12. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Alsæll í mínu ævistarfi - segir Þórður Harðarson

„Ég fæddist í Reykjavík 14. mars 1940, sonur hjónanna Harðar Þórðarsonar og Ingibjargar Oddsdóttur. Kvöldið sem ég fæddist sat faðir minn að bridsspili sem oftar, en brids var eina íþróttin sem höfðaði til hans. Var hringt til hans og tilkynnt að honum væri fæddur sonur. Svo vildi til að hann var nýbúinn að segja 7 grönd, en hærra varð ekki farið og nú varð að taka alla slagina. Það tókst, enda heilsaðist móður og barni vel. En það lýsir föður mínum vel, að aldrei hafði hann orð á þessu sjálfur en móðir mín sagði mér til gamans á fullorðinsaldri.“


u02-fig1
Þórður Harðarson
, einn lykilmanna í þróun íslenskrar læknisfræði á síðustu áratugum tekinn tali.
Hann var prófessor í lyflækningum og yfirlæknir á Landspítala. Þórður lét af störfum fyrir tveimur
árum en sinnir ýmsum verkefnum í þágu heilbrigðis þjóðarinnar, auk hugðarefna sinna sem eru
bókmenntir og sagnfræði.


Þannig lýsir Þórður Harðarson yfirlæknir og prófessor í hjartalækningum komu sinni í þessa veröld í óbirtum minningum sínum. Þórður varð á sínum tíma yngstur yfirlækna á lyflækningadeild Borgarspítalans, 36 ára gamall, eftir framhaldsnám í lyf- og hjartalækningum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann varð síðan yfirlæknir og prófessor við lyflækningadeild Landspítalans árið 1982. Hann lét formlega af störfum fyrir tveimur árum en starfar enn að ýmsum verkefnum fyrir spítalann og landlækni og sinnir hugðarefnum er lúta að bókmenntum og sagnfræði, en þar er hann hafsjór fróðleiks.

„Ég hafði eiginlega mestan áhuga á þessum greinum strax í menntaskóla og var aldrei mikill raungreinamaður. Ég sá fyrir mér ýmsa möguleika eftir stúdentspróf, jafnvel prestskap, en skorti líklega trúarhitann til að fylgja því eftir. Læknisfræðin varð þó ekki fyrir valinu vegna útilokunar á öðrum greinum, heldur vaknaði hjá mér raunverulegur áhugi á þessu fræðum sem rúma viðfangsefni allt frá öreindum til lýðheilsu og sálpælinga.“

Læknir yrði ég aldrei

Hörður Þórðarson var elsti sonur Þórðar Sveinssonar yfirlæknis á Kleppi og Ellenar Sveinsson konu hans. Hörður var sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis  frá 1942 til dauðadags árið  1975. 

„Faðir minn var elstur sjö systkina og bræður hans voru litríkir persónuleikar svo ekki sé meira sagt, en flestar sögur eru sagðar af þeim Úlfari og Gunnlaugi. Ég ólst upp í húsinu að Vesturgötu 45 þar sem foreldrar mínir leigðu íbúð af Ludvig Einarssyni málarameistara. Hann bjó á efri hæðinni ásamt Rósu systur sinni. Þau tóku miklu ástfóstri við mig og ég kallaði þau afa og ömmu. Í bernsku var ég umlukinn ástúð og dekri og taldi mig eiga fimm ömmur að meðtöldum eiginlegum ömmum. Anna móðursystir mín var mér önnur mamma og Flosi (Ólafsson) sonur hennar var stóri bróðir. Önnur móðursystkini og föðursystkini birtust ásamt börnum sínum með háreysti og gleði. Ég las mikið og var löngum stundum eina barnið innan um fullorðið og aldrað fólk. Hugmyndaheimurinn var nítjándu aldar og ömmur mínar miklir sjóðir af kveðskap og arfsögnum. Þetta drakk ég í mig og teldist nörd í dag. Með Ludvig og Rósu sat ég á síðkvöldum og hlýddi á leikritin í útvarpinu og tónlist af hljómplötum. Ludvig átti líklega eitt stærsta hljómplötusafn landsins. Hann var mikill höfðingi og gaf veglegar gjafir, kenndi mér á bíl og efndi til ferðalaga út á land.

Foreldrar mínir gerðu tilraun til að koma mér í kynni við jafnaldra mína þegar ég var fjögurra ára og settu mig á leikskólann Tjarnarborg. Þau fylgdust síðan í laumi með því hvernig ég plumaði mig á leiksvæðinu, sáu að ég stóð skelkaður afsíðis og fylgdist með leikjum barnanna en tók engan þátt. Sjálfur man ég eftir því hvað mér kom spánskt fyrir sjónir þegar hinir strákarnir hlupu fram og aftur án þess að nokkur sjáanlegur tilgangur væri með hlaupunum. Ég var vanur því að heiman að ömmurnar hefðu einhvern tilgang með ferðum sínum um húsið. Ég festi þarna ekkert yndi og foreldrar mínir gáfust upp á þessu vel meinta framtaki.

Næsta tilraun til að koma mér til manns var ári síðar, er ég var settur til náms í Kristínarskóla, hjá Kristínu Ólafsdóttur. Þarna var blandað saman nemendum á ýmsum aldri. Kristínu tókst að berja til bókar jafnt hina slælegustu námsmenn sem forhertustu óþekktarorma. Að berja til bókar er ekki sagt út í hött, því hún var óbangin við líkamlegar refsingar. Ekki þurfti þess þó oft við mig, því ég hafði gaman af lærdómnum og gekk vel í öllum greinum nema einni. Það voru fræðin um manninn, einfalt sambland af líffærafræði og lífeðlisfræði í þunnu bókarhefti. Mér varð óglatt og lá við yfirliði, einkum þegar kennslan fjallaði um hjartað og innviði þess. Kristín hafði skilning á þessu og leyfði mér að dveljast frammi á gangi þegar innyflin voru til umræðu. Eitt taldi ég víst: Læknir yrði ég aldrei.

Ég var fjögur ár í Kristínarskóla og undi mér vel. Þegar ég kom svo í 9 ára bekk í Melaskóla hafði ég lært mestallt námsefni barnaskólans og var í raun nánast verklaus næstu fjögur árin. Þó voru námskröfur á þeim tíma mun harðari en börn mín þurftu að uppfylla 30-40 árum síðar. Þetta hefur leitt mér fyrir sjónir að námið í grunnskólanum er ærið þunnildislegt, hvað varðar hefðbundnar námsgreinar. Ég hef undrast fáfræði margra annars ágætra nemenda minna í læknisfræði, þegar talið hefur borist að sögu lands eða mannkyns, landsháttum á Íslandi, náttúru eða dýralífi.“

Háskólinn var tómur og kaldur

Þórður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1960 og hóf nám í læknisfræði strax þá um haustið.

„Það voru í rauninni gríðarleg viðbrigði að koma í Háskólann úr MR þar sem kennslan var að mörgu leyti alveg framúrskarandi og margir kennaranna hreinir snillingar. Mér þótti afskaplega gaman í menntaskólanum og naut mín þar til fullnustu, ritstýrði Skólablaðinu og eignaðist marga góða vini til lífstíðar.

Ég bjóst því við spennufalli eftir inntaksrík menntaskólaár en ekkert í líkingu við raunveruleikann. Háskólinn var stór, tómur og kaldur, sumir kennararnir líkt og endurvaktir úr forneskju.

Viðmót sumra kennara í læknadeildinni var kuldalegt og ópersónulegt og fyrstu þrjú til fjögur árin byggðist námið að mestu á utanbókarlærdómi sem satt best að segja kom ekki að miklu gagni síðar. Aðalkennarinn fyrsta árið var Jón Steffensen prófessor. Hann kenndi vefja- og líffærafræði og fólst kennsla hans í smásmugulegri yfirheyrslu. Smám saman fór ég þó að hafa meira gaman af Jóni og lærði að meta lævísa kímni hans. Hann var virtur fræðimaður og lét eftir sig ágæt ritverk. Davíð Davíðsson prófessor kenndi lífeðlisfræði og lífefnafræði á öðru og þriðja ári. Davíð var listrænn, músíkalskur, kíminn og orðheppinn, stríðinn, hugmyndaríkur og vel að sér í fræðunum, en óskipulagður, dómharður og dyntóttur. Við áttum reyndar eftir að verða miklir vinir.

Fyrirkomulag námsins í læknadeildinni var grimmilegt að því leyti að ef nemendur stóðust ekki próf að loknu þriðja árinu varð að byrja alveg frá byrjun að nýju eða hverfa frá læknanámi. Margir fóru illa á þessu. Síðasti hluti námsins var mun skemmtilegri, þar sem við dvöldum á ýmsum deildum spítalanna og nutum leiðsagnar sérfræðinga á hverju sviði. Það er þó ólíku saman að jafna við spítalakennslu í dag, þar sem skipulag og klínísk þjálfun er í miklu betra horfi. Við vorum meira og minna áhorfendur að vinnu sérfræðinganna. Þó var það ólíkt skemmtilegra en þurrir fyrirlestrar og yfirheyrsluform kennslunnar fyrstu árin.“

u02-fig2

„Þegar allt er dregið saman þá má segja að snemma beygist krókurinn þar
sem ég hef enn ánægju af því sama og í barnæsku, lestri og grúski af ýmsu tagi.“

Hjartalækningar í Bretlandi og Bandaríkjunum

Að loknu kandídatsári og héraðsskyldu hóf Þórður framhaldsnám við hjartadeild Hammersmith-sjúkrahússins í London í ársbyrjun 1970 undir leiðsögn Johns F. Goodwin og Celiu Oakley. „Þau voru álitin meðal fremstu sérfræðinga Bretlands í hjartalækningum og læknar um allt Bretland sendu þeim sjúklinga með vandráðin sjúkdómseinkenni. Ómskoðanir voru á frumstigi  og enn stuðst að mestu við hefðbundna læknisskoðun við sjúkdómsgreiningu. Sjúklingahópurinn á hjartadeild Hammersmith Hospital var fjölbreyttur og allt annað en tilbreytingarlaus.“

Samhliða starfi á hjartadeild sjúkrahússins lagði Þórður grunn að doktorsverkefni sínu sem fjallaði um slagbilsskeið í hjarta. Doktorsvörnin fór fram í febrúar 1974 og eftir það fór Þórður að leggja drög að frekara rannsóknarstarfi og framhaldsnámi í Bandaríkjunum.

„Það kom ýmislegt til greina í þessu sambandi en niðurstaðan varð sú að ég fékk stöðu aðstoðarlæknis við Baylor College of Medicine við Methodist Hospital í Houston í Texas og við Sólrún konan mín fluttum þangað sumarið 1974. Það var mikill áfangi í mínum huga að komast til Houston en töfraljómi lék á þessum árum um háskólasjúkrahúsið þar, einkum á sviði hjartaskurðlækninga. Þar voru tveir frægustu hjartaskurðlæknar heims, Michael Debakey og nemandi hans, Denton Cooley, en þeir sátu ekki á sátts höfði. Hjartaígræðsluaðgerðir voru þá nýjar af nálinni og gerðust þeir fjandvinir stórvirkir á þeim vettvangi. Þótt hróður lyflækna í Houston væri ekki  sambærilegur við orðstír skurðlæknanna,  þótti mér heillandi tilhugsun að leita nýrra viðhorfa og vitneskju í þessari ungu og auðugu olíuborg.“

Í Houston dvaldi Þórður í eitt ár við læknisstörf og rannsóknir og kynntist því sem efst var á baugi í hjartalækningum í heiminum. „Ég kynntist þarna mörgu úrvalsfólki þótt stórkanónurnar stigju ekki niður af stalli sínum. Mestur hluti starfs míns fór fram á rannsóknastofu í hjartasjúkdómum en ég var oft á ráðgefandi vakt á hjartadeildum. Þarna var þá stærsta hjartagjörgæsludeild í heimi með 56 rúmum og 12 skurðstofum. Debakey fór á milli skurðstofanna og gerði vandasömustu inngripin. Menn óttuðust hann svo að sumum lá við öngviti ef hann yrti á þá. Hann rak menn umsvifalaust vegna minnstu yfirsjóna og hann þoldi alls ekki að honum væri sagt frá fylgikvillum eftir aðgerðir hans, og enn síður dauðsföllum. Fyrir kom að undirmenn hans földu nýlátna sjúklinga í lyftum eða þvottaherbergjum þegar von var á karli.

Dvölin í Houston var lærdómsrík og áhugi minn á að stunda rannsóknir fékk nokkurn byr, en þó langaði mig að komast að á stofnun sem hafði á sér meiri rannsóknabrag. Ég sótti því um starf við lyflækningadeild háskólasjúkrahússins  við University of California í San Diego. Það kom fljótt á daginn að umskiptin voru jákvæð því að verkefnin og aðstaðan sem mér var búin hentaði mér fullkomlega. Þarna var yfirmaður Robert A. O‘'Rourke, sem síðar varð forseti American College of Cardiology, og margir fleiri merkir hjartalæknar sem áttu eftir að geta sér gott orð víða um heim. Þetta var frjór og skemmtilegur hópur, þó ekki ættu allir skap saman eins og gengur. Meðal þeirra rannsókna sem ég stundaði þarna var að finna aðferð til að meta stærð hjartadreps og einnig að greina skemmd í hjartavöðva hjá sjúklingum við lokuskipta- eða kransæðaaðgerðir. Fræðileg uppskera ársins í San Diego var mjög viðunandi. Lærdómsgildi dvalarinnar var ótvírætt og ég naut mikillar hvatningar samstarfsmanna.“

Yfirlæknir á Borgarspítalanum

Þórður segir aldrei neinn efa hafa verið í sínum huga að snúa heim til Íslands að loknu sérnámi. „Ég sá þó ekki neitt sérstakt framundan þegar við Sólrún ákváðum að flytja heim. Ég vissi að yfirlæknisstaða á Borgarspítalanum myndi losna um áramót 1977 en taldi litlar líkur á að ég fengi hana, þar væru eldri og reyndari menn mér líklegri. Ég lét þó slag standa þegar staðan var auglýst og lagði inn umsókn. Mér hafði boðist staða hjartalæknis á Landakoti og leist ágætlega á það, en ég óttaðist faglega einangrun, þunga vaktabyrði og skort á tækifærum til rannsókna. Úlfar Þórðarson föðurbróðir minn hafði um árabil verið trúnaðarlæknir flugmálastjórnar. Hann var farinn að reskjast og bauð mér að taka hlutastarf við læknisskoðun flugliða. Ég aflaði mér viðeigandi bandarískra réttinda og síðan var haldið heim til Íslands eftir nær sjö ára dvöl á erlendri grund.

Þórður var skipaður yfirlæknir við lyflækningadeild Borgarspítalans frá 1. janúar 1977. „Þegar ég mætti til vinnu varð mér ljóst að ég var yngstur sérfræðinganna á deildinni en átti samt að heita yfirmaður þeirra. Sumir þeirra höfðu sótt um stöðuna á móti mér. Þetta blessaðist þó allt saman ágætlega, þótt einn í þeim hópi gæti ekki sætt sig við niðurstöðuna. Ég lét það þó ekki á mig fá. Aðkallandi verkefni snerust um verklag og nýliðun sérfræðinga og unglækna, sum snertu tækjabúnað, önnur húsnæðismál, enn önnur tengdust vísindum og fræðum. Öllu þessu varð að sinna ef deildin átti að standa undir nafni. Samstarfsmenn mínir á þessum árum voru ýmist þegar orðnir eða urðu síðar meðal okkar fremstu sérfræðinga, hver á sínu sviði lyflækninga og of langt mál að telja þá upp.“

Haustið 1981 var staða prófessors í lyflækningum og yfirlæknis lyflækningadeildar Landspítalans auglýst laus til umsóknar. „Það var engan veginn sjálfgefið að ég sækti um þessa stöðu. Mér leið vel í starfi mínu, stefnumálin voru mörg hver í ágætum farvegi, fræðastörf fóru vaxandi, tækjabúnaður efldist, húsakostur fór batnandi og Borgarspítalinn var orðinn aðalbráðasjúkrahús höfuðborgarsvæðisins. Á hinn bóginn var lyflækningadeild Landspítalans í mínum augum úrvalsdeild íslenskrar læknisfræði, hún var stærri og fjölmennari en systurdeildin á Borgarspítalanum, og meðal forystumanna hennar voru nokkrir þekktustu og virtustu læknar landsins. Yfirlæknir hlaut í störfum sínum oft að vera ýmist í sviðsljósi eða undir smásjá heilbrigðisstétta, stjórnvalda og stundum fjölmiðla. Mér óaði nokkuð við þessu en fannst þetta jafnframt spennandi áskorun. Það réði miklu að að áhugi minn á fræðastörfum hafði ekki dvínað á Borgarspítalanum og ég sá fyrir mér aukna möguleika á því sviði á Landspítalanum. Einnig langaði mig að taka aukinn þátt í kennslu og skipulagningu hennar. Ég hafði verið stundakennari og aðjúnkt í læknadeild en það var ólíku saman að jafna við prófessorsstarfið.“


u02-fig3
Kandídatar úr læknadeild vorið 1967. Frá vinstri: Þorvarður Brynjólfsson, Guðmundur Elíasson,
Guðmundur Sigurðsson, Ásgeir Jónsson, Eyþór Stefánsson, Eyjólfur Haraldsson, Guðný Daníelsdóttir,
Hlöður Freyr Bjarnason, Gunnlaugur Geirsson, Kristján Eyjólfsson, Einar Jónmundsson, Magnús
Skúlason, Gunnsteinn Gunnarsson og Þórður Harðarson. Myndin er tekin í Ingólfsapóteki.

Prófessor og yfirlæknir á Landspítala

Þórður var skipaður prófessor í lyflækningum frá 1. apríl 1982. „Svo skemmtilega vill til að það var nákvæmlega 75 árum eftir að afi minn, Þórður Sveinsson, var skipaður yfirlæknir geðveikrahælisins að Kleppi.“

Það væri að sjálfsögðu hægt að setja á langan pistil um feril Þórðar Harðarsonar í embætti prófessors og yfirlæknis og síðar sviðsstjóra á Landspítalanum. Áhrifa hans gætir víða. Hann hefur átt þátt í  þróun nýrra kennsluhátta og vísinda við læknadeild HÍ og á Landspítala. Hann hefur verið í fararbroddi við að innleiða ýmsar nýjungar í lyflæknisfræði, sérstaklega á sérsviði sínu, hjartalækningum. Hann hefur verið þátttakandi, frumkvöðull eða hvatamaður að sumum merkustu vísindarannsóknum á sviði hjartalækninga og forvarna sem gerðar hafa verið hérlendis á undanförnum þremur áratugum. Hann hefur setið í stjórnum rannsókna- og heilbrigðisstofnana og verið stjórnvöldum til ráðgjafar um heilbrigðismál. Hann hefur setið í ritstjórn Læknablaðsins, siðanefnd Læknafélags Íslands og ýmsum matsnefndum á vegum þess. Ýmislegt er ótalið, en látum nægja að segja að Þórður Harðarson hafi verið einn lykilmanna í þróun íslenskrar læknisfræði á undanförnum þremur til fjórum áratugum. Hefði hann valið sér læknisfræði að ævistarfi ef hann stæði frammi fyrir því vali í dag?

„Já, alveg hiklaust. Ég hef verið alsæll í þessu starfi og gæti ekki hugsað mér annað. Hins vegar er ég ekki viss um að ég myndi velja mér hjartalækningar að sérgrein. Ástæðan er sú að mér finnst greinin orðin fulltæknivædd. Ég get ekki hugsað mér þá tilveru að vinna alltaf við tæki og tól. Tími hjartalækninga sem listgreinar eða rökþrautar er líklega liðinn, en ég vil starfa með fólki og hef kynnst alveg ómetanlega áhugaverðu og skemmtilegu fólki í gegnum starfið og þar finnst mér kjarni læknisfræðinnar liggja. Að kynnast sjúklingnum, persónu hans og aðstæðum, og vinna síðan mat og greiningu út frá því. Þeim sérgreinum sem snúast fyrst og fremst um sjúklinginn hefur fækkað og það finnst mér í rauninni miður. Heimilislækningar og öldrunarlækningar eru meðal þeirra greina sem hafa enn nokkuð breiða mannlega skírskotun og byggjast á persónulegum samskiptum við sjúklinginn. Þær gera þó ekki síður faglegar kröfur, því til þess að geta sinnt sjúklingi sínum vel þarf heimilislæknirinn að hafa mjög yfirgripsmikla þekkingu á ýmsum sjúkdómum og skilning á mannlegu eðli. Viðfangsefni í lýðheilsu og stjórnun heilbrigðistofnana hafa höfðað til mín síðustu árin og hugsanlega myndi ég leita á þau mið ef ég ætti allra kosta völ á ný.“

Mannlegi þátturinn

Þórður segist telja að hinn mannlegi þáttur sé á undanhaldi í nútímalæknisfræði.

„Nærtækasta dæmið er ef til vill bráðamóttaka Landspítalans fyrir hjartasjúklinga. Þar er alltof algengt að unglæknar komi með hjartalínurit til sérfræðingsins og spyrji hvort ekki eigi að gera hjartaþræðingu á sjúklingnum. Við nánari athugun kemur svo í ljós að unglæknirinn hefur varla rætt við sjúklinginn og ekki tekið niður ítarlega sögu hans. Hann veit það eitt að sjúklingurinn hefur haft óljósan brjóstverk. Í þessu felst bæði óvirðing við sjúklinginn og misnotkun á þeim úrræðum sem við búum yfir. Í kennslu unglækna legg ég áherslu á að talað sé við sjúklinginn og hlustað á hann. Það er mikilvægast af öllu. Sjúkdómsgreiningin liggur fyrst og fremst í því sem sjúklingurinn segir og saga hans er jafnvel mikilvægari en skoðunin sjálf, þó hún sé nauðsynleg líka.“

Í starfi sínu sem prófessor og kennari hefur Þórður viljað að hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahúss verði skýrara og markvissara. „Þetta hefur sannarlega þróast í rétta átt á undanförnum áratugum og þar hafa margir góðir menn lagst á eitt. Ég hef þó alltaf haft í huga fyrirmyndir frá Bandaríkjunum þar sem víða tíðkast að háskólar eigi spítala. Þótt slíkt eigi kannski ekki að öllu leyti við hér, þá yrði togstreitan sem stundum hefur ríkt milli skóla og sjúkrahúss ef til vill best leyst með því að HÍ eigi og reki Landspítalann eða spítalinn verði ábyrgur fyrir klínískri háskólamenntun heilbrigðisstétta. Þá væri hin hefðbundna spenna milli þessara tveggja stofnana úr sögunni.

Ég vil þó segja að núverandi forstjóri spítalans og framkvæmdastjóri lækninga eru mjög vakandi fyrir akademískum sjónarmiðum og oft á fyrri árum höfðum við háskólamenn meiri ástæðu en nú til gagnrýni. Þó finnst mér að háskólinn ætti að eiga beinni aðkomu að yfirstjórn spítalans. Ég var tvívegis kosinn til setu í háskólaráði, þrívegis í deildarráði læknadeildar og lengst af ferli mínum sat ég fundi stjórnarnefndar ríkisspítala eða framkvæmdastjórnar Landspítalans. Rauði þráðurinn í málflutningi mínum á þessum vettvangi var efling háskólastarfs á Landspítala. Því málefni hefur miðað hægar en ég hefði kosið.“


u02-fig4
„Við hjónin höfum ánægju af ferðalögum og evrópsk menning hefur heillað.“ Þórður ásamt
Sólrúnu Jensdóttur eiginkonu sinni á góðri stund á útimarkaði í Moskvu 1997.

Sparnaður er tvíeggjað sverð

Togstreitan sem Þórður nefnir hefur ávallt snúist mikið um tíma og fjármuni. „Eðli málsins samkvæmt gengur þjónustan á kennsluspítala hægar en ella og það eykur útgjöld. Ýmislegt annað sem kennslan kallar sérstaklega á, kostar peninga. Spítalinn tekur þannig á sig mikinn kostnað beint og óbeint vegna kennslunnar og það ber að virða, en ítrustu sparnaðarsjónarmið við reksturinn stangast stundum á við bestu sjónarmið í þjálfun og kennslu læknanema og unglækna og stundum er háskólinn gagnrýndur fyrir að leggja of lítið af mörkum. Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga núna þegar spítalanum er gert að skera niður og spara á öllum póstum. Það getur reynst tvíeggjað sverð. Rannsóknarhlutverki háskólasjúkrahúss sem standa á undir nafni má heldur ekki gleyma, en fjárveitingar spítalans fljóta líka að nokkru til þessa þáttar.“

Þórður hefur stýrt eða átt þátt í fjölmörgum rannsóknarverkefnum á sviði hjartalækninga. „Það væri of langt mál að telja þær allar upp, en þó vil ég til gamans nefna rannsókn byggða á hinum stóra gagnagrunni Hjartaverndar þar sem rannsakað var samband menntunar við heilsufar og dánarlíkur manna. Maríanna Garðarsdóttir og Kristján Guðmundsson unglæknar, ásamt nokkrum Hjartaverndarmönnum, unnu að þessari rannsókn með mér. Rannsóknin sýndi fram á að umrætt samband var mjög sterkt hérlendis og voru þeir sem best voru menntaðir heilsubetri og lifðu lengur að jafnaði en þeir sem minnsta menntun höfðu. Einnig mætti nefna rannsóknir á ofþykktarsjúkdómi í hjarta, meðferð háþrýstings og fleira.“

Þórður segir að á íslensku vísindasviði beri rannsóknir í erfðafræði hæst. „Þar standa fremst tímamótarannsóknir á vegum Íslenskrar erfðagreiningar og Hjartaverndar, auk fleiri aðila. Við búum yfir miklum möguleikum til frekari rannsókna og vísindaafreka á þessu sviði, þar sem ómetanlegar upplýsingar felast í þeim gagnagrunnum sem til eru og verða til í landinu. Þar tel ég til dæmis að nánara samstarf vísindamanna Hjartaverndar og Íslenskrar erfðagreiningar gæti skapað rannsóknarfæri sem ekki eru á hverju strái í öðrum löndum. Þar reynir kannski fyrst og fremst á samstarfsvilja allra þeirra sem á taumum halda.“

Aftur til upphafsins

Eftir hin formlegu starfslok hefur Þórður snúið sér að rækt áhugamála sinna sem eru fjölbreytt. „Við hjónin höfum ánægju af ferðalögum og evrópsk menning hefur heillað. Rætur hennar höfum við skynjað í Mið-Austurlöndum, Grikklandi, Sikiley og Býsans. Óperur Wagners, mörg leikrita Shakespeares, myndlist miðalda og endurreisnar eru meðal þeirra menningarþátta sem hafa haft aðdráttarafl á fullorðinsárum.

Þá hef ég lagt stund á söfnum gamalla Íslandskorta og ferðabóka útlendinga um Ísland og á orðið allgott safn slíkra, þó ekki geri ég kröfu til að vera talinn í hópi fullgildra safnara. Síðustu árin hefur mikil orka og tími farið í spænsku- og frönskunám sem ég hef stundað að mestu á eigin spýtur, þótt ég hafi sótt ýmis námskeið. Þegar allt er dregið saman má segja að snemma beygist krókurinn, þar sem ég hef enn ánægju af því sama og í barnæsku, lestri og grúski af ýmsu tagi. Við þá iðju kann ég best við mig.“




Þetta vefsvæði byggir á Eplica