04. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

In memoriam

Baldur Garðar Johnsen

Hann var fæddur 22. október 1910 og dáinn 7. febrúar 2006. Útförin fór fram í kyrrþey að fyrir­mælum hins látna.

Baldur varð stúdent úr stærðfræðideild Mennta­skólans í Reykjavík árið 1930 og lauk kandídatsprófi í læknisfræði 20. júní 1936. Á háskólaárunum tók hann virkan þátt í félagslífi. Hann hafði forgöngu um að endurreisa Íþróttafélag stúdenta og var í stjórn þess. Starfsárið 1932-33 voru í stúdentaráði Háskóla Íslands læknanemarnir Baldur Johnsen, Bjarni Jónsson og Ólafur Geirsson. Mun þeim hafa komið saman um að annar aðili en ráðið væri heppilegri og réttari til þess að vinna að hagsmunamálum læknanema og gengust þeir því fyrir stofnun Félags læknanema. Baldur Johnsen var síðan kjörinn fulltrúi hægri manna í stúdentaráðinu haustið 1933 og varð hann formaður þess næsta starfsár.

Baldur fékk snemma mikinn áhuga á náttúruvísindum og fyrstu vísindaritgerð sína birti hann í Náttúrufræðingnum árið 1932. Fjallaði hann þar um eigin tilraunir á lyfjagrasinu (Pinguicula vulgaris) sem einnig hefir verið nefnt hleypisgras vegna nota þess við skyrgerð. Sumarið 1932 hóf Baldur könnun á gróðurfari heimabyggðar sinnar, Vestmannaeyja, og hélt þeim áfram sumarið eftir. Hann beitti þar, eins og hann segir frá í formálsorðum, mælingaaðferðum danska grasafræðingsins Christen Raunkiær. Niðurstöðurnar birtust í riti Vísindafélags Íslendinga 1939. Baldur áttaði sig snemma á tengslum manns og náttúru og tileinkaði sér þá þegar þau fræði sem fengu heitið vistfræði í lok sjöunda áratugarins.

Baldur kvæntist árið 1936 Jóhönnu Jóhanns­dóttur frá Möðruvöllum í Eyjafirði. Þeim fæddust fjögur börn: Björn 1936, Sigfús 1940, Skúli 1941 og Anna 1946. Jóhanna Johnsen andaðist 1996.

Baldur stundaði framhaldsnám í Kaupmanna­höfn 1936-38 og jafnframt klíníska náminu kynnti hann sér heilbrigðisfræði, lífeðlisfræði og meina­fræði. Hann var skipaður héraðslæknir í Ögur­héraði 1938 og í Ísafjarðarhéraði 1942 og gegndi jafnframt Ögur- og Hesteyrarhéruðum þegar ekki fengust læknar þangað.

Á Ísafjarðarárunum tóku Baldur og Jóhanna virkan þátt í bæjarlífinu. Hún hafði lært söng og söngkennslu í Danmörku og kenndi söng og ann­aðist raddþjálfun. Í ritdómi í Morgunblaðinu árið 1945 segir gagnrýnandi um hljómleika Sunnu­kórsins frá Ísafirði að tónmyndin hafi verið einkar samfelld og laus við ofreynslu, enda raddirnar óvenju þýðar. Þakkar hann það meðal annars kennslu og raddþjálfun Jóhönnu Johnsen. Hann bætir því við að hæfileiki Jóhönnu til að veita kvenröddum hinn eftirsótta höfuðresónans muni sjaldgæfur hér á landi og væri mikill fengur að fá frú Jóhönnu suður til lengri dvalar og tilsagnar söngfólks. Sjálfum er mér í barnsminni uppfærzla tónlistarfélaganna á Ísafirði á Meyjaskemmunni, söngleik byggðum á lögum eftir Franz Schubert. Þar söng frú Jóhanna eitt aðalhlutverkið með miklum glæsibrag og geislaði af henni á sviðinu.

Baldur var í bæjarstjórn og fræðsluráði Ísafjarðar 1944-50 og jafnframt formaður skólanefndar húsmæðraskólans. Hann var í stjórn ýmissa félagasam­taka og gekkst fyrir stofnun Læknafélags Vest­fjarða, fyrsta svæðisfélaginu utan Reykjavíkur. Þá stofnaði hann golfklúbb á Skipeyri 1944. Síðar varð golfsvæðið undirstaða flugvallarins. Baldur stundaði golf af kappi og varð meðal þeirra fyrstu er fóru "holu í höggi" hér á landi.

Á árunum 1957-59 sótti hann námskeið í Royal Institute of Public Health & Hygiene í London og lauk þaðan prófi í heilbrigðisfræðum, sem nú er farið að nefna lýðheilsufræði. Prófritgerð hans fjallaði um manneldi og heilsufar á Íslandi í ellefu aldir með sérstakri skírskotun til tannskemmda. Hann hlaut sérfræðiviðurkenningu í hagnýtri heilbrigðisfræði 1949.

Árið 1950-51 var Baldur starfandi læknir í Reykjavík og jafnframt læknir við bandaríska hersjúkrahúsið á Keflavíkurflugvelli og árið 1951 varð hann héraðslæknir í Vestmannaeyjum. Hann tók þar við góðu búi og nú gat hann komið á þeim nýjungum sem hann hafði viðað að sér í Bretlandi.

Árið 1960 venti hann kvæði sínu í kross og gerðist aðstoðarlæknir á Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði. Níu árum síðar hlaut hann sérfræðiviðurkenningu í líffærameinafræði og hafði þá lagt fram ritgerð um kannanir sínar á burðarmálsdauða. Þeim athugunum hélt hann áfram næstu árin og árið 1983 birti hann í Læknablaðinu grein með endanlegum niðurstöðum sínum um orsakir burðarmálsdauða á Íslandi 1955-76. Baldur var sérfræðingur á rannsóknastofunni til ársins 1970 og síðan ráðgjafi stofnunarinnar í líffærameinafræði ungbarna 1970-77.

Lög um hollustuvernd og heilbrigðiseftirlit voru samþykkt 1969 og snemma árs 1970 var Baldur Johnsen skipaður forstöðumaður og yfirlæknir Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Varð það nú hlutverk hans að fara fyrir stofnuninni og móta starfsemi hennar. Jafnframt var honum falið að semja drög að fyrstu heilbrigðisreglugerðinni fyrir allt landið. Þurfti þá að fella úr gildi tugi samþykkta sem voru fyrir einstaka staði. Lauk Baldur verkinu á tveimur árum. Þótti vel hafa til tekizt, enda samþykkti ráðherra tillögur hans og staðfesti án athugasemda í febrúar 1972. Varð nú allt starf við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga léttara og skilvirkara, enda reglurnar einfaldar og markvissar. Árið 1975 sagði Baldur upp stöðu sinni og fékk lausn frá störfum, en gegndi þeim að beiðni ráðherra fram í september 1976.

Kennslustörf Baldurs voru þau helzt að hann var stundakennari í næringarefnafræði við Hús­mæðrakennaraskóla Íslands 1961-70 og í heilbrigðis- og sjúkdómafræði við sama skóla 1971-76, lektor í lífeðlisfræði við tannlæknadeild Háskóla Íslands 1961-69 og hann var skipaður prófessor í heilbrigðisfræði við læknadeildina frá nóvember 1975-76 og síðan aukakennari við deildina til 1979.

Manneldismálin stóðu jafnan hug hans nærri og ritaði hann margar greinar um þau mál, þar á meðal um matvælaeftirlit. Þegar Manneldisráð Íslands var endurnýjað 1974 var Baldur þar að sjálfsögðu með í flokki. Hann lagði til afburðaþekkingu á heilbrigðissögunni og árið 1975 ritaði hann grein um framtíðarviðhorf í manneldisrannsóknum í ljósi fortíðar og nútíðar. Á vegum ráðsins gerði hann víðtækar rannsóknir á neyzluvenjum skólabarna í Reykjavík 1977-78 og á Vestfjörðum 1978-80.

Eftir að Baldur settist í helgan stein ritaði hann fjölda greina um margvísleg hugðarefni sín og vann úr mörgum viðfangsefnum sem hann hafði áður bryddað upp á. Skal hér aðeins nefnt eitt dæmi. Árið 1957 ályktaði hann um það í tímaritsgrein hvaða ráð danski læknirinn Peter Schleisner hafði haft til að vinna bug á ginklofanum sem herjaði á nýbura í Vesmannaeyjum. Árið 1982 kom síðan fylgirit með Læknablaðinu um sama efni og það hvernig Schleisner sigraðist á þessum vágesti. Hafði það vafizt fyrir fræðimönnum fram að því hvaða sértækum ráðum Schleisner beitti því ritgerð hans frá 1855 um ginklofann var talin glötuð. Baldur hafði upp á ritgerðinni í safni í Bretlandi og í fylgiritinu varpar hann skýru ljósi á málið allt. Er grein hans holl lesning öllum þeim sem fjalla um ungbarnadauða og heilbrigðisástand fyrr á tímum og verður ekki um þessi mál fjallað án þess að vitnað sé til skrifa Baldurs Johnsen.

Ég kynntist Baldri fyrst þegar við Björn son­ur hans vorum að leik í stóra læknishúsinu við Silfurgötu á Ísafirði. Í kjallaranum var ævin­týra­heimur þar sem fram fóru rannsóknir á tilrauna­dýrum og inn í þann heim fengum við að skyggnast. Er ekki ólíklegt að þau kynni hafi haft áhrif á eigið verkefnaval löngu síðar. Baldur var reglusamur og glaðsinna. Ávallt var gott að leita til hans því hann var mjög heilráður og hreinskiptinn. Er mér ljúft og skylt að minnast þessa athafnasama og hugmyndaríka brautryðjanda í heilbrigðis- og hollustumálum.

Baldur Garðar Johnsen læknir 1910-2006.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica