03. tbl 93. árg. 2007

Fræðigrein

Heilsuefling í leikskólum í Reykjavík - íhlutun og árangur aðgerða

Health promotion in day-care centres in Reykjavík - intervention and result of actions

Ágrip

Tilgangur rannsóknarinnar er að gera samanburð á líðan og vinnuumhverfi starfsmanna fyrir og eftir íhlutun á vinnuumhverfi þeirra hjá Leikskólum Reykjavíkur.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er framsýn íhlutunarrannsókn. Árið 2000 var spurningalisti lagður fyrir starfsmenn 16 leikskóla varðandi vinnuumhverfi, líðan og heilsu. Gert var vinnuumhverfismat og leikskólunum skipt í fjóra flokka. Síðan fór fram íhlutun á vinnuumhverfi með endurnýjun á aðbúnaði og starfsmannafræðslu um vinnuvernd. Hálfu ári síðar var sami spurningalisti lagður fyrir alla starfsmenn leikskólanna.

Niðurstöður: Heildarsvörun árið 2002 var 88% (n=267) en 90% árið 2000. Að mati starfsfólks hefur aðbúnaður batnað á leikskólunum. Fleiri starfsmenn hafa fengið fræðslu í líkamsbeitingu og góðum vinnubrögðum árið 2002 en 2000. Færri starfsmenn nota erfiðar líkamsstellingar en áður.

Þar sem líkamleg einkenni starfsmanna eru minnst er rýmið mest, meðalaldur starfsmanna lægstur, hlutfall ófaglærðra hæst og færri hafa fengið kennslu í líkamsbeitingu heldur en í hinum flokkunum. Líkamlegu einkennin eru mest þar sem faglærðir eru í meirihluta. Sálfélagsleg líðan árið 2002 er góð hjá flokkunum í heild og er jákvæðari eða stendur í stað milli ára. Sálfélagsleg líðan er hins vegar best þar sem menntun er best og starfsaldur hærri þrátt fyrir minna rými. Meðvitund starfsmanna varðandi hávaða hefur aukist til muna milli ára.

Ályktun: Með íhlutun er hægt að bæta vinnuaðferðir og vinnuumhverfi starfsmanna, þannig að grundvöllur fyrir vellíðan í vinnu sé góður. Samspil þessara þátta, menntunar og starfsaldurs er þó flókið. Því er mikilvægt að allir vinnustaðir fylgi ferli áhættumats, markvissra íhlutunaraðgerða og síðan endurmats. Þannig nást markmið heilsueflingar og vinnuverndar.

Inngangur

Gera má ráð fyrir að stærsti hluti starfsmanna á vinnustöðum telji sig heilbrigðan því þeir geta stundað vinnu, sinnt sjálfum sér og fjölskyldu sinni. Þrátt fyrir þetta eru margir með ýmis líkamleg óþægindi eins og lýst er í fyrri rannsókn okkar á starfsfólki leikskóla (1).

Þar er gerð grein fyrir áhættumati á vinnuumhverfi og líðan starfsmanna hjá Leikskólum Reykjavíkur. Leikskólarnir voru flokkaðir í fjóra flokka byggðu á mati á vinnuumhverfi. Matið var síðan borið saman við niðurstöður spurningalista. Niðurstöðurnar sýna almennt mikla starfsánægju en einnig mikil líkamleg einkenni. Hávaði mælist of hár og vinnustellingar niður við gólf eru áberandi hjá öllum flokkum án tillits til vinnuaðstæðna.

Markmið með forvörnum á vinnustöðum er að starfsmenn verði ekki fyrir heilsutjóni, þeim líði betur og það dragi úr kvörtunum. Þannig miða forvarnir á vinnustöðum að því að efla, varðveita, viðhalda og endurheimta heilsu vinnandi fólks og minnka vanlíðan og þjáningu (2).

Enn þann dag í dag hefur ekki verið hægt að sýna fram á hvaða íhlutunaraðferð reynist best til að efla heilsu starfsmanna (3, 4). Því er nauðsyn að rannsaka venjulega vinnustaði sem lúta öllum þeim lögmálum vinnumarkaðarins sem vinnustaðir gera. Þannig er hægt að afla raunhæfrar þekkingar á því hvaða aðgerðir í vinnuvernd og heilsueflingu skila árangri og reynast best (4, 5).

Rannsóknir á íhlutunum í vinnuumhverfi leikskóla og áhrifum þess á líðan og heilsu starfsfólks eru ekki til. Tillögur um íhlutanir eru til í greinum sem fjalla um mat á vinnuumhverfi út frá líkamlegu álagi og ráðleggingar um aðbúnað á leikskólum (6-8), en engar rannsóknir um áhrif íhlutunar á heilsu og öryggi starfsmanna á leikskólum (5). Í nýlegri grein (5) voru starfsmenn spurðir um hvort þeir þurfi vinnuvistfræðilegar íhlutanir, þekki þær og hvort þær hafi verið gerðar á þeirra leikskóla. Starfsmenn svöruðu í 69% tilvika að ekki væri þörf á breytingum því búið væri að innleiða flestar íhlutanir. Meirihluti starfsmanna var áfram með líkamleg einkenni frá fleiri en einu svæði líkamans. Niðurstaða greinarinnar er að aðstæður og þau verkefni sem unnin eru á leikskólum þurfi nánari greiningu. Auk þess þurfi að skoða nánar aðferðir til að draga úr álagi og slysum (5). Svarhlutfall var hins vegar aðeins 31% í þessari rannsókn og því erfitt að alhæfa út frá niðurstöðum hennar.

