03. tbl 92. árg. 2006
Íðorð 185. Heilablóðfall og slag
Í síðasta pistli hófst umræða um heitin heilablóðfall og slag og verður henni nú fram haldið. Tilefnið var tölvupóstur frá Alberti Páli Sigurðssyni, taugasjúkdómalækni, en síðan hafa Einar Már Valdimarsson, taugasjúkdómalæknir, og Runólfur Pálsson, lyflæknir, einnig lagt til umræðunnar. Undirritaður leitaði einnig uppi dæmi um notkun heitanna og urðu þau að lokum miklu fleiri en hægt er að greina frá í stuttum pistli.
Blóðfall?
Ekki hafa fundist beinar heimildir um hvenær þetta orð var myndað eða hvernig það var upprunalega hugsað. Það er þó augljóslega mjög gamalt. Orðið er ekki að finna í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar, en kemur fyrir í Lexicon poeticum Sveinbjarnar Egilssonar og er þar þýtt sem blóðstraumur (blodström), blóðbylgja (blodbølge), blóð (blod). Ritmálssafn Orðabókar Háskólans tilgreinir þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu sem fyrstu heimildina, en hún er frá miðri 16. öld. Af þessum og öðrum tilgreindum heimildum má ráða að orðið blóðfall hafi upprunalega verið notað til að tákna blæðingar. Lækningabók Jónassens frá 1884 lýsir blóðfalli ?að heilanum? þannig: Þessi sjúkdómur er í því fólginn, að æðar í heilanum springa, svo blóðpollur myndast innan í heilanum, eða smá blóðdílar eru innan um heilann, þegar blætt hefur úr hinum smágjörvustu æðum (háræðum); - -. Þessi notkun á heitinu heilablóðfall bendir til að hugsunin að baki orðinu blóðfall hafi verið sú að þá falli blóð (eða blæði) út úr æðum, líffæri eða líkamanum, en ekki sú að blóðrás falli niður.
Heilablóðfall
Heilablóðfalli er nú þannig lýst í Íðorðasafni lækna: Heilkenni sem stafar af blæðingu í heilavef eða af lokun heilaæða af völdum blóðreks eða sega og einkennist af breytingu á meðvitund, krömpum og staðbundnum taugatruflunum. Þessi lýsing er tilgreind undir uppflettiorðinu cerebrovascular accident og þar eru einnig skráð samheitin: apoplexy, cerebral accident, cerebral apoplexy, cerebral hemorrhage, cerebral vascular accident, encephalorrhagia, episode, stroke. Óformleg könnun undirritaðs meðal nokkurra leikmanna leiddi í ljós að menn vita ekki nákvæmlega hvað orðið heilablóðfall merkir, en að flestir gera ráð fyrir alvarlegu heilaáfalli af völdum blæðingar.
Slag
Læknisfræðilega heitið slag er bein þýðing á gríska heitinu apoplexia á sama hátt og enska heitið stroke. Forliðurinn apo- merkir af, frá, burtu eða eftir, miðhlutinn, plex-, er dreginn af grísku sögninni plessein, sem merkir að slá, og viðliðurinn -ia táknar ástand. Bein orðhlutaþýðing gefur til kynna sjúkdómsástand þar sem eitthvað er slegið af, frá eða í burtu. Úr verður ágætlega myndræn lýsing á líkamlegu áfalli, sem er svo skyndilegt að því má líkja við högg, og felst í því að vissir þættir í starfsemi miðtaugakerfis falla niður. Bent hefur verið á að orsakir geta verið fleiri en ein. Í Lækningabók handa sjómönnum frá 1967, sem læknarnir Benedikt Tómasson og Ólafur Jóhannsson tóku saman, er til dæmis kafli um heilaslag (apoplexy). Þar segir meðal annars: Það er venjulega í því fólgið, að æð stíflast eða springur í heilanum. Íslensk læknisfræðiheiti Guðmundar Hannessonar frá 1954 gefa til kynna að heitið slag hafi fyrst og fremst verið notað um heilaáfall (heilaslag), en benda má á að Íslensk orðabók Eddu frá 2002 tilgreinir að orðið slag hafi einnig verið notað í merkingunni hjartaáfall (hjartaslag).
Skemmtileg tilvitnun frá síðari hluta 18. aldar kom fram í Orðabók Háskólans: Slag (apoplexia), kallaz yfirhöfud øll þau siúkdóms tilfelli, er á augabragdi firra menn øllum innvortis og útvortis sønsum.
Niðurstaða
Í samræmi við hugmyndir fyrrnefndra lækna er hér með lagt til að íslenska heitið slag verði notað þar sem á ensku væru notuð heitin stroke eða cerebrovascular accident. Eftir nánari greiningu áfallsins má síðan nota annaðhvort heitanna blæðingarslag (hemorrhagic stroke) eða blóðþurrðarslag (ischemic stroke).
Targeted therapy
Helgi Sigurðsson, krabbameinslæknir, hafði samband og sagði ekki rétt eftir sér haft í síðasta pistli því hann notaði fyrst og fremst heitið hnitmiðuð meðferð um targeted therapy. Ari Jóhannesson, lyflæknir, spurði undirritaðan á förnum vegi hvort ekki mætti gera fleiri tilraunir til nýyrðasmíða og setti fram hugmyndina hnituð meðferð. Undirritaður ítrekaði við báða tillögu sína um að nota heitið marksækin meðferð. Því er ætlað að leggja áherslu á að sótt er að ákveðnu marki (target), svo sem sameind í tilteknum efnaskiptum eða viðtaka (receptor) á yfirborði frumu. Gaman væri að heyra frá fleirum sem telja sér málið skylt.