03. tbl. 94. árg. 2008
Fræðigrein
Sveiflur í atvinnuleysi og örorku á Íslandi 1992-2006
Fluctuations in unemployment and disability in Iceland 1992-2006
Ágrip
Tilgangur: Að kanna og skýra áhrif atvinnuleysis á fjölda öryrkja á Íslandi með því að skoða breytingar á fjölda öryrkja og umfangi atvinnuleysis ár frá ári á tímabilinu frá 1992 til 2006.
Efniviður og aðferðir: Notaðar voru upplýsingar um kyn og búsetu þeirra sem metnir voru í fyrsta sinn til örorku vegna lífeyristrygginga á Íslandi ár hvert á tímabilinu 1992 til 2006, auk upplýsinga um þróun og umfang atvinnuleysis á tímabilinu.
Niðurstöður: Tvær stórar sveiflur urðu á rannsóknartímabilinu með verulega auknum fjölda nýrra öryrkja árin 1993 til 1995 og frá árinu 2003. Báðar þessar sveiflur verða samhliða verulegri aukningu atvinnuleysis. Örorka hefur síðan hjaðnað í kjölfar þessara uppsveiflna, þó ekki sé það í sama styrk og hjöðnun atvinnuleysis. Í seinni sveiflunni kom fjölgun öryrkja ári síðar en aukning atvinnuleysis, auk þess sem fjölgun öryrkja varð meiri. Sambandið heldur á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni í heild, en fráviks gætir á Suðurnesjum, Suðurlandi og Norðurlandi vestra, þar sem nýskráningum öryrkja fækkaði minna en annars staðar í kjölfar minnkandi atvinnuleysis.
Ályktun: Nýskráning öryrkja ræðst af heilsufari umsækjenda, en sveiflur í tíma tengjast einnig umhverfisáhrifum á vinnumarkaði, einkum atvinnuleysi. Skipan velferðarmála, einkum bóta- og endurhæfingarkerfa, sem og umfang og áhrif virkniaukandi aðgerða á vinnumarkaði hafa einnig áhrif á fjölda örorkulífeyrisþega í landinu. Nýr örorkumatsstaðall gæti hafa haft einhver áhrif á framvinduna á seinni hluta tímabilsins og aukin sókn fólks með geðræna kvilla inn í örorkulífeyriskerfið virðist hafa haft talsverð áhrif á fjölgun örorkulífeyrisþega.
Inngangur
Þekkt er að örorka tengist atvinnuleysi (1-4). Í könnun á högum þeirra sem urðu öryrkjar á Íslandi árið 1997 reyndust 45% þátttakenda einhvern tíma hafa verið atvinnulausir, þar af 35% á undanförnum fimm árum (1). Í Svíþjóð hefur vaxandi örorka einnig verið tengd auknu atvinnuleysi og umtalsverður hluti öryrkja hefur verið atvinnulaus áður en sótt er um örorkubætur (2, 3). Í rannsókn þar sem skoðaðar voru breytingar á nýgengi örorku og atvinnuleysisstigs hér á landi ár frá ári á tímabilinu 1992 til 2003 var sýnt fram á sterkt tölfræðilegt samband milli þróunar atvinnuleysis og breytinga á nýgengi örorku og leiddar líkur að því að um orsakasamband gæti verið að ræða (4). Á síðasta árinu sem rannsóknin náði til, árinu 2003, varð mikil aukning bæði á nýgengi örorku og atvinnuleysi hjá báðum kynjum. Í kjölfarið hefur atvinnuleysi farið minnkandi (5). Ef atvinnuleysisstig er áhrifaþáttur fyrir nýgengi örorku má gera ráð fyrir að nýgengi örorku hafi einnig minnkað. Í þessari rannsókn er skoðað hvort svo er og einnig eru könnuð tengsl nýgengis örorku og atvinnuleysisstigs eftir búsetu. Markmiðið er að skýra betur samband atvinnuleysis og fjölda nýskráðra öryrkja.