Í verkefninu Heilsuefling á leikskólum í Reykjavík var gert ítarlegt mat á vinnuumhverfi og mati starfsmanna á eigin vinnuaðstöðu og líkamlegri og sálfélagslegri líðan í leikskólunum sem sagt hefur verið frá áður (1). Þar er áhættumati lýst og skólunum 16 skipt upp í fjóra flokka eftir mati á vinnuumhverfi. Flokkur A samanstendur af tveim stórum skólum og fær matseinkunnina mjög gott vinnuumhverfi. Í flokki B eru fimm skólar. Þeir fá matseinkunnina gott vinnuumhverfi. Í flokki C eru einnig fimm skólar og þar er vinnuumhverfi metið nokkuð gott. Flokkur D samanstendur af fjórum litlum leikskólum og fær einkunnina sæmilegt vinnuumhverfi. Út frá þessum fjórum vinnumatsflokkum er lagt mat á samspil heilsu, líðanar og vinnuumhverfis starfsmanna á leikskólum í Reykjavík.

Í framhaldi af áhættumatinu (1) sem fólst í vinnuumhverfismati og mati starfsfólks voru gerðar umtalsverðar breytingar á vinnuumhverfi, sem byggðu á niðurstöðum áhættumatsins. Breytingunum var fylgt eftir með fræðslu og þjálfun. Yfirmenn Leikskóla Reykjavíkur lögðu fram mikla fjármuni til verka.

Árin 2001 og 2002 urðu miklar skipulagsbreytingar á leikskólum í Reykjavík. Fimm ára börnum fjölgaði úr átta í tíu fyrir hvert stöðugildi og lágmarks brúttórými fyrir hvert barn samtímis lækkaði úr 7m2 í 6,5m2 (9). Þetta leiddi til þess að börnum fjölgaði um 270 á leikskólum í Reykjavík auk fjölgunar starfsmanna. Hjá leikskólum í flokki A fjölgar börnunum mest og minnst í flokki D og hinir eru þar á milli. Þessar breytingar eru ?utanaðkomandi þættir og voru ekki hluti af þeirri tilraun sem lagt var af stað með árið 2000. Þegar rannsóknir á vinnuumhverfi eru gerðar er verið að meta heilbrigði vinnustaða og ekki er hægt að stjórna ytra umhverfi sem breytist í sífellu og er háð þáttum sem rannsakendur hafa ekki möguleika á að hafa undir sinni stjórn. Markmið er að taka vinnustaðina fyrir eins og þeir eru. Áhrifabreytur verkefnisins verða því bæði breytingarnar sem voru hluti af vinnuverndar- og heilsueflingarverkefninu og líka fjölgun barna á hverjum leikskóla.

Í ljósi þessa gafst möguleiki á að rannsaka, með tveggja ára eftirfylgd á leikskólunum sem þátt tóku, hvort íhlutun í formi fyrsta stigs forvarna hafi áhrif á líðan og vinnuumhverfi starfsmanna. Við væntum þess að þessar aðgerðir leiði til betri aðbúnaðar og betri líðan starfsmanna eins og markmið verkefnisins sagði fyrir um. Í þessu verkefni er vinnuumhverfið tekið fyrir sem heild en ekki er um einstaklingsbundna íhlutun að ræða. Sú aðferðafræði sem notuð er hér, það er að rannsaka hvernig starfsmönnum líður og gera mat á vinnuumhverfi sem síðan er fylgt eftir með íhlutun á vinnuumhverfi og fræðslu, er í anda áhættumatsgreiningar eins og nýju vinnuverndarlögin gera ráð fyrir (10).

Hér er lýst seinni hluta ferlisins, mati á árangri íhlutunar á hinum fjórum flokkum leikskólanna. Leitast verður við að svara eftirfarandi spurningum með tilliti til vinnumatsflokkanna fjögurra sem kynntir hafa verið áður og sagt er frá hér að ofan.

1. Jafnar íhlutun mun á aðbúnaði milli leikskóla?

2. Hefur íhlutun í formi fyrsta stigs forvarna, svo sem fræðslu og nýrra vinnutækja áhrif á vinnustellingar, hávaða, sálfélagslegt vinnuumhverfi og líkamlega líðan starfsmanna?

Efniviður og aðferðir

Mynd 1. „Eyrað“ er lampi, sem lýsir með gulu ljósi við 80 dB hávaða, en rauðu ljósi við 85 dB.

www.soundear.dk

Um er að ræða framsýna íhlutunarrannsókn. Árið 2000 var lagður fyrir starfsmenn 16 leikskóla spurningalisti varðandi, vinnuumhverfi, líðan og heilsu. Gert var vinnuumhverfismat og leikskólarnir flokkaðir í fjóra flokka samkvæmt því. Efnivið hefur verið lýst nánar áður (1). Í framhaldi af því fór fram íhlutun á vinnuumhverfi, sem fólst í að ákveða og framkvæma endurnýjun á búnaði í samráði við yfirmenn leikskólanna, efla hávaðavarnir og starfsmannafræðslu um vinnuvernd. Hálfu ári eftir að íhlutun hafði farið fram á vinnuumhverfi leikskólanna var sami spurningalisti lagður fyrir alla starfsmenn leikskólanna.

