05. tbl 92. árg. 2006

Íðorð 187. Málfar í fyrirlestrum (frh.)

p01-hofny

Í síðasta pistli var drepið á málfar í fyrirlestrum. Eftirfarandi tilvitnun sýnir að oft má betur gera: "Varðandi rekommendasjónir fyrir meðferð, þá höfum við adapterað það besta sem við höfum fundið, en það er erfitt þegar empirísk meðferð hefur ekki dugað." Slettur af þessu tagi ættu ekki að sjást í vel gerðum fyrirlestrum á virðulegum stofnunum. Hins vegar er áheyrendum stundum komið á óvart með skemmtilegum nýyrðum í góðum fyrirlestrum. Þannig talaði Viðar Eðvarðsson, barnalæknir, nýlega um næturvætu hjá börnum í stað undirmigu sem Íðorðasafn lækna birtir sem þýðingu á enuresis nocturna. Haraldur Briem, sóttvarnalækir, kom með hið ágæta heiti slímbrá, til að tákna mucocilia, bifhár slímhimnu. Ólafur Kjartansson, röntgen-læknir, rifjaði upp nafnorðið stigull fyrir gradient og notaði lýsingarorðið segulskær um það sem lýsir upp á myndum við segulsneiðmyndatöku.

Incontinentia

Í tengslum við ofanritað var flett upp á enska heitinu incontinence. Íðorðasafn lækna birtir þýðingu og lýsingu sem undirritaður hefur aldrei verið sáttur við: lausheldni. Ósjálfráð tæming til baks og kviðar. Geta lesendur lagt til eitthvað betra?

Eitt orð eða tvö

Í vaxandi mæli verður þess vart að ungir fyrirlesarar hafa ekki tilfinningu fyrir því hvernig fara skal með ýmis samsett íslensk heiti. Undirritaður hefur því miður ekki gætt að því að safna dæmum jafnóðum, en oft verið ósáttur við það hvernig góð og gild íslensk orð og heiti eru klofin í tvennt. Þetta virðist fyrst og fremst hrá eftiröpun úr ensku. Nýleg dæmi eru "viðmiðunar hópur" í stað viðmiðunarhópur og "tölfræði aðferð" í stað tölfræðiaðferð. Erfitt er að bregðast við þessu öðru vísi en að benda fyrirlesur-um kurteislega á þau orð sem ranglega eru klofin á glærum þeirra.

Einangur

Frá Þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins barst fyrirspurn um hvernig best færi á að þýða samsetn-inguna human isolate. Með fylgdu þær upplýsingar að þar á bæ væri íslenska nafnorðið einangur notað sem þýðing á enska heitinu isolate. Undirrituðum var ekki kunnugt um að orðið einangur væri til í íslensku og af einhverjum ástæðum setti að honum hroll við að sjá það, enda getur nafnorðið angur táknað hryggð eða sorg. Við athugun kom þó í ljós að orðið hefur verið í notkun frá fyrri hluta nítjándu aldar og að elsta heimildin um það í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er frá sextándu öld.

Í Íslenskri orðabók Eddu er greint frá því að nafn-orðið einangur sé bæði til í karlkyni (einangurinn) og hvorugkyni (einangrið). Í Orðabók Háskólans eru fleiri dæmi um hið fyrra og virðist ekki um að ræða neinn afgerandi merkingarmun. Íslenska orðabókin gefur þessar lýsingar: 1 þrengsli, þröngur staður, aðhald. 2 einvera 3 klípa, þraut, hætta. 4 stofn lífvera þar sem um langan aldur hefur tíðkast "skyldraæxlun, einkum vegna einangrunar. Í Íðorða-safni lækna er einungis að finna sagnorðið isolate, að einangra."

Leit á netinu gefur til kynna að enska nafnorðið isolate sé notað í örverufræði um stofn af örverum sem einangraður hefur verið úr sýni úr dýri eða manni. Human isolate vísar því til örverustofns sem fundist hefur í manni eða mönnum. Undirritaður lagði til að slíkt yrði nefnt einangur frá mönnum eða einangur úr mönnum.

 

Sérgreinaheiti

Friðbjörn Sigurðsson, krabbameinslæknir, hringdi og bað um nýtt íslenskt heiti á sérgreinina gyneco-logical oncology. Íðorðasafn lækna birtir enska heitið oncology og íslensku þýðinguna æxlafræði. Vissulega er það rétt þýðing. Orðhlutarnir eru komnir úr grísku þar sem onco- merkir æxli og logia merki fræði eða fræðigrein. Hins vegar er tilvísunin oftast þrengri, þannig að krabbameinsfræði er það sem við er átt. Heitið gynecology þýðir Íðorðasafnið sem kvensjúkdómafræði, án frekari skilgreiningar. Til samræmis lagði undirritaður til að gynecological oncology fengi heitið kvenæxlalækningar. Kvenkrabbameinslækningar er sennilega of langt til að vera nægilega lipurt heiti og kvenkrabba-lækningar gefur ekki rétta hugblæinn.

Friðbjörn nefndi um leið sérgreinina maternal-fetal medicine. Hann lýsti því að viðfangsefnin væru heilsufarsleg vandamál þungaðra kvenna og fóstursjúkdómar. Undirritaður lagði þá til, án mikillar umhugsunar, heitið þungunarsjúkdóma- og fósturlækningar. Ef til vill er þó nóg að tala um þungunar- og fósturlækningar á sama hátt og talað er um kvenlækningar í stað kvensjúkdómalækninga.

Í fljótu bragði er ekkert því til fyrirstöðu að heiti stakra fræðigreina læknisfræðinnar innihaldi orðhlutann sjúkdóma-, svo sem augnsjúkdómafræði, húðsjúkdómafræði og nýrnasjúkdómafræði þó að heiti tilsvarandi sérgreina geri það ekki, svo sem augnlækningar, húðlækningar og nýrnalækningar.

 

Cerclage

Að lokum er lýst eftir góðu íslensku heiti á cerclage, bandi sem hnýtt er umhverfis legháls til að koma í veg fyrir fósturlát við leghálsbilun.

johannhj@landspitali.is



Þetta vefsvæði byggir á Eplica