marsblaðið
03. tbl. 111. árg. 2025
Ritstjórnargreinar
Litíum eykur jafnvægi og lífsvilja en meðferðin krefst eftirlits. Engilbert Sigurðsson
Erfitt hefur reynst að skilja til hlítar áhrif litíums á starfsemi nýrna og samspil þess við aðra áhættuþætti vegna þess hve hægfara og tengd aldri og algengum kvillum eins og sykursýki og háþrýstingi hnignun á nýrnastarfsemi iðulega er.
Að lifa með sykursýki af gerð 1. Kolbeinn Guðmundsson
Sykursýki af gerð 1 var dauðadómur fram til 1922 og getur verið það enn þann dag í dag hjá fátækari og minna þróuðum löndum. Framfarirnar hafa verið stórkostlegar, sérlega síðustu áratugi og eru lífslíkur þessara barna nánast á pari við önnur börn í okkar heimshluta.
Fræðigreinar
Aðgerðir vegna taugainnkirtlaæxla í efri hluta meltingarvegar á Landspítala
Taugainnkirtlaæxli eru sjaldgæf æxli upprunnin frá taugainnkirtlavef. Þau geta átt uppruna sinn frá ýmsum líffærum, en eru algengust í lungum og meltingarvegi. Æxlin eru ólík eftir því frá hvaða líffæri þau eiga upptök sín og hversu vel þroskuð þau eru. Taugainnkirtlaæxli geta framleitt hormón eða verið óvirk.
Batnandi meðferðarárangur barna og unglinga með sykursýki af gerð 1 á Íslandi árin 2008-2022
Sykursýki af gerð 1 einkennist af eyðingu insúlín-framleiðandi betafrumna sem veldur hækkuðum blóðsykri og fylgikvillum sem unnt er að seinka með insúlínmeðferð sem heldur blóðsykri því sem næst lífeðlisfræðilegum gildum. Markmið rannsóknarinnar er að gera grein fyrir meðferðarárangri hérlendis síðastliðin 14 ár auk þess að rannsaka áhrif hálfsjálfvirkrar insúlíndælu.
Heilaslag og fyrirferð á hjartalokum - Sjúkratilfelli
43 ára kona leitaði á bráðamóttöku vegna tveggja daga sögu um þvoglumæli. Taltruflunin hófst skyndilega en hún neitaði öðrum brottfallseinkennum við sögutöku. Hún hafði fyrri sögu um flogaveiki frá barnsaldri, fosfólípíðmótefnaheilkenni (antiphospholipid syndrome) og var nýlega greind með rauða úlfa (systemic lupus erythematosus). Við skoðun var áberandi þvoglumælgi en engin önnur brottfallseinkenni voru til staðar.