Niðurstaða vinnustaðamats og spurningalista leiddi til úrbótalista sem innihélt um 40 þætti sem betur mætti fara. Úrbótalistanum var forgangsraðað af verkefnisstjóra og yfirmönnum Leikskóla Reykjavíkur og skipt í þrjá hluta. Úrbótum sem verkefnið kostaði, meiriháttar úrbætur sem Fast-eignastofa Reykjavíkurborgar fékk til úrlausnar og úrbætur sem hver leikskóli þurfti sjálfur að sjá um kostun og framkvæmd á. Í þessari grein er áhersla á íhlutun sem verkefnið kostaði.

Áður en íhlutunin var ákveðin nákvæmlega fyrir hvern leikskóla var haldinn fundur með deildarstjórum og leikskólastjóra á hverjum stað. Fjallað var um tillögur að úrbótum við hvern skóla út frá mati á vinnuumhverfi og samþykki starfsmanna fengið til úrbótanna. Um leið var hugað að viðhorfum starfsmanna til vinnuumhverfis og eigin líðanar. Vinnutæki voru keypt inn á deildir til að bæta vinnuhæð og minnka burð starfsmanna. Starfsmenn fengu vinnustóla á hjólum, auk þess sem lág borð og barnastólar voru endurnýjuð. Stigar voru settir við bleyjuskiptiborð og borð endurhönnuð. Aðbúnaður leikskólastjóra var bættur, þar sem þörf var á því. Áhersla var lögð á hávaðavarnir með því að kaupa 14 lampa, sem kallaðir eru „eyra“ (11). Lampinn lýsir með gulu ljósi þegar hávaðinn er kominn í 80 dB (desibel) og rauðu ljósi þegar hávaðinn er yfir 85 dB (mynd 1). Lampinn á að gera starfsmenn meðvitaðri um hávaða í vinnurýminu. Hvatt var til teppa- og gardínukaupa inn á deildar til að dempa hávaða.

Þegar endurnýjun á aðbúnaði var lokið voru haldnir fræðslufundir í hverjum leikskóla um hávaðavarnir, álagseinkenni, líkamsbeitingu, líkamsvitund og nýtingu nýrra vinnutækja. Rætt var um mikilvægi þess að horfa á vinnuumhverfið út frá starfsmanninum en ekki eingöngu út frá börnunum eins og var ríkjandi hjá starfsmönnunum.

Í maí árið 2002, um hálfu ári eftir að íhlutun var lokið, lögðu starfsmenn Vinnueftirlitsins sama spurningalista fyrir alla starfsmenn leikskólanna, eins og gert hafði verið tveimur árum áður. Til að meta áhrif íhlutunar á líðan starfsfólks voru svör við spurningum er varða óþægindi starfsmanna síðustu sjö dagana áður en listinn var lagður fyrir borin saman við svör við sömu spurningum árið 2000.

Vísindasiðanefnd veitti leyfi til rannsóknarinnar (00/020-V1). Útreikningar eru gerðir í SPSS (12). Ekki er um normaldreifingu að ræða í flokkunum fjórum sem mynda vinnumatseinkunnina og því er mismunur meðaltala metinn útfrá Kruskall-Wallis prófi. Hlutföll eru metin með Kí-kvaðratprófi en væntigildi fyrir 2002 reiknuð út frá dreifingu svara við hverju atriði sem skoðað var árið 2000 þegar samanburður er gerður milli þessara tveggja ára (13). Ákveðið var í túlkun að miða marktækni við p= 0,001, þar sem fjöldi tölfræðiprófanna er mikill í samanburði í rannsókn sem þessari.

 

 

Niðurstöður

Heildarsvörun árið 2002 var 88% (n=267) en 90% árið 2000. Töflur sýna samanburð milli ára innan flokka annars vegar og hins vegar samanburð milli flokka innan ára.

Þegar flokkarnir fjórir sem mynda vinnumatseinkunnina eru skoðaðir milli ára kemur í ljós að þar hafa orðið nokkrar breytingar (tafla I).

Tafla I fjallar almennt um starfsmannahópinn. Milli ára er marktækur munur hjá starfsmönnum sem segjast vinna aukavinnu og hafa skipt um starf á síðustu fimm árum.

Fjöldi starfsmanna í flokkunum hefur jafnast milli ára. Fæstir starfsmenn eru áfram í A og D en flestir í B og C, eins og árið 2000.

Meðalaldur starfsmanna hefur breyst nokkuð milli ára. Flokkur A hefur lægstan meðalaldur starfsmanna eins og áður. Í flokki C hefur meðalaldur hækkað árið 2002 um fimm ár í 42 ár, en um þrjú ár hjá B í 38 ár. Meðalaldur hefur hins vegar lækkað um tvö ár í D.

Fjöldi ófaglærðra hefur aukist í A og D milli ára. Hlutfallsfjöldinn í hinum flokkunum stendur í stað eða lækkar aðeins.

Starfsaldur breytist milli ára í flokki C. Þar hækkar meðalstarfsaldur úr sex árum í níu ár á meðan hinir flokkarnir eru á bilinu 6-7 ár.

Þegar spurt er um hvort starfsmenn hafi skipt um starf á síðustu fimm árum kemur í ljós að í hverjum flokki svara 50-65% starfsmanna því játandi árið 2002. Fleiri hafa skipt um starf í A og D miðað við árið 2000 en færri í C (χ²(df=7, n =231)= 28, p<0,001).

Mun fleiri stunda aukavinnu í öllum flokkum árið 2002 en 2000 (χ²(df=7, n=267)=148, p<0,001).

Tafla II fjallar um aðstöðu starfsmanna og fræðslu í líkamsbeitingu. Marktæk breyting verður á dreifingu svara er lúta að aðstöðu og fræðslu milli ára, þegar metin eru áhrif íhlutunar á þessa þætti. Þegar starfsmenn eru spurðir um hvort aðstaðan sé þannig að hægt sé að vinna í þægilegum vinnustellingum, svara 86-95% allra starfsmanna í flokkunum fjórum að svo sé (χ²(df=7, n=255)= 83, p<0,001).

Dreifing er enn meiri á svörum starfsmanna varðandi þrengsli árið 2002 heldur en 2000 (χ²(df=7, n =243)= 38, p<0,001). Tæplega 50% munur er milli leikskólaflokkanna varðandi mat á þrengslum árið 2002 (p<0,001).

Árið 2002 svara 36 starfsmenn að þeir hafi ekki fengið kennslu í líkamsbeitingu, eða um 7-33% starfsmanna í hverjum flokki, en samsvarandi tala var 108 árið 2000 (χ²(df=7, n =259)= 128, p<0,001). Einnig eru breytingar milli ára varðandi gagnsemi fræðslunnar. Árið 2002 eru 226 starfsmenn sem segja að fræðslan hafi gagnast sér, en árið 2000 um 130 starfsmenn (χ²(df=7, n =226)= 85, p<0,001).

Tafla III fjallar um vinnustellingar. Mun færri eru oft eða mjög oft í krjúpandi stöðu árið 2002 en 2000 (χ²(df=7, n =231)= 54, p<0,001). Dreifingin milli flokka árið 2002 er marktæk (p<0,05).

Það dró einnig úr því að starfsmenn þyrftu að vinna mjög álútir, en algengi þess lækkaði um 20-25% í hverjum flokki milli ára (χ²(df=7, n =221)= 85, p<0,001). Sama má segja um að vinna á hækjum sér en algengi þess lækkar um 25% í A, B og C en stendur í stað í D milli ára ((χ²df=7, n =232)= 80, p<0,001).

Algengi þess að vinna snúinn stendur í stað í C og D, en dregur úr því í B og enn meir í A hlutfallslega (χ²(df=7, n =232)= 25, p<0,001).

Algengi þess að vinna með handleggi langt frá líkamanum hefur jafnast milli flokka árið 2002. Hins vegar verður þessi vinnustelling algengari en áður í þremur flokkum (χ²(df=7, n =227)= 47, p<0,001). Svörun um að bera miðlungsbyrði í uppréttri eða í álútri stöðu sýnir fremur litlar breytingar milli ára og milli skóla.

Tafla IV sýnir fjölda þeirra sem kvartað hafa um líkamleg óþægindi síðustu sjö daga. Þegar einkenni eru borin saman milli ára er einungis marktækur munur frá efri hluta baks (χ²(df=7, n =267)= 44, p<0,001) og neðri hluta baks (χ²(df=7, n =267)= 25, p<0,001).

Tafla V sýnir sálfélagslega þætti. Þeir standa almennt í stað milli ára eða eru jákvæðari í átta spurningum af tíu. Marktækni er varðandi að geta sinnt börnunum vel (χ²(df=7, n =245)= 60, p<0,001) og skreppa frá í ½ klst. (χ²(df=7, n =260)= 24, p<0,001). Nokkrir þættir breytast marktækt til hins verra og má þar nefna að tímapressa eykst (χ²(df=7, n =261)= 45, p<0,001), samskipti við samstarfsfélaga versnar (χ²(df=7, n =262)= 43, p<0,001) og síður er komið með tillögur til að létta störfin ((χ²df=7, n =256)= 28, p<0,001). Varðandi samskipti við yfirmenn, glaðværð og samstöðu er ekki marktækur munur enda í yfir 90% jákvæð svörun hjá öllum hópum bæði árin.

Starfsmenn eru bæði árin á því að starfsandi einkennist ekki nema í mjög litlum mæli af tortryggni og grunsemdum og var ekki munur á flokkum í því tilliti. Meðaltal var 1,8 til 2,7 á skalanum 1-10, þar sem minnsta tortryggni og grunsemdir er einn (p<0,01). Það sama má segja varðandi að starfsandi hafi einkennst af togstreitu og streitu en þar var ekki munur á milli ára en aðeins hærra meðaltal en um tortryggni og grunsemdir (p<0,01). Hins vegar varðandi afslappaðan og þægilegan starfsanda var meðaltalið milli 7,5 og 8,6 þar sem 10 er best. Leikskólar í flokki D voru áfram með bestan starfsanda eða 8,6 árið 2000 og 8,3 árið 2002 (p<0,05).

Hlutfallslega svara jafnmargir milli ára að hávaði valdi þeim oft eða stundum óþægindum, eða um 92% allra svarenda. Tafla VI fjallar um óþægindi sem starfsmenn finna fyrir vegna hávaða. Þegar allur starfsmannahópurinn er metinn sem heild fást misvísandi breytingar milli ára (χ²(df=7, n =254)= 71, p<0,001).

Ef starfsflokkunum er skipt í tvo hópa eftir starfsaldri (tafla VI), það er starfsmenn sem hafa unnið í eitt ár eða minna og síðan í meira en eitt ár, kemur í ljós að mikil fækkun er í flokki nýráðinna starfsmanna árið 2002, sem telja að hávaðinn valdi óþægindum í síðasta mánuði miðað við árið 2000 (χ²(df=7, n =56)= 46, p<0,001). Allir starfsmenn sem hafa starfað lengur en eitt ár kvarta undan meiri hávaða árið 2002, nema flokkur B (χ²(df=7, n =189)= 63, p<0,001).

 

 

Umræður

Markmið þessa verkefnis var frá upphafi að meta líðan og vinnuaðstæður starfsfólks á leikskólum og framkvæma úrbætur til að ná settu marki. Með því fengist betri vinnuaðstæður sem leiða til minni líkamlegra óþæginda starfsmanna.

Niðurstöður okkar sýna að íhlutun hefur, að mati starfsfólks, leitt til betri vinnustaða (tafla II). Aðbúnaður hefur jafnast milli flokka, en hann hefur fyrst og fremst batnað. Þetta á við um lausan búnað sem hefur bein áhrif á líkamsbeitingu og vinnulag, en hefur ekki með aðra þætti í umhverfinu að gera. Starfsmenn staðfesta einnig að hafa fengið fræðslu í líkamsbeitingu og góðum vinnubrögðum og að hún gagnist þeim. Því virðist sem fyrstu markmið verkefnisins hafi náðst.

Í annarri rannsókn, þar sem gert var mat á vinnuumhverfi starfsmanna og fjarvistir voru tíðar vegna líkamlegra einkenna, kom í ljós að áhættuþættir í vinnuumhverfi (ergonomic risk factors) hindruðu starfsmenn í að koma aftur til vinnu (14). Best gekk að bæta vinnuumhverfi starfsmanna þegar starfsmaður og næsti yfirmaður höfðu áhuga á að innleiða breytingar til að bæta vinnuumhverfið. Auðveldara var að fá fram einfaldar hegðunarbreytingar hjá starfsmönnum heldur en dýrar stjórnunar- eða tækjabreytingar til að bæta vinnuumhverfið (14). Í leikskólunum er ljóst að hegðunarbreytingar hafa átt sér stað varðandi vinnustellingar (tafla III). Færri starfsmenn nota erfiðar vinnustellingar, svo sem að vera krjúpandi eða á hækjum sér. Starfsmenn á leikskólum þurfa hins vegar góð og hentug vinnutæki til að tryggja hagstæðar vinnustellingar. Fræðsla í líkamsbeitingu eykur meðvitund starfsmanna um áhrif vinnustellinga á líkamann og tryggir betri og almennari nýtingu á vinnutækjum. Þrátt fyrir að starfsmenn ættu að vera betur meðvitaðir um líkamsbeitingu hefur það ekki skilað sér í minni burði starfsmanna í álútri stöðu. Þegar gerðar eru rannsóknir í vinnuumhverfi geta óvæntar breytingar haft veruleg áhrif á niðurstöður verkefnisins, eins og henti hér. Kjarasamningar leikskólakennara 2001 ollu því að fleiri börn eru á hverri leikskóladeild nú og fleirum er að sinna (9). Þessi aukni fjöldi barna getur skýrt þá staðreynd að þótt búnaður og tæki hefðu átt að draga úr lyftingum á börnum, gerðist það ekki. Því reynir enn meir á að starfsmenn séu meðvitaðir um að til að minnka burð þarf að endurskoða starfsaðferðir og skipulag.

Leikskólar í flokki A hafa ætíð verið reknir sem heilsdagsvistun í góðu rými. Í A verður fjölgun barna mest, þar sem rýmið er best og vinnuaðstaðan best, eða fjölgun um 19 börn samtals. Leikskólarnir í D eru tvenns konar. Nýlega byggðir leikskólar og leikskólar sem voru áður (fyrir 2000) með fjögurra stunda vistun fyrir og eftir hádegi. Aðbúnaði var háttað á annan veg. Í D er ekki um neina fjölgun að ræða, heldur aðeins lengingu á viðverutíma barna sem fyrir eru. Í B og C eru blandaðir hópar og þar er fjölgunin um 11 heilsdagspláss í hvorum flokki. Sem vænta má kvarta starfsmenn leikskóla í C og D nú meira undan þrengslum, en hins vegar dregur úr kvörtunum um þrengsli þrátt fyrir fleiri börn hjá A og B. Þetta undirstrikar að aðgerðir til að draga úr þrengslum eru mögulega ekki síður fólgnar í breytingum á því vinnulagi sem beitt er við vinnuna.

Ákveðið var að taka ekki fyrir líkamleg óþægindi síðustu 12 mánuði vegna skörunar við breytingatímabilið þegar íhlutun var lögð inn. Óþægindi síðustu sjö daga sýna að aðeins færri starfsmenn eru með óþægindi seinna árið eða þau standa í stað milli ára (tafla IV). Um 30-60% allra starfsmanna eru með óþægindi frá herðum/öxlum og mjóbaki. Þetta eru of algeng óþægindi og engan veginn hefur náðst ásættanlegur árangur þótt eitthvað hafi áunnist. Rannsókn á áströlskum sjúkrahúsum (15), þar sem áhersla var á aukna notkun hjálpartækja til að minnka burð á sjúklingum, leiddi til minni fjarvista og minni bakverkja. Þessi árangur kemur ekki fram í leikskólunum, þar sem aukin notkun á hjálpartækjum hefur enn ekki leitt til minni burðar á börnum og ekki minni bakverkja í heildina. Geta má þess að vinnutæknin á áströlsku sjúkrahúsunum hafði verið innleidd allt að tveim árum áður en rannsókn hófst en ekki einungis hálfu ári áður, eins og í þessari rannsókn. Um 70% starfsmanna á leikskólum sögðu að ekki þyrfti frekari breytingar á aðbúnaði og að þeir væru meðvitaðir um aðferðir til að draga úr álagi (5). Á sama tíma skrá þeir líkamleg óþægindi frá fleiri en einu líkamssvæði. Þetta undirstrikar að starfsfólk telur að aðeins hluti óþæginda sem það hefur, tengist vinnunni. Þetta er viðhorf sem mögulega dregur úr líkum á að hægt sé að nota vinnustaðinn til að draga úr óþægindum fólks. Minna má á að 20-30% fleiri starfsmenn í öllum flokkum vinna aukavinnu árið 2002 en árið 2000 (tafla I). Það getur haft áhrif á tíðni óþæginda. En mótsögnin er hins vegar sú að þar sem fagmennirnir eru flestir eru einkennin mest og það þótt þeir vinni síst aukavinnu. Fæstir hafa óþægindi þar sem rýmið er mest, meðalaldur starfsmanna lægstur, ófaglært starfsfólk er hlutfallslega flest og þriðjungur starfsmanna hefur ekki fengið kennslu í líkamsbeitingu. Í hinum hópunum þremur er hundraðshluti þeirra sem ekki hafa fengið kennslu í líkamsbeitingu 7%, 8% og 13%. Vinnuverndarþættir sem gætu skýrt þetta, eru þeir að þessir aðilar hafi notið lengur góðs aðbúnaðar á leikskólanum en hinir og búi við minnstu þrengslin að mati starfsmanna, þrátt fyrir fjölgun barna. Skiptir fræðslan um líkamsbeitingu þá engu máli? Allt er öðru háð og þrengsli tengjast mjög líkamsbeitingu. Má þar nefna að auðveldara er að komast um á vinnustól í fullnægjandi rými, sem tryggir góða líkamsstöðu við lága vinnuhæð eins og er einkennandi á leikskólum. Einnig skiptir dagleg verkstjórn leikskólastjóranna máli.

Sálfélagsleg líðan er góð hjá flokkunum í heild og yfir 90% jákvæð svörun um þætti sem skipta miklu máli, eins og glaðværð, góð samskipti við yfirmenn og að geta sinnt börnunum vel (tafla V). Svörun um starfsanda lýsir sterkum vinnuflokkum. Ekki hefur áður verið sýnt fram á svo jákvæða svörun um sálfélagslega þætti á meðal starfsmanna á leikskólum. Flokkur D hefur almennt jákvæðustu svörunina, en A þá neikvæðustu og hinir þar á milli. Svörun við spurningu um tímapressu stangast á við svörun um góðan starfsanda. Fjölgun í skólunum getur skýrt aukna tímapressu. Skipulag starfseminnar hefur ekki tekið mið af þessari fjölgun, þannig að nú þarf að sinna fleiri börnum en áður á sama tíma (9). Þetta hefur örugglega áhrif á starfsmenn því við frekari fræðslu úti í leikskólunum hefur komið í ljós að dagsskipulagið hefur lítið breyst þó börnunum hafi fjölgað. Starfsmenn nota sama tíma og áður til að sinna daglegum þörfum til að minnka ekki faglega tímann, segjast vinna hraðar og alltaf vera á klukkunni enda virðist tímaálag hafa aukist hjá þeim sem hafa starfað lengst, eru elstir eða meirihluti er með fagmenntun (tafla I). Hrós virðist tengjast stærð skóla út frá fjölda starfsmanna á hvern yfirmann.

Samspil sálar og líkama er með nokkuð öðrum hætti en búast mætti við. Gott rými, lægri aldur starfsmanna, minni fagmenntun tengist betri líkamlegri líðan en verri sálfélagslegri líðan. Fagmenntun kallar á aukna ábyrgð en tryggir góða sálfélagslega líðan og mjög jákvætt hugarfar. Þessi aukna ábyrgð leiðir hins vegar mögulega til þess að fagmenntað fólk leggur meira á sig líkamlega til að sinna störfum sínum og fær því frekar líkamleg óþægindi. Þessu verður ekki svarað hér með óyggjandi hætti, en er mikilvægt rannsóknarefni í heilsueflingu og vinnuvernd.

Í upphafi verkefnisins var þáttur hávaða í vinnuumhverfi starfsmanna ekki talinn eins stór og mikilvægur og síðar kom í ljós. Mælingar á hávaða (1) og óþægindi af hans völdum sýndu að mikilvægt var að taka á hávaðanum. Kvartanir vegna hávaða minnkuðu ekki milli ára (tafla VI). Fleiri börn valda meiri hávaða, því leikur leikskólabarna felur eðlilega í sér hljóðmyndun frá börnum, fullorðnum og leikföngum. Varnir gegn hávaða beindust bæði að fræðslu og nýju vinnutæki, svo kölluðu „eyra“ (mynd 1), sem á að auka meðvitund starfsmanna og barna um hávaða (11). Fræðsla og umræða um hávaða fjallar um notkun raddar, dempandi dúka á borðum, teppi, lýsingu og skipulag til dæmis notkun rýma, fjölda barna í rými og útiveru (16-19).

Meðvitund starfsmanna um hávaða hefur aukist milli ára (tafla VI). Það sést að tekið hefur verið á hávaðanum þar sem nýráðnir vinna, því að hávaði hefur minni áhrif á þá árið 2002 en árið 2000. Undantekning frá þessu er flokkur D, en þar varð mikil fjölgun á ófaglærðum starfsmönnum milli ára. Fleiri eldri og reyndari starfsmenn svara þannig árið 2002, að hávaði hafi valdið þeim óþægindum, en árið 2000.

Í fimmtu grein reglugerðar um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum (nr. 921/2006) er kveðið á um að hávaði fari ekki yfir 65 dB (A) þar sem samræður eiga sér stað og ekki yfir 60 dB (A) í mat- og kaffistofum á meðan notkun stendur yfir (20). Því er ljóst að hávaði sem mælist um og yfir 85dB (A) á leikskólum þar sem verið er að vinna með og kenna börnum er allt of hár. Munurinn er „aðeins“ 20 dB en hljóðstyrkur hópsins er í raun 120 faldur á við venjulegt samtal, vegna þess að kvarðinn er lógaritmískur. Það þýðir að hvort sem við förum upp eða niður á kvarðanum þá þýða 3 dB alltaf tvöföldun eða helmingun hávaðans, þó eyrað skynji það ekki svo (17, 21). Almennt var ánægja með „eyrað“ ekki eins jákvæð og búast hefði mátt við. Skýringin er sú að hrópin eru numin af „eyranu“ (80dB, gult ljós) en ekki skvaldur og eðlilegt tal barnanna sem er þreytandi til lengdar. Nú er búið að breyta lampanum á þann veg að hægt er að stilla gula ljósið frá 50-80 dB og það gefur meiri möguleika. Tryggja þarf að starfsmenn séu meðvitaðir um neikvæð áhrif hávaða og vinni því stöðugt að því að lækka hávaða alla daga.

Yfirvöld leikskóla verða að tryggja að viðurkenndar hljóðísogsplötur séu í loftum á leikskólum og að endurkast sé innan marka byggingareglugerðar eða að ómtími sé 0,6 sek (22). Erlendar rannsóknir og endurskoðun reglugerða og staðla í nágrannalöndum okkar benda til þess að 0,4 sekúndur séu í raun æskilegra markmið sem ómtími fyrir kennslustofur í leikskólum og grunnskólum(23).

Niðurstöður áhættumatsins árið 2000 voru kynntar fyrir stjórnendum á Fasteignastofu Reykjavíkurborgar, sem sjá um allar meiriháttar breytingar og endurnýjun á leikskólum í Reykjavík. Óskað var eftir að tekið yrði tillit til þeirra við framkvæmdir og endurnýjun á næstu árum á leikskólum. Í kjölfar mælinga á hávaða voru hljóðísogsplötur settar inn á deildir í tveim leikskólum sem ekki höfðu haft neinar.

Rannsóknir í heilsueflingu og vinnuvernd fjalla um vinnandi fólk í sínu eðlilega vinnuumhverfi. Í framtíðinni þarf enn frekar en gert hefur verið til þessa að meta árangur fyrir og eftir íhlutun yfir langan tíma. Þannig fást mælingar þar sem áhrif skyndilegrar athygli sem starfsmönnum er sýnd vegna verkefnisins verða minni. Tímaþátturinn hefur mikið að segja og ef til vill var endurmælingin í þessu verkefni gerð of fljótt eftir að breytingarnar áttu sér stað, því ekki leið nema um hálft ár frá því að úrbótum lauk og þar til endurmæling átti sér stað. Einnig má líta á það sem galla að heilsufar starfsmanna var einvörðungu metið út frá spurningalista en ekki byggt á nákvæmri skoðun á starfsfólkinu. Það er hins vegar styrkur rannsóknarinnar að svörun var mjög góð, eða um 90%, og staðlaðar aðferðir voru notaðar við verkið.

Þetta verkefni sýnir að hægt er að nýta vinnumatseinkunn og úttekt á vinnuaðstöðu til að gera áætlun um forvarnir til að bæta vinnuumhverfi starfsmanna. Mikilvægt er að hafa í huga að vinnuumhverfið er fjölþætt og má þar nefna vinnustaðinn sjálfan með aðbúnaðarþáttum, verkefnin sem unnin eru, skipulagsþætti sem koma víða við og starfsmannaflokka sem eru ólíkir. Því er mikilvægt í upphafi verkefna á þessu sviði að ákveða og forgangsraða hvað á að vinna með sérstaklega í ákveðnum verkefnum. Að öðrum kosti er auðvelt að týna sér vítt og breitt þannig að erfitt verður að endurmeta og að sjá hlutina í samhengi. Hér hefur verið einblínt á aðbúnað starfsmanna, fræðslu í líkamsbeitingu, hávaða og sálfélagslega þætti sem er tiltölulega auðvelt að meta.

Niðurstaða verkefnisins út frá þessum fjórum atriðum er að:

  • Íhlutun í formi fyrsta stigs forvarna skiptir máli til lengri tíma litið.
  • Breytingar á vinnuumhverfi til batnaðar eru staðfestar af starfsmönnum.
  • Stór hópur starfsmanna hefur tileinkað sér betri vinnustellingar, en ekki hefur dregið samsvarandi úr líkamlegum einkennum.
  • Hávaði er erfitt vandamál sem krefst stöðugrar meðvitundar starfsmanna um að draga með öllum ráðum úr hávaða alla daga. Tryggja verður starfsmönnum allan búnað til að draga úr hávaða.
  • Lægri aldur starfsmanna hefur áhrif á líkamleg óþægindi þeirra en aukin fagmenntun á starfsánægju í leikskólum.

 

Aukin meðvitund starfsmanna um vinnuumhverfi sitt er staðfest og þeir sýna að þeir geta haft áhrif á það og bera ábyrgð, en gera ef til vill líka meiri kröfur uppfrá þessu. Verkefni það sem hér er lýst er í raun einvörðungu hluti af því ferli sem allir góðir vinnustaðir eiga að temja sér, áhættumat, markvissar íhlutunaraðgerðir og síðan endurmat á vinnuumhverfi og líðan starfsmanna. Eftir það hefst ferlið upp á nýtt, ef vel á að vera, til þess að bestum árangri í heilsueflingu og vinnuvernd verði náð.

 

Þakkir eru færðar öllum starfsmönnum Leikskóla Reykjavíkur sem komu að þessu verkefni á einn eða annan hátt.

 

 

Heimildir

1. Guðmarsdóttir Á, Tómasson, K. Heilsuefling í leikskólum Reykjavíkur. Áhættumat árið 2000. Læknablaðið 2006; 92: 599-607.
2. Karvonen M, Mikheev MI. Epidemiology of occupational health. WHO Regional Publications, European Series No. 20, 1986: 1-16.
3. Westgaard RH, Winkel J. Review article. Ergonomic intervention research for improved musculoskeletal health: A critical review. Inten J Industrial Ergonomics 1997; 20: 463-500.
4. Eklöf M, Hagberg M. Are simple feedback interventions involving workplace data associated with better working environment and health? A cluster randomized controlled study among Swedish VDU workers. Applied Ergonomics 2006; 37; 201-10.
5. King PM, Gratz R, Kleiner K. Ergonomic recommendations and their impact on child care workers´ health. Work 2006; 26: 13-7.
6. Gratz RR, Claffey A, King P, Scheuer G. The Physical Demands and Ergonomics of Working with Young Children. Ear Child Develop Care 2002; 172: 531-7.?
7. King PM, Gratz R, Scheuer G, Claffey A. The ergonomics of child care: conducting worksite analyses. WORK 1996; 6: 25-32.
8. Owen BD. Intervention for Musculoskeletal Disorders Among Child-Care Workers. Pediatrics 1994; 94/Suppl 60: 1077-9.
9. Lög um leikskóla nr. 78/1994, sbr. lög nr. 47/2001 og reglugerð nr. 225/1995, nr. 365/2001, nr. 642/2002. www.althingi.is
10. Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, sbr. lög nr. 15/1986, nr. 7/1996, nr. 52/1997, nr. 83/1997 og nr. 68/2003. vinnueftirlit.is
11. www.soundear.dk
12. SPSS. SPSS Base 7.5 for Windows, User's Guide. In: Chicago, IL.: SPSS, 1997.
13. Wayne WD. Biostatistics: A Foundation for Analysis in the Health Sciences. John Wiley & Sons, Toronto 1987: 610-5.
14. Grayson D, Dale AM, Bohr P, Wolf L, Evanoff B. Ergonomic Evaluation: Part of a Treatment Protocol for Musculoskeletal Injuries. AAOHM J 2005; 53: 450-7.
15. Engkvist IL. Evaluation of an intervention comprising a No Lifting Policy in Australian hospitals. Applied Ergonomics 2006; 37: 141-8.
16. Arbejdstilsynet. Arbejdsmiljøvejviser 46. Dag- og døgninstitutioner for børn og unge 1999 (cited 2000 Feb). www.at.dk/sw5808
17. Branchearbejdsmiljörådet Social & Sundhed: Stöj i daginstitutioner (cited 2005 sep.). www.stoej.bar-sosu.dk
18. Bistrup ML, Keiding L. Children and noise: prevention of adverse effects. Nat Inst Public Health 2002: (cited 2003 feb). 
www.si-folkesundhed.dk/upload/noiseprevention.pdf
19. Thomsen US, Pedersen S. Stöj i daginstitutioner (cited 2003 sep). www.social.dk/netpublikationer/p1sid090701/forside.htm
20. Reglugerð um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum nr.921/2006.
21. Vinnueftirlit ríkisins: Staðreyndablöð um hávaða; vinnueftirlit.is; síðast skoðað 20. okt. 2006).
22. Byggingareglugerð nr.441/1998. 8 kafli um hollustuhætti. www.althingi.is
23. Hjálmarsson Ó, Daníelsson Ó. Hljóðhönnun almennra kennslustofa. Línuhönnun 2006. 23). www.vinnueftirlit.is

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica