04. tbl. 91. árg. 2005
Umræða og fréttir
Öll heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu undir einn hatt
Ákvörðun um að færa stöðvarnar í Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsbæ undir Heilsugæsluna í Reykjavík mælist misjafnlega fyrir
Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra hefur tekið um það ákvörðun að sameina stjórnsýslu allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu undir hatti Heilsugæslunnar í Reykjavík. Hann hefur tilkynnt sveitarstjórnum og stjórnendum stöðvanna um þessa ákvörðun og er óhætt að segja að hún mælist misjafnlega vel fyrir.
Ákvörðun ráðherrans felur í sér að stjórnsýsla heilsugæslustöðvanna í Garðabæ, Mosfellsbæ og Sólvangs í Hafnarfirði verður færð undir Heilsugæsluna í Reykjavík en þær hafa að mestu starfað sem sjálfstæðar rekstrareiningar hingað til. Auk þess á að sameina rekstur St. Jósefsspítala og hjúkrunarheimilisins Sólvangs í Hafnarfirði.
Þessi ákvörðun ráðherra var tilkynnt stjórnendum stöðvanna og bæjarstjórnum sveitarfélaganna þriggja síðari hluta febrúarmánaðar en síðan hefur fátt gerst. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar og bæjarráð Garðabæjar og Mosfellsbæjar fjölluðu um breytinguna á fundum sínum í byrjun mars og fóru fram á nánari skýringar og röksemdir fyrir þessari ákvörðun sem að mati bæjarráðs Garðabæjar gengur "þvert gegn sjónarmiðum Garðabæjar um eflingu á starfsemi heilsugæslunnar í bænum. Bæjarráð telur að aukin miðstýring á starfsemi heilsugæslunnar dragi úr frumkvæðisáhrifum hennar og hafi neikvæð áhrif á samstarf við bæjaryfirvöld, en slíkt samstarf aðila er sinna nærþjónustu við íbúana er forsenda fyrir bættri þjónustu heilsugæslunnar."
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti með atkvæðum allra bæjarfulltrúa að óska eftir viðræðum við ráðuneytið "um gerð samnings um rekstur stofnana á sviði heilbrigðis- og öldrunarmála í bænum. Meginmarkmiðið verði enn meiri samþætting heilbrigðis- og félagsþjónustu og að þjónustan verði færð nær þeim sem nýta hana. Í þessu sambandi verði m.a. tekið mið af reynslunni af slíkum samningum á Akureyri og á Höfn í Hornafirði."
Beðið eftir bréfi
Í viðræðum Læknablaðsins við lækna á heilsugæslustöðvunum kom fram gagnrýni á þær aðferðir sem beitt hefur verið við þessa ákvörðun. Jón Steinar Jónsson formaður læknaráðs í Garðabæ segir að ekki hafi verið rætt við neina starfsmenn stöðvarinnar, hvorki heilbrigðisstarfsmenn né þá sem sinna rekstri hennar, áður en ákvörðunin var tilkynnt.
Vilhjálmur Ari Arason formaður læknaráðs á heilsugæslustöðinni Sólvangi sagði að borist hefði munnleg tilkynning um ákvörðun ráðherra um miðjan febrúar en síðan hafi ekkert heyrst. "Við skrifuðum ráðherra bréf með óskum um að fá að vita á hvaða forsendum þessi ákvörðun byggðist en höfum ekki fengið neitt svar við því enn sem komið er. Það setur að okkur nokkurn ugg því hingað til hefur verið hlustað á okkur læknana þegar málum stöðvarinnar er ráðið," sagði hann.
Vilhjálmur Ari bætti því við að þetta setti ýmsa hluti í uppnám. Nú væri til dæmis verið að undirbúa nýja stöð í miðbæ Hafnarfjarðar og læknar á Sólvangi hafa tekið þátt í þeim undirbúningi. "Nú höfum við kannski ekkert meira um hana að segja. Það sama á við margskonar þróun hér innanhúss sem við höfum tekið virkan þátt í. Sporin frá Reykjavík hræða því eftir að stöðvarnar þar voru allar settar undir eina miðstjórn urðu læknaráðin óvirk. Eina ráðið sem er virkt er yfirlæknaráðið en það kemur ekkert frá grasrótinni."