Efniviður og aðferðir
Unnar voru úr gögnum Tryggingastofnunar ríkisins upplýsingar um kyn og búsetu þeirra sem metnir voru í fyrsta sinn til örorku vegna lífeyristrygginga á Íslandi ár hvert á tímabilinu 1992 til 2006. Aflað var upplýsinga frá Hagstofu Íslands um umfang skráðs atvinnuleysis á Íslandi á árunum 1992 til 2006 (5). Við tölfræðilega úrvinnslu var reiknaður fylgnistuðull Pearsons (6). Í þeim gögnum sem unnið var með voru hvorki nöfn né kennitölur viðkomandi einstaklinga. Rannsóknin var tilkynnt til Persónuverndar (tilkynning nr. S3567) og Vísindasiðanefnd veitti leyfi fyrir framkvæmd hennar (VSN 07-108-afg).
Örorka vegna lífeyristrygginga er metin á grundvelli laga um almannatryggingar (7). Hærra stig örorku (að minnsta kosti 75% örorka) er metið þeim sem eru á aldrinum 16 til 66 ára og hafa verulega og langvarandi skerðingu á starfsgetu, en lægra örorkustigið (örorka að minnsta kosti 50% en lægri en 75%) er metið þeim sem hafa minna skerta starfsgetu eða verða fyrir umtalsverðum aukakostnaði vegna örorku sinnar. Fyrir 1. september 1999 var hærra örorkustigið metið á grundvelli læknisfræðilegra, fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna (8), en eftir það einungis á læknisfræðilegum forsendum, að jafnaði samkvæmt örorkumatsstaðli (9-12).
Niðurstöður
Mynd 1: Tengsl fjölda nýskráðra öryrkja* og fjölda atvinnulausra á Íslandi frá 1992 til 2006, skipt eftir kyni.
* Bæði örorkustigin (örorkulífeyrir og örorkustyrkur) samanlögð
Mynd 1 sýnir árlegan fjölda nýskráðra öryrkja og skráða atvinnulausa á Íslandi á tímabilinu frá 1992 til 2006. Hjá konum fjölgaði nýskráðum öryrkjum verulega samhliða mikilli aukningu atvinnuleysis á árunum 1993-95 og hvort tveggja lækkaði síðan næstu fjögur árin. Atvinnulausum fækkaði þó sýnu meira. Nýskráningum öryrkja úr hópi kvenna fækkaði þannig ekki eins mikið og búast hefði mátt við 1999 til 2002, ef atvinnuleysi væri meginhreyfiafl nýskráninga öryrkja. Atvinnuleysi jókst síðan aftur árin 2002 og 2003 og nýskráning öryrkja jókst mikið í kjölfarið, en þó einu ári síðar, eða árin 2003 til 2005. Atvinnuleysi dvínaði talsvert á ný 2005 og 2006 og nýskráðum öryrkjum tók að fækka í kjölfarið ári síðar, eða á árinu 2006. Hjá körlum er sambandið svipað en þar fóru nýskráningarnar ekki jafnmikið upp með atvinnuleysissveiflunni 1993 til 1995. Líkt og hjá konum fækkaði nýskráðum öryrkjum ekki í hlutfalli við fækkun atvinnulausra á árunum 1998-2001. Atvinnulausum fjölgaði síðan mikið á árunum 2002 og 2003 og nýskráðum öryrkjum í kjölfarið, á árunum 2003 og 2004 og fækkaði svo á ný árin 2005 og 2006 í kjölfar mikillar fækkunar atvinnulausra 2004 til 2006. Pearson fylgni fyrir allt tímabilið reiknast 0,36 fyrir karla og 0,12 fyrir konur. Þegar fylgni er reiknuð fyrir hvora atvinnuleysissveifluna fyrir sig reynist fylgni á tímabilinu 1992 til 1999 vera 0,72 fyrir karla og 0,80 fyrir konur, en á tímabilinu 2000 til 2006 vera 0,52 fyrir karla og 0,55 fyrir konur. Hins vegar er þokkaleg fylgni milli hlutfallsbreytinga ár frá ári á atvinnuleysi og nýskráningu örorku á tímabilinu öllu, eða 0,43 fyrir karla og 0,60 fyrir konur.
Mynd 2: Tengsl fjölda nýskráðra öryrkja* og fjölda atvinnulausra á Íslandi frá 1992 til 2006 á höfuðborgarsvæðinu** og utan þess.
* Bæði örorkustigin (örorkulífeyrir og örorkustyrkur) samanlögð
** Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Bessastaðahreppur, Garðabær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Kjalarneshreppur og Kjósarhreppur
Mynd 2 sýnir fjölda nýskráðra öryrkja og fjölda atvinnulausra á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni á árunum 2002 til 2006, þ.e. á þessu síðara tímabili aukins atvinnuleysis á rannsóknartímabilinu. Þar sést að nýskráðum öryrkjum fjölgaði almennt í kjölfar aukins atvinnuleysis bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni og fækkaði síðan í kjölfar dvínandi atvinnuleysis. Samband er á milli sveiflanna á báðum breytum, með því sniði að atvinnuleysið jókst almennt árið á undan og fjölgun nýskráðra öryrkja kom í kjölfarið og stóð oft áfram í eitt ár eftir að úr atvinnuleysinu dró. Tengsl hreyfinganna á þessum breytum halda sér að mestu þegar litið er á þessi tvö meginsvæði á Íslandi, höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina í heild, fyrir bæði kynin.
Mynd 3 sýnir að við nánari skoðun á því hvernig þessu var varið á einstökum svæðum á landsbyggðinni koma í ljós frávik frá meginsambandinu á landinu í heild á þremur svæðum landsbyggðarinnar. Sambandið heldur vel á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi eystra og Austurlandi, fyrir konur jafnt sem karla. Á Suðurnesjum, Norðurlandi vestra og Suðurlandi er helsta frávikið, en þar hélst fjöldi nýskráðra öryrkja áfram hár eftir að atvinnuleysi dvínaði, hjá báðum kynjum.
Mynd 3: Tengsl fjölda nýskráðra öryrkja* og fjölda atvinnulausra á mismunandi svæðum á landsbyggðinni frá 1992 til 2006.
* Bæði örorkustigin (örorkulífeyrir og örorkustyrkur) samanlögð
Umræða
Mikilvægt er að hafa í huga eðli sambandsins milli breytanna sem hér eru til skoðunar, atvinnuleysis og örorku. Augljóst er að ekki verða allir atvinnulausir öryrkjar. Flestir þeirra sem eru nýskráðir öryrkjar á hverjum tíma eru það vegna veikinda eða fötlunar, vegna líkamlegra eða andlegra hamlana ýmiss konar, sem skerða starfsgetu með einum eða öðrum hætti. Sjúkdómsgreiningar öryrkja endurspegla helstu orsakirnar með skýrustum hætti (9). Samband fjölda nýskráðra öryrkja við breytilegt atvinnuleysisstig sýnir einkum jaðaráhrif. Þau geta verið með þeim hætti að hærra atvinnuleysisstig, með minna svigrúmi á vinnumarkaði, geti þrengt að stöðu þeirra á vinnumarkaði sem búa við einhverjar hamlanir fyrir og leiði frekar til atvinnuleysis í þeirra hópi. Aðgengi slíkra einstaklinga að nýjum störfum er sömuleiðis þrengra þegar atvinnuleysisstigið er hærra. Auknar kröfur og harðari samkeppni á vinnumarkaði geta almennt haft svipuð áhrif, sem frekar þrengja að fólki sem stendur höllum fæti á vinnumarkaðinum, vegna veikinda eða hamlana (2, 4, 13-17).
Þá er sá möguleiki fyrir hendi að einstaklingar sem lenda í atvinnuleysi bíði heilsufarslegan skaða af, sem svo leiði þá inn í örorkulífeyriskerfið (2, 15-19). Atvinnuleysi getur meðal annars leitt til heilsubrests með því að stuðla að óhollum lífsháttum, með aukinni neyslu áfengis, tóbaks og fitu og hreyfingarleysi. Atvinnuleysi getur valdið kvíða og þunglyndi og það, ásamt lakari fjárhag af þess völdum, getur orðið til þess að draga úr að fólk nýti sér heilbrigðisþjónustu. Atvinnuleysi getur einnig skaðað félagslegt stuðningsnet fólks með því að rjúfa tengsl við starfsfélaga og sundra fjölskyldum (16, 17). Atvinnuleysi eykur efnahagslegan ójöfnuð í þjóðfélaginu og margt bendir til þess að heilsuleysi og dánartíðni aukist með auknum ójöfnuði (20). Hér eru sálfélagslegar ástæður líklega engu síður mikilvægar en efnislegar og félagslegar aðstæður (21, 22).
