01. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Hestamennskan í blóð borin. Áhugamál Guðbrands Kjartanssonar

"Ég er búinn að hafa áhuga á hestum frá því ég man eftir mér," segir Guðbrandur Kjartansson þegar við erum búnir koma okkur þægilega fyrir við eldhúsborðið heima hjá honum í Fjallalind í Kópavogi. "Ég fór líklega fyrst á hestbak sex ára gamall þegar ég var í heimsókn með afa mínum, Guðbrandi Magnússyni - sem lengi var kenndur við "ríkið" (ÁTVR) en hann hafði verið kaupfélagsstjóri í Hallgeirsey í Landeyjum og þekkti alla þar. Við vorum semsagt í heimsókn hjá vini hans Valdimar bónda í Álfhólum. Hann var þekktur í hrossarækt á þeim tíma, keypti Nökkva á landsmóti hestamanna 1950 og vakti athygli hvað hann gaf mikið fyrir gripinn. Menn héldu að hann væri orðinn vitlaus að borga svona hátt verð fyrir graðhest. Það þekktist varla í þá tíð. En ég var settur á bak við þetta tækifæri og var næstu sumrin af og til í sveit hjá Valdimar. Þar vandist ég hrossum og ástríðan jókst eftir því sem kynnin urðu meiri. Ég var síðan í sveit í Hrútafirði í tvö sumur og þar snerist öll hugsunin um hross. Á menntaskólaárunum var ég öll sumur í vegavinnu í Húnavatnssýslunum og þá var dellan orðin svo mikil að ég fór stundum og hjálpaði bændum í heyskap um helgar og tók jafnvel strákana úr vegavinnunni með mér og fékk í staðinn lánaða hesta til útreiðar. Þá kynntist ég vel Benedikt Líndal, hreppstjóra og bónda á Efra-Núpi í Miðfirði. Þegar haustaði dreymdi mig um að komast í göngur og þegar ég bað um frí úr vegavinnunni til að fara í göngur með heimamönnum fram á Tvídægru þá hélt verkstjórinn að ég væri orðinn vitlaus. Að taka frí frá vel borgaðri vinnu til að hristast á hestbaki lengst fram á heiðum í snarvitlausu veðri kannski. Svona var þetta nú, áhuginn alveg að drepa mig," segir Guðbrandur og hlakkar jafnmikið til og ævinlega að fá klárana sína í hús nú um áramótin þó allmörg ár séu liðin frá því hann fór í sínar fyrstu göngur með Húnvetningum.


„Ég tek reyndar óvenju seint inn núna því hesthúsið er ekki alveg tilbúið. Venjulega höfum við tekið hestana inn í vikunni fyrir jól. Þetta er nú byggt á þeirri reynslu að eftir miðjan desember bregður veðrinu oft til hins verra. Þá er betra að vita af klárunum í húsi. Einn veturinn gátum við ekki náð í hrossin vegna veðurs fyrr en viku af janúar og þá hét ég því að lenda ekki í slíku aftur.”

Alveg kolvitlaus andsk . . .

Guðbrandur rifjar upp fyrstu hestakaupin sín fyrir mig og verður dreyminn á svipinn. Hann er sögumaður og segir vel frá. "Ég eignaðist ekki hest fyrr en ári eftir að ég lauk læknisfræðinni. Ég var löngu búinn að heita mér því að um leið og ég væri byrjaður að vinna og sæi peninga þá skyldi ég kaupa mér hest. Ég fór beint út á land eftir að náminu lauk, fyrst norður á Húsavík og stuttu eftir það til Raufarhafnar. Ekki löngu síðar fór ég inn á Akureyri og höndlaði mína fyrstu tvo hesta."

Voru þetta miklir gæðingar?

„Ég veit nú ekki, en við urðum allavega vel frægir á norðurlandi, ég og annar klárinn. Hann var svo andskoti trylltur og erfiður. Ég var þá búinn að skoða fjölda hesta og fann ekkert sem mér leist á, þó var ég búinn að gera boð á undan mér og láta menn vita af því að ég væri að koma og verðið skipti ekki öllu máli, heldur væru það gæðin sem ég væri að leita að. Svo skoðaði ég hvern hestinn á fætur öðrum og sá ekkert sem mér líkaði. Þá er það að ég rek augun í hest sem stóð innarlega í hesthúsinu, bleikálóttur og tígulegur. „En þessi?” spyr ég. „Þetta er alveg kolvitlaus andskoti,“ segja þeir. „Það þarf læknir að vera viðstaddur þegar farið er á bak honum.” Ég hélt að það væri nú einfalt mál fyrir mig. „Leyfiði mér að skoða hestinn.“ Og það varð úr að þeir teymdu hann út á skafl og þar stóð hann og geislaði af honum krafturinn og fjörið. Svo var það með semingi sem kallarnir féllust á að leyfa mér að fara á bak. Það gekk nú bara nokkuð vel og ég reið á honum nokkur hundruð metra vandræðalaust. Það var ákveðið að ég skyldi prófa hann aftur daginn eftir og ef það gengi vel þá skyldi ég fá hann. „En þá fylgir annar með sem þú verður að kaupa líka,“ sögðu þeir. Og þetta endaði þannig að ég keypti klárinn dýru verði og fékk annan með, sjálfgerðan og þúfuspakan. Þegar upp var staðið mörgum árum síðar var það sá spaki sem var gæðingurinn. Hann var mikill stólpagripur en hinn var alla tíð stórvarasamur en kenndi mér þó flest af því sem ég kann í dag.”