Sérkennileg stjórnsýsla
Jón Steinar er sama sinnis um reynsluna frá Reykjavík. "Við höfum horft upp á afar sérkennilegar ákvarðanir Heilsugæslunnar í Reykjavík um þætti sem skipta máli fyrir þjónustu stöðvanna. Ég nefni sem dæmi þegar heimahjúkrun var færð út af stöðvunum og sett í eina miðlæga stofnun, svo ekki sé minnst á það þegar ákveðið var að taka aksturspeninga af starfsfólki heimahjúkrunar. Við erum með hjúkrunarfræðing og sjúkraliða sem sinna þessari þjónustu og teldum það mikla afturför að missa hana."
Jón Steinar nefndi einnig ákvörðun HR um að leggja niður rannsóknastofur á heilsugæslustöðvum og semja við Landspítalann um að sinna öllum rannsóknum. "Við höfum verið með rannsóknastofu hér frá upphafi og þar hefur sami meinatæknir starfað allan tímann. Þar hefur verið lagt í fjárfestingu sem er mikilvægur hluti af starfsemi stöðvarinnar, þjónustu hennar og ásýnd," segir Jón Steinar.
Á Sólvangi er einnig rekin rannsóknastofa sem Vilhjálmur Ari segir að sé vaxtarbroddur í starfsemi stöðvarinnar. "Við höfum verið sjálfum okkur nóg um rannsóknir og hér eru gerðar blóðrannsóknir alla daga. Stöðin er það stór að rannsóknarstofan er hagkvæm eining. Þjónustan sem þar er veitt hefur mælst afar vel fyrir og það væri skarð fyrir skildi ef hún yrði lögð niður," segir hann.
Þá og nú
Enginn dregur í efa að valdið er ráðherrans og hann hefur ákveðið að setja reglugerð um sameiningu á næstu vikum. Auglýst verður eftir framkvæmdastjórum sem eiga að taka til starfa 1. júlí en þá verða stöður núverandi framkvæmdastjóra lagðar niður. Þeir verða þó áfram í starfi til næstu áramóta.
Margir hafa bent á að ekki sé samræmi í þessari ákvörðun ráðherra og ummælum hans á þingi haustið 2003 þegar fram kom í stefnuræðu forsætisráðherra að ríkisstjórnin vildi kanna hvort flytja bæri heilsugæsluna, smærri spítala og þjónustu við aldraða til sveitarfélaganna. Þá sagði Jón Kristjánsson meðal annars:
"Hér erum við að tala um dæmigerða nærþjónustu. Við erum að tala um að gera mikilvæga þjónustu við íbúana gegnsæja og við erum að tala um að flytja ábyrgðina og eftirlitið með þjónustunni nær þeim sem nota hana. Við erum líka að tala um að fela sveitarstjórnunum að reka þjónustuna á þann hátt sem þær telja heppilegasta. Þetta er grunnhugsunin í kerfisbreytingunni sem við erum að tala um og ég vonast til að sveitarstjórnarmenn séu tilbúnir að kanna þetta með okkur og ganga til verksins með opinn huga."
Í minnisblaði sem bæjarfulltrúarnir Guðmundur Rúnar Árnason og Almar Grímsson birtu á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar eftir fund með ráðherra og ráðuneytismönnum 23. febrúar síðastliðinn kemur fram að ráðherra vísaði til þeirrar pattstöðu sem þá ríkti í viðræðum ríkis og sveitarfélaga um tekjustofna þeirra síðarnefndu. Á meðan sú staða er uppi væri tómt mál að tala um frekari yfirfærslu verkefna. Hann væri þó ekki horfinn frá þeirri stefnu að flytja bæri þessi verkefni nær íbúunum. Hins vegar hefði sameining heilbrigðisstofnana gefið góða raun á landsbyggðinni.
Nú er þessi pattstaða leyst svo þess er ef til vill að vænta að ráðherra svari fljótlega bréfum þeirra sem óskað hafa eftir rökum og stefnu sem ákvörðun um sameiningu heilsugæslustöðvanna er reist á.
Þórður Edilonsson læknir fylgist grannt með þeim sem koma í heilsugæslustöðina í Sólvangi.
Turninn á bæjarskrifstofum Garðabæjar gnæfir yfir heilsugæslustöðina.