Það skiptir einnig máli í þessu sambandi hvaða aðrir valkostir eru í framfærslu innan velferðarkerfisins, svo sem á atvinnuleysisbótum, snemmteknum ellilífeyri eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Vísbendingar eru um að hvatar hafi verið í velferðarkerfinu á síðasta áratug sem hafi beint fólki frekar að örorkulífeyriskerfinu en öðrum framfærsluvalkostum, með því að tekjuöflunarmöguleikar hafa verið betri í örorkulífeyriskerfinu en í þeim öðrum þáttum velferðarkerfisins sem til greina hafa komið (23, 24).
Á heildina litið voru tvær stórar sveiflur með auknum fjölda nýrra öryrkja á rannsóknartímabilinu og báðar tengjast umtalsverðri aukningu atvinnuleysis. Tengslin eru þó ekki alveg bein og milliliðalaus. Í fyrri grein höfunda var Pearson fylgni milli atvinnuleysis og nýskráningar öryrkja 0,73 fyrir karla og 0,58 fyrir konur (4). Þegar sama fylgni er reiknuð nú fyrir allt tímabilið til 2006 minnkar hún umtalsvert eða í 0,36 fyrir karla og 0,12 fyrir konur. Meginástæður fyrir því eru að á seinni sveiflunni, frá um 2000, breytist sambandið og árstöf verður meira afgerandi í aukningu nýskráningar öryrkja, auk þess sem stig nýgengisins er hærra en var áður, miðað við stig atvinnuleysis. Þetta rýrir fylgnina fyrir heildartímabilið. Eins og sjá má af mynd 1 er þó ljóst að tengsl eru áfram umtalsverð milli þessara breyta. Það sýnir sig enda þegar fylgni er reiknuð fyrir hvora sveifluna fyrir sig. Þá er fylgni á tímabilinu 1992 til 1999 0,72 fyrir karla og 0,80 fyrir konur. Á seinna tímabilinu, 2000 til 2006, er fylgni milli atvinnuleysis og nýgengis örorkulífeyrisþega 0,52 fyrir karla og 0,55 fyrir konur. Tengslin eru sem sagt veikari á seinni sveiflunni en þó umtalsverð. Fylgnin er mjög viðkvæm fyrir því hvaða tímabil er tekið. Hins vegar er þokkaleg fylgni milli hlutfallsbreytinga á atvinnuleysi og fjölda nýskráðra öryrkja á tímabilinu öllu, eða 0,43 fyrir karla og 0,60 fyrir konur. Það undirstrikar að sveiflurnar eru lykilatriði, þó stigin sem hvor breytanna nær, sem og fasinn sem þær fylgja, taki nokkrum breytingum á tímabilinu.
Það sem þarf að skýra í sambandinu eru í fyrsta lagi hin almennu tengsl sem fram koma. Þau má skýra með tilvísun í takmarkaðri tækifæri fólks með hamlanir hvers konar samhliða auknu atvinnuleysi og jafnvel að meiri líkur geti verið á starfsmissi hjá slíku fólki þegar þrengir að á vinnumarkaði. Rétt er þó að hafa í huga við túlkun á því sambandi sem gögnin sýna að hér er um að ræða aðskilin gagnasett, en ekki sömu einstaklinga sem eru ýmist atvinnulausir eða á örorku. Það er aðferðafræðilegur annmarki á svona fylgnirannsóknum sem gerir að verkum að varlega verður að fara í að túlka fylgni eða tengsl breyta sem orsakasamband.
Í öðru lagi þarf að skýra hvers vegna sambandið er sterkara í uppsveiflunni í atvinnuleysinu en niðursveiflunni, sem og hvers vegna algengara varð á seinni hluta tímabilsins að um árs töf yrði á aukningu nýskráningar öryrkja í kjölfar aukins atvinnuleysis. Í þessu sambandi þarf að huga að mikilvægi þess að nýr örorkumatsstaðall var tekinn í notkun seinni hluta árs 1999 (10, 11). Frá og með árinu 2000 er hærra örorkustiginu nær eingöngu úthlutað á grundvelli hans. Fjöldi nýskráðra öryrkja jókst þó ekki að marki fyrr en frá og með árinu 2003 hjá báðum kynjum. Ekki var þannig um beina aukningu á nýskráningum öryrkja að ræða fyrstu þrjú árin sem nýi örorkumatsstaðallinn var notaður. Hins vegar má spyrja hvort nýi staðallinn hafi orðið til þess að aftra því að nýskráning öryrkja færi neðar en varð samhliða minnkun atvinnuleysis á tímabilinu 1998 til 2002. Nýskráning öryrkja á þeim tíma virðist þó ekki vera markvert minni en var fyrir upphaflega aukningu atvinnuleysis frá 1992. Ekki er hægt að útiloka með öllu einhver slík áhrif nýja örorkumatsstaðalsins í þessa veru, en þau virðast varla geta verið mikil.
Á hinn bóginn má spyrja hvort nýi örorkumatsstaðallinn gæti hafa átt þátt í því að gera mögulega meiri aukningu á fjölda nýrra öryrkja samhliða auknu atvinnuleysi, eins og varð frá og með 2002. Nýskráning öryrkja fór þá í hærri hæðir en almennt hafði verið í fyrri atvinnuleysissveiflunni. Þetta er ekki hægt að útiloka. En sömuleiðis gæti nýi staðallinn átt þátt í því að um árs töf varð algengari í nýskráningum öryrkja í kjölfar aukins atvinnuleysis. Ef nýi örorkumatsstaðallinn gerði meiri aukningu á fjölda nýrra öryrkja mögulega, þá gæti einnig verið að hann hafi tengst því að lengri tíma hafi tekið fyrir fólk með hamlanir að fá rétt til örorkubóta.
Enn annar þáttur gæti hér skipt máli. Þegar sjúkdómsgreiningar nýrra öryrkja á tímabilinu 2002 til 2006 eru kannaðar kemur í ljós að þar er um að ræða verulega aukinn hlut fólks með geðræna kvilla og andlegar hamlanir miðað við það sem áður hafði verið (25). Spurning er þá hvort nýi örorkumatsstaðallinn hafi gert það auðveldara fyrir fólk í slíkum aðstæðum að fá örorkumat eða á hinn bóginn hvort auknar kröfur og samkeppni á vinnumarkaði hafi sérstaklega þrengt að fólki í þessum hópi, umfram það sem áður hafi verið. Reynslan af fjölgun öryrkja á Vesturlöndum eftir 1980 var almennt sú að fólk með geðræna kvilla var vaxandi hluti hinna nýskráðu öryrkja (24, 26). Var það gjarnan tengt viðhorfsbreytingum, auknum skilningi á eðli þessara sjúkdóma, bættum meðferðarúrræðum og réttindabaráttu aðstandenda og frjálsra félagasamtaka. Slíkra áhrifa hefur gætt á Íslandi á tímabilinu frá aldamótunum síðustu.
Líklegast er að allir ofangreindir þættir hafi gegnt einhverju hlutverki í þeirri framvindu á nýskráningu öryrkja sem varð á Íslandi á síðustu 10 til 15 árum. Þar er um að ræða samspil nokkurra skýringarþátta frekar en að einhver einn skýri allt í þróuninni. Aukið atvinnuleysi virðist hafa nokkur áhrif á heildarfjölda öryrkja, með því að auka líkur á að fleiri leiti inn í örorkulífeyriskerfið, bæði vegna þrengri kosta á vinnumarkaði fyrir fólk sem býr við einhverjar líkamlegar eða andlegar hamlanir og vegna neikvæðra sjálfstæðra áhrifa atvinnuleysis á heilsufar.
Það svæðisbundna frávik frá almenna sambandinu sem fannst á landinu öllu og kom fram í minni fækkun öryrkja samhliða minnkandi atvinnuleysi 2004-2006 gæti skýrst af ólíkum starfsháttum starfsfólks í heilbrigðisþjónustu og stjórnsýslu á viðkomandi stöðum. Ekki virðast augljós bein tengsl þessa fráviks, sem þó er ekki mikið, við mismunandi búferlaflutningareynslu eða aðra augljósa lýðfræðilega þætti.
Það samspil atvinnuleysis og heilsufars sem hér hefur verið lýst kallar á umbætur í íslenska velferðarkerfinu, með samþættingu heilsugæslu, starfsendurhæfingar og vinnumarkaðsúrræða, auk betri hvatavirkni bótakerfisins. Slíkar umbætur eru mikilvægar til þess að draga úr heilsubresti af völdum atvinnuleysis og til að bæta stöðu fólks sem stendur höllum fæti á vinnumarkaði. Auka þyrfti áherslu á heilsueflingu á vinnustað. Umbæturnar þurfa þannig í senn að fara fram á vettvangi velferðarkerfisins og vinnustaðanna og þær þurfa að auka starfstækifæri fólks með sérþarfir og jafnframt að auka líkur á að það haldi vinnu þegar þrengir að á vinnumarkaði.
Heimildir
1. Thorlacius S, Stefánsson SB, Jónsson FH, Ólafsson S. Social circumstances of recipients of disability pension in Iceland. Disability Medicine 2002; 2: 141-6.
2. Selander J, Marnetoft SU, Ekholm J, Bergroth A. Unem-ployment among the long-term sick. Eur J Phys Med Rehabil 1996; 6: 150-3.
3. Lidwall U, Thoursie PS. Sjukfrånvaro och förtidspension - en beskrivning och analys av utvecklingen under de senaste decennierna. Riksförsäkringsverket, Stokkhólmi, febrúar 2000.
4. Thorlacius S, Stefánsson SB, Ólafsson S. Tengsl atvinnuleysis og nýgengis örorku á Íslandi 1992-2003. Læknablaðið 2004; 90: 833-6.
5. Heimasíða Hagstofu Íslands: www.hagstofa.is
6. Bland M. An Introduction to Medical Statistics. Oxford University Press, 1995.
7. Lög um almannatryggingar nr. 100/2007.
8. Thorlacius S, Stefánsson S, Ólafsson S. Umfang og einkenni örorku á Íslandi árið 1996. Læknablaðið 1998; 84: 629-35.
9. Thorlacius S, Stefánsson SB. Algengi örorku á Íslandi 1. desember 2002. Læknablaðið 2004; 90: 21-5.
10. Baldursson H, Jóhannsson H. Nýr staðall fyrir örorkumat á Íslandi. Læknablaðið 1999; 85: 480-1.
11. Thorlacius S. Breytt fyrirkomulag örorkumats á Íslandi og starfræn endurhæfing á vegum Tryggingastofnunar ríkisins. Læknablaðið 1999; 85: 481-3.
12. Thorlacius S, Stefánsson S, Jóhannsson H. Örorkumat fyrir og eftir gildistöku örorkumatsstaðals. Læknablaðið 2001; 87: 721-3.
13. Halvorsen K. Arbeid eller trygd. Pax Forlag Oslo 1977.
14. Berglind H, Olson-Frick H. Förtidspensionering. Stockholm, Statens Offentliga Utredninger, no. 88, 1977.
15. Jónsdóttir GA, Ólafsson S. Atvinnulausir á Íslandi 1993. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 1993.
16. Brenner MH. Final report to the European Commision Directorate General for Employment, Industrial Relations and Social Affairs. VC 2001/0224. The European Commision, Employment and Social Affairs 2001.
17. ÅH AMH, Westerling R. Mortality in relation to employment status during different levels of unemployment. Scand J Public Health 2006; 34: 1567.
18. Marnetoft SU, Selander J, Bergroth A, Ekholm J. Unemployed long-term sicklisted people in rural Jämtland compared with circumstances in the city of Stockholm, Sweden. Work 1998; 10: 3-8.
19. Bellaby P, Bellaby F. Unemployment and ill healh: Local labour markets and ill health in Britain 1984-1991. Work, Employment & Society 1999; 13: 461-82.
20. Wilkinson RK. Income distribution and life expectancy. BMJ 1992; 304: 165-8.
21. Lynch JW, Davey Smith G, Kaplan GA, House JS. Income inequality and mortality: importance to health of individual income, psychosocial environment, or material conditions. BMJ 2000; 320: 1200-4.
22. Marmot M, Wilkinson RG. Psychosocial and material pathways in relation between income and health: a response to Lynch et al. BMJ 2001; 322: 1233-6.
23. Herbertsson TÞ. Fjölgun öryrkja. Reykjavík, Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 2005.
24. Ólafsson S. Örorka og velferð á Íslandi. Reykjavík, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 2005.
25. Thorlacius S, Stefánsson SB, Ólafsson S, Tómasson K. Increased incidence of disability due to mental and behavioural disorders in Iceland 1990-2004. Handrit sent til birtingar í Scand J Public Health.
26. OECD. Transforming Disability into Ability. Paris, OECD, 2003.