Hvernig var hann erfiður?

„Hann varði sig alltaf á allan hátt, klárhelvítið. Hann hætti aldrei rokum og var svo fjári skynsamur en notaði skynsemina bara í óþverraháttinn. Þetta var mikil og hörð barátta okkar á milli í tvö ár, hvor okkar yrði ofan á. Hvort ég þyrði að halda áfram að fara á bak eða gæfist upp. Hann henti mér af sér margoft og slasaði mig illa en kjarkurinn og dugnaðurinn var svo algjörlega óbilandi að það bætti gallana upp. Í dag teldist svona hestur tæplega gæðingur en þetta var mikill hestur. En oft hef ég hugsað um hvað ég myndi fara öðruvísi að honum í dag en ég gerði þá. Maður kunni ekkert nema sitja á baki og berja fótastokkinn. Uppúr 1950 var ekki mikið verið að tala um gang í hestum. Ef hestur hafði mjúkt og yfirferðarmikið brokk var hann góður. Töltið, eða hýrusporið eins og kallarnir nefndu það, var almennt ekki laðað fram í hestum. Það var einn og einn hestamaður sem hafði áhuga á því. Og skeiðlullið sem kallað er í dag var talið ágætur gangur. Ætli það hafi nú ekki verið lull þetta þegar menn sögðust hafa riðið heilu þingmannaleiðirnar á skeiði.

Brokkið er grunngangur hjá hverjum hesti og ef brokkið er ekki hreint og gott þá kalla ég þá ekkert góða. Brokkið er algjör undirstaða. Nú eru menn að þvinga hross á tölt við allar aðstæður, rífa þau upp með pískinn á lofti og stundum er of langt gengið. Þetta er ekkert annað en vitleysa og mont, þó auðvitað sé gaman að setja á tölt þegar gatan er mjúk og góð."

Bálið í brjóstinu

Og ertu búinn að vera með hross samfellt frá þessum kaupum á Akureyri sællar minningar?

„Já, þetta hefur bara smávaxið ár frá ári. Ég var nú lengi bara með tvo en svo urðu þeir þrír og síðan fjórir og svo æxluðust hlutirnir þannig að ég var kominn til Reykjavíkur og vann á slysavarðstofunni, stefndi á framhaldsnám til Bandaríkjanna. Þá hittist svo á að Hvammstangahérað var laust og ég hafði alltaf haft taugar til Vestur-Húnavatnssýslu eftir öll vegavinnusumrin og fyrir atbeina landlæknis féllst ég á að fara norður til nokkurra mánaða. Ég ílentist svo þarna slatta af árum. Ég setti eitt skilyrði þegar pressað var á mig að taka héraðið, að ég þyrfti pláss fyrir fjóra hesta. Það var nú ekkert búið að gera ráðstafanir í þá veru þegar ég kom en ég dreif í því að innrétta hesthús í gömlum bílskúr við sjúkrahúsið. Þarna var alveg príma aðstaða. Svo varð úr þessu eins konar iðjuþjálfun því ég gerði gamlan vinnumann sem kominn var á sjúkrahúsið og talinn elliær og ruglaður að hestasveini og sendli fyrir sjúkrahúsið. Hann gekk alveg í endurnýjun lífdaga og gat sleppt öllum geðlyfjum eftir smátíma. Hann átti síðan nokkur ágæt ár sem hesta- og sendisveinn sjúkrahússins.”

Og þarna byrjarðu að fara í lengri ferðir á hestum?

„Já, ég fékk strax áhuga á því og við hópuðum okkur saman í héraðinu og riðum á landsmót og fjórðungsmót. Svo fór ég í ferðir um héraðið og skildi hrossin eftir í nátthaga og hélt svo áfram daginn eftir. Þessar stuttu ferðir á þessum árum kveiktu neista í mér sem hefur bara vaxið síðan og orðið að báli í brjóstinu. Það er alveg ólýsanleg tilfinning að komast í ferð á hestum, geta skilið allt daglega amstrið eftir, frelsistilfinningin sem fylgir því að ferðast á hestum í íslenskri náttúru. Ég hef alltaf haft almennan áhuga á náttúrunni og umhverfinu og kann best við mig utan þéttbýlisins. Þetta er tvíþætt því annars vegar er ánægjan af því að upplifa náttúruna í svo mikilli nálægð, fuglana, grösin og skordýrin. En hins vegar eru það átökin við náttúruna sem heilla líka. Ég hef lent í þvílíkum óveðrum í þessum ferðum að ég get ekki lýst því en þó alltaf fullviss um að allt verði í lagi. Þetta er stórkostleg upplifun. Ég hef lent í slíkum fárviðrum á Kili, Kaldadal og að Fjallabaki að maður hefur verið dauðhræddur um að eitthvað dræpist af hrossunum. En þó hef ég aldrei lent í því að missa hest í þessum ferðum. Sem betur fer. Og er þó búinn að fara í lengri og skemmri ferðir á hverju sumri nánast frá því 1972. Lengsta ferðin stóð 28 daga og sjaldan eða aldrei hafa hrossin mín verið betri en þá. Oft hef ég verið á ferðinni í viku til tíu daga. Erfiðasta ferðin sem ég man eftir var í kringum Hofsjökul og þá á ég við erfið fyrir hrossin því við vorum á hagleysum lengst af og hrossin fengu aðflutt hey og það var svo misjafnt frá einum degi til annars að maður hafði stórar áhyggjur af þeim. Það er eitt sem erfitt er að hafa stjórn á sjálfur, gæðin á heyinu sem maður kaupir óséð og treystir á að sé gott. Stundum er það eins og nýslegið og ilmandi en stundum er það myglað og rykugt. Það hefur í tvígang gerst að ég hef frekar svelt hestana mína en gefa þeim myglaðan rudda sem maður hefur keypt í góðri trú.”

Það er von að Guðbrandi hitni í hamsi þegar hann minnist á lélegt hey því hann er þekktur fyrir að fóðra hesta sína vel og þjálfa þá vandlega fyrir sumarferðirnar. Er endingu og úthaldi hesta hans viðbrugðið, þeir slá ekki feilspor þó komnir séu hátt á þrítugsaldurinn. „Já, þeir hafa enst vel hestarnir mínir. Ég hef stundum verið spurður hvar ég nái alltaf í svona duglega hesta. Svarið við því er einfalt. Ég þjálfa þá markvisst til að verða sterkir og duglegir. Þetta er ekkert öðruvísi en með mannfólkið. Þjálfunin og fóðrunin er aðalatriðið.”

Fjallabakshringurinn skemmtilegastur

Þegar ég bið Guðbrand að lýsa undirbúningi ferðar segir hann að ferð næsta sumars sé gjarnan ákveðin í ferð sumarsins. „Við erum á ferðinni og þá dettur okkur í hug að gaman væri að fara næst einhverja ákveðna leið. Og svo fer veturinn í undirbúning því það þarf að hafa góðan fyrirvara með pöntun á gistingu í skálum, fyrir áramót ef maður ætlar að vera öruggur, og síðan pöntun á heyi og öðru sem að ferðinni snýr. Við erum ákveðinn kjarni af köllum sem höfum ferðast saman í mörg ár og í kringum þennan kjarna er síðan talsverður hópur af fjölskyldumeðlimum og vinum og vandamönnum sem gjarnan slást í för með okkur hluta af leiðinni um lengri eða skemmri tíma. Þetta er óskaplega skemmtilegt allt saman.”

Og áttu þér einhverja uppáhaldsleið?

„Já, það er Fjallabakshringurinn. Það er besta og skemmtilegasta reiðleið á Íslandi. Menn hafa hælt moldargötum í Þingeyjarsýslunum og þær eru ágætar og reyndar víða annars staðar líka, en Fjallabakshringurinn slær allt út. Maður er alltaf á flennigötu. Mold eða sandi og það er óskaplega gaman að vera alltaf á góðri reiðgötu. Og svo bætist landslagið við, þarna sér maður þvílíka fjölbreytni í landslaginu að þó að ég sé búinn að fara þessa leið einum fimm eða sex sinnum þá finnst mér ég alltaf uppgötva eitthvað nýtt í hverri ferð. Ég gæti vel hugsað mér að ríða hringinn um Fjallabak á hverju sumri.”

 

 

"Hef haft áhuga á hestum frá því ég man eftir mér," segir Guðbrandur Kjartansson

Áning í Hlítardal í sumarferðinni 2006

Guðbrandur og Snilli 26 vetra, sumarið 2006

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica