07/08. tbl. 90.árg. 2004
Umræða og fréttir
Það var spurt um hugmyndir og árangur
- segir Vilmundur Guðnason forstöðulæknir Hjartaverndar um ástæður þess að samtökin fengu styrk frá National Institute of Health í Bandaríkjunum
Hjartavernd hefur um langt árabil stundað rannsóknir á hjarta- og æðasjúkdómum og áhættuþáttum sem þeim tengjast. Á síðustu árum hefur starfsemin eflst verulega og má ekki síst þakka það styrkjum sem samtökunum hefur tekist að afla frá National Institute of Health (NIH) í Bandaríkjunum. Nú starfa hjá Hjartavernd 90 manns auk 30 annarra sem ýmist eru verktakar eða í sérverkefnum á vegum samtakanna.
Mikilvægi þessara erlendu styrkja fyrir starfsemi Hjartaverndar má ráða af því að í fyrra námu þeir á milli 80 og 90 af hundraði allra tekna samtakanna. Rannsóknir Hjartaverndar eru ekki reknar í hagnaðarskyni og þátttakendur greiða ekki fyrir framlag sitt til þeirra. Einu tekjurnar eru því framlög á fjárlögum og styrkir úr innlendum og erlendum sjóðum.
Hjartavernd samdi fyrst við NIH árið 2001 en að sögn Vilmundar Guðnasonar forstöðulæknis voru þá liðin þrjú ár frá því hafist var handa við að sækja um. Við sóttum þennan styrk í samkeppni við marga öfluga rannsóknarhópa og þurftum að sýna fram á að við værum betri en aðrir. Við fengum ýmsa til liðs við okkur, meðal annars tók endurskoðunarfyrirtækið KPMG að sér að semja viðskiptaáætlun fyrir rannsóknirnar sem lögð var fram með umsókninni, segir Vilmundur.
Að breyta læknisfræðinni
En hvernig skyldi standa á því að bandarískt ríkisfyrirtæki ákveður að styrkja íslenska rannsóknarstofnun. Eftir hverju er verið að slægjast með því að veita Hjartavernd styrk?
Fyrir því eru einkum tvær ástæður. Hjartavernd er rannsóknarhópur sem hefur verið að verki í 35 ár en á þeim tíma hefur safnast upp mikil þekking og upplýsingar sem hægt er að nýta við áframhaldandi rannsóknir. Í öðru lagi höfum við ákveðnar hugmyndir um nýtingu þessara upplýsinga til að auka þekkingu okkar og jafnvel breyta læknisfræðinni. Við þetta má bæta því að við klárum það sem við byrjum á, segir Vilmundur.
Hann bætir því við að Hjartavernd hafi lagt áherslu á það í samningsgerðinni að öll úrvinnsla upplýsinga fari fram hér á landi. Við fengum meðal annars styrk til að koma hér upp ofurtölvu til að annast úrvinnslu úr heilamyndum og rökstuddum það með því að við höfum ákveðnar hugmyndir um það hvernig beita megi erfðafræði við þá úrvinnslu.
- En fylgja engar skuldbindingar þessum styrk?
Nei, ekki aðrar en þær að við skulum árangri. NIH eignast ekki gögn eða aðrar upplýsingar úr rannsókninni. Þetta verður að skoða í því samhengi að kostnaður bandarísks samfélags vegna sjúkdóma eins og hjartabilunar er gífurlegur. Það er því ljóst að þeir hafa áhuga á öllum rannsóknum sem geta orðið til þess að bæta meðferð eða stytta meðferðartímann. Spurningin sem þeir velta fyrir sér er sú hversu mikið þurfi að stytta þann tíma til þess að rannsóknin borgi sig. Þeir hafa því fyrst og fremst áhuga á að finna þá sem líklegir eru til að geta svarað spurningum sem breyta læknisfræðinni, draga úr kostnaði, bæta líðan fólk og auka lífsgæðin.
Tvenns konar vísindi
Vilmundur er sammála því að hér á landi hafi orðið mikil breyting á vísindaumhverfinu á undanförnum árum og segir að meginskýringin á því sé sú að atvinnumennska hafi aukist í íslenskum vísindum.
Íslenskir læknar hafa lengst af stundað rannsóknir í hjáverkum. Þeir hafa haft miklar klínískar skyldur og lítinn tíma til að stunda stórar rannsóknir. Nú er þetta að breytast enda er aukin atvinnumennska eina leiðin til að við verðum samkeppnishæf á alþjóðavettvangi. Það eru til tvenns konar vísindarannsóknir. Annars vegar eru það litlar, afmarkaðar rannsóknir sem enda með því að það eru skrifaðar ein eða tvær fræðigreinar í viðurkennd tímarit. Það er tiltölulega auðvelt að afla styrkja til svona rannsókna og þær geta skilað ágætum árangri. En það er ekki hægt að reka stór rannsóknarfyrirtæki á borð við Hjartavernd eða Íslenska erfðagreiningu (ÍE) eingöngu á svona styrkjum.
Hjartavernd hefur verið lengi að en á undanförnum árum hafa komið til sögunnar einkafyrirtæki í rannsóknum og þessar tvær tegundir fyrirtækja eru nauðsynlegar til þess að vísindasamfélagið geti blómstrað. Annars vegar eru það fyrirtæki á borð við Hjartavernd sem njóta opinberra styrkja og stunda grunnrannsóknir og við hlið þeirra einkafyrirtæki sem breyta þessum rannsóknum í verðmæti. Þessar tvær stoðir styðja hver aðra eins og sést á því að enginn á í meira samstarfi við ÍE en Hjartavernd sem samtímis er í samkeppni við fyrirtækið. ÍE er að þróa lyf um þessar mundir og það vill svo til að stór hluti rannsóknanna vegna þess fara fram hér hjá okkur.
Ég fagna því að það skuli vera unnið markvisst að því að gera heilbrigðisvísindi að atvinnugrein hér á landi. Þetta er tækifæri sem við fáum bara einu sinni og ef við grípum það ekki núna verða íslensk vísindi áfram tómstundagaman, segir Vilmundur.
Gröfum æ dýpra
Eins og fram kemur í viðtalinu við Hans Kristján Guðmundsson hjá Rannís hér í blaðinu hafa íslenskir vísindamenn nýtt sér aðgang að evrópskum rannsóknarstyrkjum í sívaxandi mæli. Vilmundur vill frekar líta til Bandaríkjanna eftir styrkjum.
Við höfum fengið eitthvað af litlum styrkjum frá Evrópu og höfum þurft að leggja fram fjármagn á móti þeim. Sú regla kemur hins vegar í veg fyrir að við getum sótt um stóra styrki til Evrópu. Það segir sig sjálft að ef okkur vantar einn milljarð króna í styrki til að gera einhverja rannsókn þá getum við ekki reitt fram helminginn af því sjálf nema í samstarfi við einkageirann en við það breytast allar forsendur rannsóknarinnar. Þetta er dauðadæmd stefna enda eiga vísindarannsóknir ekki auðvelt uppdráttar í Evrópu.
Menn hugsa öðruvísi í Bandaríkjunum enda standa þeir þjóða fremstir í vísindum. Þangað horfum við og erum til dæmis komin í góð tengsl við John Hopkins sjúkrahúsið þar sem starfa einhverjir fremstu vísindamenns heims á sviði læknisfræði. Við erum að koma upp teymi með þeim sem getur orðið öflugt í vísindarannsóknum í framtíðinni.
Vilmundur er bjartsýnn á framtíð Hjartaverndar og sér ekki fram á annað en að starfsemin muni halda áfram að eflast.
Mitt hlutverk er að skyggnast fram í tímann og sjá hvar við munum standa eftir fimm eða tíu ár. Ég sé fyrir mér að við munum ekki verða í síðri stöðu en núna. Við sjáum fram á árangur í starfi okkar sem heldur okkur í þeirri stöðu sem við erum. Við munum kafa æ dýpra og leitast við að svara mikilvægari spurningum, segir Vilmundur Guðnason forstöðulæknir.