fyrir sér með ýmsum hætti, en hinir efnameiri gáfu eignir eða peninga og nutu þjónustu klaustursins í staðinn. Það má því gera ráð fyrir að þó nokkuð margir vinnufærir fullorðnir hafi eytt hluta ævi sinnar á Skriðuklaustri gegn próventu eða vinnu. Í beinasafninu (260 beinagrindur) er að finna alla aldurshópa samfélagsins, allt frá kornabörnum til gamalmenna. Sjálfsagt hafa margir dvalið í klaustrinu um langan tíma, en aðrir aðeins legið þar banaleguna eða verið gestir eina nótt.”
Samsetning íbúa í klaustrinu hefur þannig verið töluvert ólík því sem þekktist á almennum heimilum. Hefur heimsókn í það vafalaust verið eftirminnileg fyrir alla þá sem þangað komu, sjúkir eða heilbrigðir. Gera má ráð fyrir að hún hafi í senn verið skelfileg og framandi fyrir þá sem lifðu þessa tíma, ekki síður en fyrir okkur nú. Þarna var saman komið fólk sem gat ekki séð sér farborða vegna líkamlegra og andlegra meina sinna. Það skar sig úr. Þetta getur líka verið ein ástæða þess að staðurinn týndist. Hann minnti á vanlíðan, kvalir og dauða, þótt píslardauði kunni fyrrum að hafa verið dáður og upphafinn sem syndaaflausn.

Sagan af klaustrinu á Skriðu, bls. 244.

u02-fig5

Grunnmynd af klaustursvæðinu. Mynd Steinunn Kristjánsdóttir.


„Klaustrin byggðu þannig grundvöll sinn – fjárhagslegan og trúarlegan – á því að stuðla að stórum og smáum yfirbótarverkum og buðu almenningi að kaupa sér aflát fyrir syndir sínar,” segir Steinunn. „Þetta þýddi að því meiri syndir sem menn drýgðu, því meira fengu klaustrin í sína hönd. Kirkjunnar menn voru vændir um græðgi og jafnvel hræsni því þeir urðu ekki bara sálnahirðar og dómarar heldur höfðu þeir með tíð og tíma sölsað undir sig stóran hluta af eignum landsmanna í jörðum og lausafé í krafti yfirbóta. Þá voru þeir sakaðir um að standa ekki við skírlífisheit sitt og fjölmörg dæmi eru um að prestar og munkar hafi átt fylgikonur og börn. Endalok kaþólsks kennivalds voru því óumflýjanleg.“

 

Sárasótt, sullaveiki, berklar …

Allar upplýsingar um banamein og sjúkdóma sem hrjáðu þá sem jarðsettir voru í kirkjugarði Skriðuklausturs eru fengnar með rannsóknum á beinagrindum sem komu upp úr garðinum. „Ekki má samt gleyma þeim sem kunna að hafa dáið áður en sjúkdómurinn náði að setja mark sitt á beinin. Það sést oft ekki á beinunum hvað amaði að fólki sem dó eftir skammvinn veikindi vegna umgangspesta, farsótta eða annarra veikinda sem herja á vefi og líffæri.”

u02-fig6
Gröf nr. 46. Beinasafnið er einstakt og ber þess skýr einkenni að vera
úr kirkjugarði sjúkrastofnunar að sögn Steinunnar.
Mynd Pétur Sörensson


Sjúkdómarnir sem hrjáðu þá sem leituðu á náðir klaustursins og dóu þar drottni sínum eru meðal þeirra skelfilegustu sem þekkjast og hvað mest áhersla hefur verið lögð á að útrýma. Beinasafn klaustursins sýnir að sögn Steinunnar dæmi um flest það sem þjakaði fólk á miðöldum. Sárasótt, sullaveiki, berklar, bólusótt, krabbamein, langvarandi næringarskortur, tannsýkingar, lungnabólga og illvígar pestir sem drógu fólk til dauða unnvörpum þegar farsóttir geisuðu. Margir þjáðust af fleiri en einum þessara sjúkdóma, voru bæði með sárasótt og sullaveiki, alls kyns slit og áverka á beinum sem geta stafað af vansköpun, óhóflegu vinnuálagi eða ofbeldi. Merkast þótti að finna skýr dæmi um sullaveiki en það er að sögn Steinunnar draumur hvers fornmeinafræðings að finna merki um sull. „Ellefu tilfelli sullaveiki fundum við og þótti mörgum nóg um. Sullaveikiblaðran kalkgerist – skurnast – með tímanum í jarðveginum og geymist þannig rétt eins og beinin sjálf. Blöðrurnar voru mismunandi margar í hverri gröf og mældust allt frá 2 cm til 20 cm í þvermál. Það var einnig mismunandi hvar sullaveikiormurinn hafði tekið sér bólfestu  og meðgöngutíminn greinilega mislangur.

Sárasóttartilfelli voru 19 og hafði sóttin náð þriðja og síðasta stigi hjá þeim flestum. Þó verður að hafa í huga að ummerki á beinum koma sjaldnast fram á fyrsta stigi sjúkdómsins. Dæmigerð mein sem sárasótt skilur eftir sig eru hrúður eða ummyndanir, einkum á ennisbeini, leggjabeinum, rifbeinum og bringubeinum – jafnvel göt. Sárasótt er kynsjúkdómur sem berst frá manni til manns, annaðhvort frá móður til ófædds barns eða við kynmök, og er greinilegt að sumir hinna sýktu höfðu fæðst með sjúkdóminn.

u02-fig7
Ummerki í augntóftum eftir skyrbjúg. Mynd Elsa Pacciani.

Að fá berkla var nánast dauðadómur fyrir tilkomu sýklalyfja. Tíu manns í kirkjugarðinum dóu úr berklum. Það kom einnig verulega á óvart þegar dæmi um Pagets-sjúkdóminn fannst á Skriðuklaustri en ekki er vitað með vissu að hann hafi nokkurn tíma fundist á meðal Íslendinga. Sjúkdómurinn stafar af krónískri sýkingu sem leggst á hold og bein. Getur sýkingin orðið svo alvarleg að sjúklingurinn afmyndast í útliti. Ofvöxtur verður í beinum sem bólgna út en þetta veldur miklum kvölum. Má í þessu samhengi nefna að oft hefur vöngum verið velt yfir því hvort Egill Skalla-Grímsson hafi verið með Pagets-sjúkdóminn. Önnur dæmi hérlendis eru ekki til, ekki einu sinni í seinni tíð, og sá sem dó á Skriðuklaustri getur allt eins verið kominn frá útlöndum.”

Hreifst af kaþólskum sið

„Læknismeðferð og lækningakunnátta hefur verið af skornum skammti en þó má finna dæmi um að gert hafi verið að beinbrotum sem hafi síðan gróið og sjúklingurinn lifað lengur og dáið af öðrum orsökum. Meðöl til að lina kvalir voru frumstæð en þó hafa fundist fræ í jarðvegi af erlendum lækningajurtum sem líklega hafa verið ræktaðar í klausturgarðinum í þeim tilgangi. Gestgjafarnir hafa sjálfsagt gert allt sem í þeirra valdi stóð til þess að gera skjólstæðingum sínum lífið bærilegt. Æðsta takmarkið hlýtur samt að hafa verið að ráða bót á hvers konar meinum þótt fyrirbænir hafi oft orðið að duga. Hafa þær ef til vill þótt árangursríkastar þótt lækningar hafi verið reyndar samkvæmt bestu þekkingu þess tíma. Vel má vera að í klaustrinu hafi búið einstaklingar sem ákváðu að helga sig öðrum með umönnun og lækningum. Annars hefði ekkert verið þangað að sækja umfram það sem hægt var að veita heima eða í eigin sóknarkirkju.”

u08
Ummerki um alvarlega ígerð í gómi. Mynd Elin Ahlin.

Steinunn segir að við rannsóknirnar á Skriðuklaustri hafi smám saman runnið upp fyrir henni hversu mikilvægu samfélagshlutverki klaustrin gegndu í kaþólskum sið. „Þarna komu úr jörðu greinilegar leifar alþjóðlegrar sjúkrastofnunar enda er sláandi munur á beinasafni Skriðuklausturs samanborið við önnur varðveitt beinasöfn hérlendis. Það er því í rauninni hafið yfir allan vafa að á Skriðuklaustri var rekinn umfangsmikill spítali um ríflega hálfrar aldar skeið.”
Klaustrin voru, ásamt biskupsstólunum, tvímælalaust öflugustu stofnanir landsins. Þau voru hluti af alþjóðlegu stofnananeti sem byggði á kenningakerfi kaþólsku kirkjunnar og tengdu Ísland við útlönd. Síst ætti að vanmeta starf þeirra hérlendis við samfélagshjálp, heilsuvernd og lækningar á miðöldum þótt mörg þeirra hafi vissulega einbeitt sér að annars konar umbótum líka. Utan þeirra klaustra sem ráku spítala voru að vísu einnig einstaklingar sem sinntu almennum lækningum og fæðingarhjálp. Starf þeirra á sér þó frekar hliðstæðu í starfi heilsugæslulækna eða ljósmæðra á okkar tíð en líknarstarf klaustranna kom ótvírætt í stað spítala eins og við þekkjum nú.

Sagan af klaustrinu á Skriðu, bls. 246-7.

„Eftir siðaskiptin verður hrun í þessari samfélagsþjónustu, ekkert kemur í stað hennar, og allar heimildir sýna að fólki á flakki og vergangi fjölgaði, þjófnaðir stórjukust, aðallega var þó stolið mat, og yfirvöld brugðust við með Stóradómi, refsingar voru hertar og dauðarefsingar teknar upp sem ekki höfðu tíðkast í kaþólskum sið. Myrkustu aldir Íslandssögunnar renna upp í kjölfarið.”

Steinunn segist vera fremur hlutlaus þegar kemur að trúmálum en hún kveðst þó hafa snúist æ meir á sveif með kaþólskunni eftir því sem hún hafi grúskað meira í rústum Skriðuklausturs. „Það er margt við kaþólskan sið sem höfðar til mín.”

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica