11. tbl 92. árg. 2006
Umræða og fréttir
Galdurinn við tónlist Wagners - áhugamál Árna Tómasar Ragnarssonar
Árni Tómas Ragnarsson gigtsjúkdómalæknir getur með réttu kallast Wagneraðdáandi á Íslandi númer eitt. Þessi aðdáun er ríflega 20 ára gömul og Wagnerfélagið sem stofnað var að undirlagi hans fagnaði 10 ára afmæli í fyrrahaust. Félagar eru um 200 talsins.
Árni Tómas hefur stutt dyggilega við bakið á Íslensku óperunni, setið í stjórn hennar, ritstýrt Óperublaðinu og verið öflugur í Vinafélagi Íslensku óperunnar. Það væri því hægt að spjalla vel og lengi um störf Árna Tómasar á vettvangi íslensks óperuflutnings án þess að Wagner kæmi við sögu en það var þó áhugi hans á óperum Richards Wagner sem varð til þess að ég átti við hann samtal á dögunum. Þess verður ennfremur að geta að Árni Tómas og kona hans Selma Guðmundsdóttir píanóleikari áttu drjúgan þátt í því að óperustjórinn í Bayreuth, Wolfgang Wagner, ljáði máls á því að Niflungahringurinn yrði fluttur hér á Listahátíð 2004 í talsvert styttri útgáfu en vanalegt er og vakti sá flutningur athygli langt út fyrir íslenska landsteina.
Árni Tómas var myndritstjóri bókar Árna Björnssonar þjóðháttafræðings Wagner og Völs-ungar sem kom út árið 2000. Þar eru rakin margvísleg tengsl í verkum Wagners, ekki síst í Niflungahringnum, við fornan íslenskar bókmenntir, Völsungasögu og Völuspá, fyrst og fremst.
Drepleiddist fyrstu fimm árin!
Árni Tómas kveðst ekki hafa verið alinn upp við tónlistariðkun, áhuginn hafi kviknað fremur seint og hann ekki byrjað að sækja tónleika fyrr en hann kynntist konu sinni rétt innan við tvítugt. "Hún dró mig á sinfóníutónleika og mér drepleiddist fyrstu fimm árin," segir hann sposkur og kveðst hafa verið lengi að venjast þessum hljóðum. "Eftir að þetta vandist fór ég að hafa ánægju af og reyndar miklu fleiri tegundum tónlistar en sinfóníutónlist; tónlist fyrir einleikshljóðfæri vakti einnig áhuga en ég geri reyndar ekki mikinn greinarmun og hlusta á alla tónlist ef svo ber undir. Ef lagið er gott þá er mér eiginlega sama hvað tónlistin heitir."
Óperuáhuginn kviknaði enn seinna hjá Árna Tómasi en hann kveðst þó hafa séð óperur í Þjóðleikhúsinu á unglingsárum. "Ég átti plötu með La Boheme og það var fyrsta óperan sem kveikti áhuga hjá mér en það var þó ekki fyrr en ég fór í framhaldsnám í gigtlækningum til Stokkhólms að ég byrjaði að bera nokkra virðingu fyrir óperum og klassískri tónlist. Ég hafði áhuga á að þroska mig í þessari hlustun og fór í óperuhús í Stokkhólmi og komst að því að ég réði við óperur Puccinis og Verdis."
Áttirðu þér uppáhaldssöngvara í sænsku óperuhúsunum?
"Nei, ekki var það nú en mér er minnisstætt að ég keypti mér tvöfalt albúm með Maríu Callas og féll alveg fyrir henni, hef verið Callas-aðdáandi síðan. En ég fór uppúr þessu að spekúlera mikið í söngvurum og hef gert allar götur síðan. Jussi Björling komst snemma í uppáhald enda algjör snillingur."
Árni Tómas segir að hann hafi hlustað á alls kyns óperutónlist á þessum árum en Verdi og Puccini voru hans menn.
"Ég var lítið hrifinn af þýskum óperum og alls ekki Wagner! Ég tók t.d. upp þykkjuna fyrir ítölsku óperurnar þegar ég sá Rósariddarann eftir Richard Strauss en þar er atriði þar sem tenór er fenginn til að syngja ansi fallega aríu í ítölskum stíl fyrir marskálksfrúna á meðan hún lætur greiða sér. Hann syngur þar til hún fær sendiboða með skilaboð en þá segir hún söngvaranum að þegja svo hún geti heyrt skilaboðin. Þetta þótti mér dæmigert fyrir þýskar óperur að í eina atriðinu sem hlustandi var á þá er söngvaranum bara sagt að halda kjafti! Ég fyrirgaf Strauss þetta ekki fyrr en mörgum árum seinna."
Vínsmakk og Wagner
Fyrstu kynni þín af óperum Wagners lofuðu ekki góðu.
"Nei. Ég sá Niflungahringinn í Stokkhólmi. Þetta voru fjögurra tíma leiðindi. Þarna sat maður í myrkrinu og það var líka myrkur á sviðinu utan smáglæta á tvo karla sem töluðu saman á þýsku og sungu einhverja hljóma sem ég botnaði ekkert í. Það var ekkert gaman að þessu. Ég fór heim með þá hugsun að Wagner væri hreinlega óforskammaður að ætlast til þess að maður eyddi svo miklum tíma í að hlusta á þessi verk hans. Svo liðu mörg ár og ég var fluttur heim til Íslands og var þá eitthvað aðeins búinn að pæla meira í Wagner en ekki mikið og hann var alls ekki í neinu uppáhaldi hjá mér. Þá býður sá ágæti vinur minn Einar Thoroddson læknir mér í heimsókn til sín í "vínsmakk og Wagner" eins og hann kallaði það; að smakka á eðalvínum og hlusta á Wagner. Ég þáði boðið útá vínsmakkið og þarna sátum við nokkrir félagar í herberginu hans þar sem hann hafði innréttað heilan fataskáp sem vínskáp og dreyptum á og byrjuðum að hlusta á Niflungahringinn. Einar útskýrði jafnóðum hvað var að gerast, rétt eins og hann væri að rekja söguþráðinn í Asterix og tók þetta allt saman af stalli fyrir mig. Ég skildi að þetta var bara saga sem Wagner var að segja. Þetta var heilmikil opnun fyrir mig. Næsta skref var afmælissýning Bayreuth leikhússins á Niflungahringnum á 100 ára dánarafmæli Wagners árið 1983. Þetta var sýnt í sjónvarpi víða um heim og Þorsteinn Blöndal átti myndbandsupptöku af þessu úr sænska sjónvarpinu með sænskum texta. Það var önnur opinberun. Textinn er nefnilega svo mikilvægur og það er ekki nóg að hlusta á sönginn og vita ekki hvað er verið að segja. Seinna beitti ég mér fyrir því í Íslensku óperunni að keypt yrðu textaskilti svo áhorfendur gætu lesið textann um leið og sungið er. Texti Niflungahringsins er nefnilega auðskilinn og sagan mjög skemmtileg og spennandi. Síðan þetta var, líklega 1984-1985, hef ég verið býsna frelsaður gagnvart Wagner einsog stundum er sagt um okkur sem göngum honum á hönd."
Síðan er liðin allmörg ár, einsog segir í dægurtextanum.
"Já, og skilningurinn dýpkar og nautnin af því að hlusta á Wagner verður sífellt meiri. Ég er reyndar ekkert lærður í tónlist, syng ekki og spila ekki á hljóðfæri, og meðtek því tónlist algjörlega tilfinningalega. Lærðir tónlistarmenn hafa aðrar forsendur til að meta tónlist og geta hlustað með heilanum, intellektúelt, en ég get það ekki. Hlusta bara með hjartanu. Og tónlist Wagners gengur beint inn í hjartað. Hún lyftir textanum í æðra veldi, þar er sungið um stórar tilfinningar og tónlistin útskýrir það sem ekki er hægt að segja með orðum, stundum segir tónlistin annað en sagt er og skýrir þá fyrir manni hvernig persónunum líður, segir manni hvað þær eru að hugsa, jafnvel þegar þegar þær segja annað. Tristan og Ísold er gott dæmi um þetta þar sem sagan snýst um miklar tilfinningar og í rauninni gerist ekki svo mikið í frásögninni sjálfri. Atburðarásin á sér stað í tónlistinni, hin tilfinningalega atburðarás sem er hreint út sagt stórbrotin. Þetta er ein af mínum uppáhaldsóperum eftir Wagner.
Ég sakna þess oft úr venjulegum leiksýningum að hafa ekki tónlist til að skynja betur hvað liggur á bakvið. Heyra ekki hugsunina. Wagner hafði ákveðnar kenningar um þetta og kallaði þetta undirmeðvitund sem er merkilegt útaf fyrir sig því það var talsvert löngu áður en Freud kom fram með sínar kenningar."
Wagner samdi alla óperutexta sína sjálfur sem er óvenjulegt.
"Já, hann leit á sig sem skáld og kom fram og las upp textana sína fyrir áheyrendur löngu áður en hann samdi tónlistina við þá. Þetta eru í rauninni textaverk upplýst með tónum öfugt við flestar óperur þar sem tónskáldið semur tónlistina og fær svo annan mann til að semja textana. Wagner samdi tónlist sem passaði við textann og breytti nánast aldrei neinu í textanum. Hann lýsir því í dagbókum sínum hvernig hann hafi fengið tónhugmyndir þegar hann var að semja textana og á einum stað segir hann: Nú er ég búinn með Hringinn, ég á bara eftir að semja tónlistina."
Er þetta ástæðan fyrir því að tónlist hans er stundum gagnrýnd fyrir að vera strembin og nokkuð óþjál?
"Hann var á sínum tíma gagnrýndur fyrir tvennt einkum og sumt af þeirri gagnrýni heyrist jafnvel enn í dag. Hann kom fram með alveg nýja tegund tónlistar, hann er byltingarmaður tónlistarlega og gerir ýmsar formbreytingar sem aldrei höfðu heyrst áður. Samtímamenn hans áttu sumir erfitt með að kyngja þessu en hann hafði hins vegar gríðarlega mikil áhrif á eftirkomendur og nægir að nefna Mahler og Schönberg í því sambandi. Tónlist Wagners er ekki aðgengileg og alls ekki auðveld fyrir þann sem er að byrja að hlusta nema að hún sé útskýrð og textinn hafður til hliðsjónar. En það er annað við tónlist Wagners sem gerir hana erfiða fyrir marga í upphafi. Hún er svo nærgöngul og ágeng. Þeir sem vilja fá að vera aðeins meira í friði við sína tónlistarhlustun leita kannski frekar til Bachs. Wagner ræðst inn á mann og annaðhvort býður maður honum inn eða rekur hann út. Tónlist Wagners er svo tilfinningalega hlaðin að hún er alls ekki fyrir alla. En þeir sem á annað borð taka honum ánetjast gersamlega og verða aldrei alveg samir eftir það."
Heimtaði þögn í salnum
Wagner hafði ýmsar stórfenglegar hugmyndir um hlutverk leikhússins og gerði þar grundvallarbreytingar sem hafa fyrir löngu fest sig í sessi.
"Hann leit á sig sem leikhúsmann og textahöfund fyrst og fremst þó hann viðurkenndi síðar á ævinni að hann væri liðtækt tónskáld. Hann taldi sig arftaka grísku leikskáldanna og taldi hlutverk leikhússins og óperunnar eiga að vera það sama í samfélaginu og þá. Hann samdi líka í anda þeirra, en Niflungahringurinn er risastór þríleikur eins og var venja grísku leikskáldanna, en hann vildi gera eins og Grikkir til forna að steypa saman öllum listformunum, söng, tónlist, leik, búningum, leikmynd og texta í eina heild sem hann kallaði Gesamtkunstwerk og fannst hann þar með vera að skapa nýjan og mikilvægan leikhúsheim. Fyrir honum var óperan ekki nein dægradvöl eða afþreying eins og hún hafði verið um langan aldur fram að því fyrir aðalinn í háborgum Evrópu. Aðallinn kom í óperuna til að sýna sig og sjá aðra, það var kveikt í salnum allan tímann og fólk neytti matar og drykkjar í sætum sínum og spjallaði saman og þagnaði kannski aðeins til að hlusta á eina aríu, eða ef eitthvað sérlega stórfenglegt var að gerast á sviðinu. Wagner sagðist ekki vilja sjá þetta. Hann krafðist þess að fólk sæti og hlustaði, hann vildi þögn í salnum allan tímann og hann slökkti ljósin í salnum! Þetta var djörf nýjung á þeim tíma. Hann byggði leikhúsið í Bayreuth í anda gríska leikhússins, salurinn er stórt amfiteater, djúpur hálfhringur þar sem sést jafn vel á sviðið hvar sem setið er. Hann vildi engar hliðarstúkur eða þvíumlíkt, hann vildi að allir væru jafnir í leikhúsinu og hann faldi hljómsveitina fyrir áhorfendum sem var líka nýjung. Öll athyglin átti að beinast að sviðinu. Þetta teljum við sjálfsagt í dag en var róttæk nýjung á dögum Wagners. Hugmynd hans á bakvið byggingu leikhússins í Bayreuth var heldur ekki að skapa því sérstöðu meðal aðalsins heldur einmitt hið gagnstæða, hann vildi brjótast út úr viðjum tilgerðar og upphafningar og skapa aðstæður þar sem allir gætu notið listar hans jafnt. Fyrir vikið lenti hann í útistöðum við kónginn í München sem vildi að hann frumsýndi Niflungahringinn þar í borg. Wagner sagði nei. Hann vildi frumsýna í Bayreuth þar sem engin tengsl væru við aðalinn og allir ættu jafnan aðgang. Hann vildi meira að segja að það væri frítt inn á sýningarnar og enn í dag er þeirri hefð viðhaldið að á hverri hátíð eru þrjár eða fjórar sýningar þar sem er frítt inn."
Sífellt nýjar spurningar
En nú er Bayreuth orðin eins konar Mekka Wagneraðdáenda og tíu ára biðlisti eftir miðum á sýningarnar
"Já, víst er Bayreuth mikil Mekka í þeim skilningi, en það er samt ekki eins mikið snobb í kringum sýningarnar þar og ætla mætti. Því þetta eru langar sýningar, um sex klukkutímar með hléum yfirleitt, og þeir sem stunda listina fyrir snobbið eingöngu leita annað þar sem auðveldara er að fela áhugaleysi sitt. Þá er til dæmis betra að sækja Mozarthátíðina í Salzburg þar sem tónleikarnir eru stuttir og tónlistin þægilegri áheyrnar."
Aðdáun fólks á Wagner á sér eiginlega enga hliðstæðu.
"Nei, þetta er vissulega nokkuð sérstakt. Það eru víða starfandi Wagnerfélög þar sem áhugasamt fólk um óperur Wagners kemur reglulega saman til að horfa á, hlusta og tala um verkin hans. Það eru ekki til Mozartfélög eða Bachfélög sem starfa á svipuðum nótum. Það er svo mikið í verkum Wagners og eins í manninum sjálfum sem kallar á þetta. Tónlistin er svo grípandi og textarnir eru nógu djúpir til að hægt sé að túlka þá á ýmsa vegu. Undirtónar textans eru oft pólitískir, heimspekilegir og sálfræðilegir. Aðrir óperutextar eru oft ekki ýkja merkilegur skáldskapur. Þessu er best svarað með spurningu. Maður getur endalaust hlustað á verkin aftur og aftur, engst undir tónlistinni og horfið inn í þennan ástríðumikla og tilfinningaþrungna heim og stendur svo alltaf eftir með nýjar spurningar þrátt fyrir endurtekna hlustun. Það er galdurinn við Wagner."
Árni Tómas ásamt fjölskyldu sinni á Wagnerhátíðinni í Bayreuth í fyrrasumar
Frá vinstri: Freyja Ingimarsdóttir, Ragnar Tómas Árnason, Selma Lára Árnadóttir, Selma Guðmundsdóttir og Árni Tómas.