10. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Frá siðanefnd LÍ

Árið 2011, mánudaginn 26. september, kom siðanefnd Læknafélags Íslands saman á skrifstofu formanns í Dómhúsinu við Lækjartorg í Reykjavík. Nefndina skipa Allan V. Magnússon, formaður, Hulda Hjartardóttir læknir og Stefán B. Matthíasson læknir.

Fyrir var tekið að leysa úr erindi Magnúsar Eric Kolbeinssonar sem með úrskurði nefndarinnar frá 9. júní sl. var áminntur fyrir brot á siðareglum lækna (Codex ethicus) og af því tilefni kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Í úrskurði siðanefndar Læknafélags Íslands frá 9. júní sl. var leyst úr þeirri kvörtun læknisins Skúla Bjarnasonar að Magnús Eric Kolbeinsson hefði haft um hann ummæli sem fælu í sér brot á siðareglum lækna. Niðurstaða nefndarinnar var að ósannað væri að Magnús hefði viðhaft ummæli þessi.

Hins vegar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Magnús hefði gerst brotlegur við 13. og 22. gr. siðareglna lækna í málsvörn sinni vegna kvörtunar þeirrar sem til meðferðar var fyrir nefndinni.

Við meðferð málsins var þess ekki gætt að gefa Magnúsi kost á að andmæla, gera athugasemdir og bera af sér sakir vegna þessara atriða og er það slíkur megingalli á meðferð málsins fyrir siðanefndinni að óhjákvæmilegt er að fella úrskurðinn úr gildi hvað þennan þátt varðar og fella áminningu nefndarinnar niður.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Úrskurður siðanefndar Læknafélags Íslands frá 9. júní sl. þar sem Magnús Eric Kolbeinsson læknir var áminntur fyrir brot á 13. og 22. gr. siðareglna lækna er felldur úr gildi. Áminning á hendur Magnúsi Kolbeinssyni er felld niður.

 

Allan V. Magnússon
Hulda Hjartardóttir
Stefán B. Matthíasson



Þetta vefsvæði byggir á Eplica