Ritstjórnargreinar

----- þegar þú ert orðinn stór

"Hann var manna best vígur. Hann hjó með báðum höndum og skaut, ef hann vildi, og vó svo skjótt með sverði, að þrjú þóttu á lofti að sjá. Hann skaut manna best af boga og hæfði allt það, er hann skaut til." Þessa mannlýsingu þekkja allir. En Gunnar á Hlíðarenda var ekki bara "vænn að yfirliti og ljóslitaður, réttnefjaður og hafið upp framanvert, bláeygur og snareygur, roði í kinnum, hárið mikið, gult og fór vel", hann var einnig "mikill maður vexti og sterkur". En hversu mikill maður, hversu stór og hversu þungur? Um það eru ekki nákvæmar heimildir.

Ekki er með vissu vitað hversu stórir forfeður okkar voru. Ekki þarf oft að reka sig upp undir þvertré og hurðarása í gömlum húsum til að sannfærast um að núlifandi kynslóð er hærri hinum fyrri. Vel er þekkt sú staðreynd að hver kynslóðin er nú hærri þeirri næstu á undan.

Í Læknablaðinu birtist nýlega grein (1) um hæð og þyngd íslenskra barna. Grein þessi er ítarleg og vel unnin og af henni má draga margvíslegan lærdóm. Rannsóknin gefur glögga mynd af vexti barna á Íslandi. Niðurstöðurnar skapa þannig grundvöll til að meta vöxt einstakra barna og bera saman við hópinn. Slík viðmiðun getur gefið mikilvægar vísbendingar um heilsu einstaklinga.

Þekking á vexti barna endurspeglar heilsu einstaklinganna en einnig ástand þjóðar og þjóðfélaga (2). Margir þættir hafa áhrif á líkamlegan vöxt og þroska. Erfðaþættir skipta miklu máli enda var Kolskeggur, bróðir Gunnars á Hlíðarenda einnig "mikill maður og sterkur". Þó er ljóst að fleiri þættir koma við sögu. Annars værum við enn jafnhá forfeðrum okkar. Aðstæður og aðbúnaður, ásamt fæðu og umhverfi skipta máli. Eldri íslenskar rannsóknir staðfesta þetta að hluta til (3,4).

Niðurstöðurnar leiða einnig í ljós að Íslendingar eru með hávöxnustu þjóðum. Íslenskir karlar voru fyrr á öldinni 173 cm (4). Meðalhæð þeirra er nú 180,6 cm en meðalhæð kvenna 170,6 cm (1). Mikil hæðaraukning íslenskra karlmanna endurspeglar mögulega bættan aðbúnað þjóðarinnar á liðinni öld. Niðurstöðurnar eru sambærilegar norskum mælingum en nokkru hærri en tölur frá öðrum Norðurlöndum. Nýleg rannsókn frá Hollandi (5) sýnir þó að Hollendingar eru nú manna hávaxnastir. Meðalhæð fullvaxinna karlmanna þar í landi er nú 184 cm.

Grettir Ásmundarson var einnig mikill maður og rammur að afli. Fleira var þó athyglisvert í vexti Grettis sterka. Þegar Grettir synti til lands úr Drangey til að sækja eldinn lagðist hann til svefns að bænum Reykjum. Um morguninn komu þar að honum bóndadóttir og griðkona. Griðkonan mælti: "Svo vil ég heil, systir, hér er kominn Grettir Ásmundarson, og þykir mér raunar skammrifjamikill vera, og liggur ber. En það þykir mér fádæmi, hversu lítt hann er vaxinn niðri, og fer þetta eigi eftir gildleika hans öðrum."

Hér er einnig úr vöndu að ráða. Ber að skilja söguna svo að Grettir Ásmundarson, eitt mesta karlmenni fornsagnanna, hafi raunverulega verið lítt vaxinn niðri? Eða var hann lítt vaxinn niðri miðað við hinn mikla massa? Ekki er vitað hver reynsla griðkonunnar hafi verið eða hver samanburðurinn var. Voru skagfirskir karlar þessara ára miklir vexti? Hafa ber einnig í huga nýafstaðið sundið í köldum sjónum! Einnig í þessari lýsingu úr Grettissögu vantar nákvæmari viðmiðanir.



Í þessu hefti Læknablaðsins eru tvær greinar um kynþroska íslenskra drengja og stúlkna (6,7). Fengur er að þessum greinum eins og hinni fyrri. Greinarnar veita mikilsverðar upplýsingar um líkamlegan þroska barna og skapa þannig forsendur til að meta frávik á réttan hátt. Einnig er samanburður við erlendar rannsóknir áhugaverður sem fyrr. Loks geta niðurstöðurnar gefið upplýsingar um ástand og aðbúnað barna en rannsóknir hafa bent til að aldur við upphaf kynþroska barna á Vesturlöndum fari lækkandi (8).

Það er hverri þjóð nauðsynlegt að hafa greinargóðar upplýsingar um heilsufar sitt. Upplýsingar um líkamlegan vöxt og og þroska barna gefa mikilvægar upplýsingar sem gagnast við greiningu frávika hjá einstökum börnum. Niðurstöðurnar gagna einnig við mat á ástandi þjóðarinnar.

Þeir voru miklir kappar, Grettir, Gunnar og Kolskeggur. Og ekki skal atgerfi Gunnars á Hlíðarenda dregið í efa sem "hljóp meira en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram fyrir sig". En fróðlegt væri að vita hversu hátt hann stökk!



Heimildir

1. Dagbjartsson A, Þórsson ÁV, Pálsson GI, Arnórsson VH. Hæð og þyngd íslenskra barna og unglinga 6-20 ára. Læknablaðið 2000; 86: 509-14.

2. Goldstein H, Tanner JM. Ecological considerations in the creation and the use of Child Growth Standards. Lancet 1980; 1: 582-5.

3. Steffensen J. Menning og meinsemdir. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf.; 1975: 237-57.

4. Hannesson G. Körbermasse und Körberproportionen der Isländer. Reykjavík: Árbók Háskóla Íslands/Supplement; 1925.

5. Fredriks AM, van Buuren S, Burgmeijer RJ, Meulmeester JF, Beuker RJ, Brugman E, et al. Continuing positive secular growth change in The Netherlands 1955-1997. Pediatr Res 2000; 47: 316-23.

6. Þórsson ÁV, Dagbjartsson A, Pálsson GI, Arnórsson VH. Kynþroski íslenskra drengja. Læknablaðið 2000; 86: 655-9.

7. Þórsson ÁV, Dagbjartsson A, Pálsson GI, Arnórsson VH. Kynþroski íslenskra stúlkna. Læknablaðið 2000; 86: 649-53.

8. Taranger J, Engström I, Lichtensten H, Svenberg-Redgren I. Somatic Pubertal Development. Acta Pediatr Scand Suppl 1976; 258: 121-35.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica